Fara í efni
Umræðan

Er heimanám verkfallsbrot?

Til Kennarasambands Íslands, Lundarskóla, Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjórnar Akureyrarbæjar

Stjórn foreldrafélags Lundarskóla hefur fengið margar ábendingar um misræmi varðandi aðgengi að námsgögnum nemenda Lundarskóla á meðan á verkfalli stendur. Nemendum sumra bekkja var algjörlega meinað að taka með sér námsgögn heim degi fyrir verkfall. Var þeim og foreldrum tilkynnt að það væri verkfallsbrot að nemendur tækju með sér skólabækur heim. Í sumum bekkjum fengu foreldrar sem sóttust eftir því að taka námsgögn með heim og í öðrum bekkjum voru nemendur hreinlega hvattir til að taka skólabækur með sér heim degi fyrir verkfall. Þar af leiðandi teljum við að hvorki hafi verið samræmi í upplýsingagjöf til nemenda og foreldra né hvað varðar aðgengi að skólabókum.

Við styðjum kjarabaráttu kennara heilshugar og lýsum yfir stuðningi og ánægju með starfsfólk Lundarskóla. Hinsvegar teljum við að ekki hafi verið tryggt jafnt aðgengi nemenda að skólabókum í verkfalli. Samkvæmt grunnskólalögum ber sveitarfélögum að tryggja jafnan rétt nemenda til náms. Sömu lög kveða einnig á um að foreldrar og skólar beri ábyrgð á námi barna. Teljum við það vera lögfesta skyldu okkar sem foreldra að styðja börn okkar í námi og tryggja jafnan rétt þeirra til náms.

Óskum við því eftir ítarlegum rökstuðningi Kennarasambands Íslands og Lundarskóla á því að sumum börnum hafi verið meinað að fara með skólabækur heim en önnur verið hvött til þess. Teljum við ekki hafa verið gætt jafnræðis. Einnig óskum við eftir rökstuðningi fyrir þeirri afstöðu Kennarasambands Íslands að það sé verkfallsbrot að sumir nemendur sinni námi sínu í verkfalli kennara. Þá hvetjum við sveitarfélög þeirra skóla sem eru í verkfalli til þess að tryggja að öll börn í þessum þremur grunnskólum sem um ræðir hafi jafnan aðgang að skólabókum. Til dæmis með að bjóða foreldrum nemenda þessara skóla að sækja þau námsgögn sem þau telja börn sín hafa þörf á þar til verkfalli lýkur.

Þann 5. nóvember sendi umboðsmaður barna frá sér yfirlýsingu þar sem meðal annars er tekið fram að „Það er mikilvægt að lagt verði mat á þau áhrif sem verkfallið hefur á nemendur til þess að hægt verði að grípa til mótvægisaðgerða með það að markmiði að tryggja réttindi þeirra.“ Teljum við að jafnrétti nemenda og jafn réttur til aðgengis að skólagögnum sé þáttur í ofangreindu mati og þannig mikilvæg mótvægisaðgerð til að tryggja jöfn réttindi allra þeirra grunnskólabarna sem verkfallsaðgerðir hafa áhrif á. Einnig förum við fram á að heildstætt mat verði gert á þeim áhrifum sem verkfallið kann að hafa á þá nemendur sem verða af rétti sínum til menntunar.

Virðingarfyllst,

Stjórn foreldrafélags Lundarskóla

Fyrirspurnum má beina til stjórnar foreldrafélags:

for.lundarskoli@gmail.com

https://www.lundarskoli.is/is/foreldrar/foreldrafelag

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20