Fara í efni
Umræðan

Enn um skammsýni skipulagsyfirvalda á Akureyri

Jón Hjaltason svaraði grein minni um illa ígrundaðar tillögur Akureyrarbæjar að skipulagsbreytingum sem munu þrengja verulega að grænu svæði á móts við Laxdalshús og eina leikvellinum fyrir börnin í Innbænum, Leiruvelli. Það er leitt að sjá Jón endurtaka rangfærslurnar sem bærinn hefur ítrekað sett fram varðandi þetta mikilvæga útivistar- og leiksvæði í elsta hverfi bæjarins.

Breytt leiksvæði verður mun minna en áður var

Jón er öflugur sagnfræðingur og því er skemmtilegt frá því að segja að samanburðurinn á stærð leikvallarins fer algjörlega eftir því við hvaða tímabil er miðað. Vissulega hefur bærinn hug á því að stækka leiksvæðið frá því sem nú er, enda væri erfitt að minnka það meira en bæjarfélagið hefur nú þegar gert. Ef við hins vegar förum 30 ár aftur í tímann var leiksvæðið langtum stærra og fjölbreyttara en í dag, og mun stærra en gert er ráð fyrir í skammsýnum tillögum bæjarins að breyttu skipulagi.

Fyrir mér, sem hef búið Innbænum frá árinu 1980, er það deginum ljósara að verið er að minnka svæðið verulega frá því sem áður var. Bæjarfélagið ætti að horfast í augu við þá staðreynd í stað þess að reyna að fegra málið með því að tala um „lítilsháttar stækkun“ lóðarinnar að Hafnarstræti 16 og „stækkun“ leiksvæðisins. Það væri mun heiðarlegri málflutningur af hálfu Akureyrarbæjar.

Hefur Jón áhyggjur af útivistarsvæði búsetukjarnans?

Jón lýsir áhyggjum sínum af svifryki frá Drottningarbraut. Vissulega þarf að huga að því, og eins og Jón nefnir mætti bæta úr því að einhverju leyti með skjólsælu gróðurbelti. Þá mætti líka ráðast að rót vandans með því að lækka umferðarhraða, takmarka óþarfa notkun nagladekkja og koma fyrir umferðarljósum og gangbrautum á horni Drottningarbrautar og Aðalstrætis. Það myndi auka öryggi þeirra fjölmörgu sem heimsækja nýja og vandaða aðstöðu Siglingaklúbbsins Nökkva, en sá hópur hefur einmitt nýtt sér græna svæðið og Leiruvöllinn vel í tengslum við æfingar og keppni.

Jón segir hins vegar ekkert um skoðanir sínar á því að með viðbyggingunni færist helsta útivistarsvæði íbúanna í búsetukjarnanum nær Drottningabraut. Það hefur hingað til snúið að græna svæðinu, til ánægju fyrir bæði íbúa hússins og þá sem svæðið sækja. Eftir breytingarnar mun það hins vegar snúa að Drottningarbrautinni. Það væri áhugavert að heyra hvað Jóni finnst um það.

Rökvilla varðandi aðdráttarafl Innbæjarins fyrir barnafólk

Þá er spurning hversu vel Jón hafi kynnt sér fyrirhugaðar breytingar á húsinu, en þær munu engu breyta varðandi skjólsæld græna svæðisins. Hins vegar eru þau mál afgreidd af miklum metnaði í vandaðri tillögu Hermanns Georgs Gunnlaugssonar að leiksvæðinu, sem bærinn var kominn með á framkvæmdaáætlun en stóð ekki við. 

Jón minnist þar að auki á að sífellt fleiri hús í Innbænum séu nú komin í eigu einstaklinga sem eiga sér lögheimili víðs fjarri, eða aðkomumanna eins og þetta ágæta fólk er oft kallað hér fyrir norðan. Þess má geta að þessir einstaklingar hafa margir hverjir sýnt Innbænum mun meiri alúð og virðingu en Akureyrarbær hefur gert undanfarin ár.

Með þessu gefur Jón í skyn að börnum hafi fækkað í Innbænum og að því séu hugmyndir Hermanns Georgs of metnaðarfullar fyrir hverfið. Það minnir einmitt á síendurtekna rökvillu í aðgengismálum fatlaðs fólks, sem snýst um að það borgi sig ekki að bæta aðgengi að verslunum og veitingastöðum, til dæmis, af því að þangað komi svo fátt fatlað fólk. Og hvers vegna skyldi það vera?

Í Innbænum býr fjöldi barnafjölskyldna sem njóta góðs af Leiruvellinum og græna svæðinu á móts við Laxdalshús. Það sama á við um fjölmarga gesti sem koma við í Innbænum. Hafi Akureyrarbær áhyggjur af íbúasamsetningunni í Innbænum ætti hann að efla hér alla aðstöðu fyrir börn og barnafólk – en ekki þrengja að henni eins og hér er gert.

Hvað með hönnun hússins?

Eins og fram kom í grein minni um daginn er tekið fram í Aðalskipulagi Akureyrar að byggðin í Innbænum sé meðal helstu sérkenna Akureyrar. Því beri að halda yfirbragði þessa elsta hverfis bæjarins. Og hvernig gekk það eftir við byggingu Hafnarstrætis 16 á sínum tíma? Eftirfarandi umsögn er úr Húsakönnuninni Fjaran og Innbæinn 2012 eftir Hjörleif Stefánsson, einn helsta sérfræðing landsins í varðveislu eldri húsa og bæjarhluta, og Hönnu Rósu Sveinsdóttur frá Minjasafni Akureyrar:

„Húsið lengst til hægri er Hafnarstræti 16, byggt 1994. Hér er ekki gerð nein tilraun til aðlögunar að umhverfinu eða nærliggjandi húsum, hvorki í stíl né kvarða.“

En hvers má vænta af fyrirhugðum framkvæmdum? Í drögum að hönnunarforsögn vegna breytinganna segir: „Við hönnun nýbyggingar skal leitast við að hún falli vel að núverandi húsi og sínu nánasta umhverfi í formi, efnis- og litavali, auk þess að vera góð byggingarlist.“ Með þessi markmið í huga vekur kaflinn um efnis- og litaval hússins og viðbyggingarinnar talsverðum vonbrigðum: „Efnisval og litaval í nýbyggingu og núverandi húsi skal taka mið af notendum húsnæðisins og hannað á grundvelli algildrar hönnunar skv. byggingarreglugerð.“

Þetta var nú allt og sumt. Allt saman gott og blessað, sér í lagi markmiðið um algilda hönnun. Hins vegar gefur kaflinn afar rýra mynd af hönnun hússins og vekur litlar vonir um að metnaðurinn fyrir yfirbragði elsta hverfisins á Akureyri verði í fyrirrúmi.

Hver er lausnin? 

Jón talar líka um að skoða lausnir, sem er einmitt það sem við sem höfum barist fyrir framtíð þessa útivistarsvæðis til fjölda ára og jafnvel áratuga höfum óskað eftir. Bærinn virðist hins vegar ekki hafa minnsta áhuga á að skoða aðrar lausnir en þær sem nú eru á borðinu.

Í tillögum varðandi búsetukjarnann að Hafnarstræti 16 er talað um að breyta núverandi húsnæði í fjórar sjálfstæðar íbúðareiningar í stað fimm herbergja sambýlis sem þar er nú. Þá er lagt til að tveimur einstaklingsíbúðum verði bætt við í viðbyggingunni, sem verður til þess að græna svæðið minnkar verulega. Þá er gert ráð fyrir heilum tólf bílastæðum á lóðinni, en þó einungis þremur sem uppfylla kröfur um bílastæði fyrir fatlað fólk.

Einfaldasta lausnin á málinu væri sú að breyta núverandi húsnæði í fjórar sjálfstæðar íbúðareiningar og láta þar við sitja. Þess í stað mætti fjölga íbúðum í nýjum búsetukjörnum sem Akureyrarbær hyggst byggja um tvær og tryggja þannig sama framboð af húsnæði fyrir fatlaða íbúa bæjarins. Einnig væri hægt að hýsa starfsemi fjölnota fjölskylduhúss í Hafnarstræti 16, en það er annað óleyst verkefni á vegum Akureyrarbæjar. Öll getum við hins vegar verið sammála um þörfina á því að hraða uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk á Akureyri.

Enn og aftur hvet ég Akureyrarbæ til þess að hverfa frá fyrirhuguðum skipulagsbreytingum í Innbænum og hlúa þess í stað að Leiruvelli og græna svæðinu á móts við Laxdalshús – af metnaði og í samræmi við fyrri fyrirheit.

Með kveðju úr Innbænum,

Sigurbjörg Pálsdóttir er bókasafns- og upplýsingafræðingur

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00