Enn um rekstur hjúkrunarheimila
Nokkrar umræður hafa verið á undanförnum dögum í kjölfar þess að Heilsuvernd hjúkrunarheimili ehf. sagði upp 13 starfsmönnum í síðustu viku. Þessar uppsagnir hafa vakið upp ýmsar spurningar og kallað hefur verið eftir svörum okkar bæjarfulltrúa um stöðu þessara mála. Ýmislegt hefur verið rætt og ritað bæði nú og áður og þrátt fyrir tilraunir okkar kjörinna fulltrúa til að útskýra málin virðist enn gæta nokkurs misskilnings í þessum málum. Því er mikilvægt að upplýsa um nokkur grundvallaratriði sem tengjast þessum málum.
Ríkið ber ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila
Skv. lögum ber ríkið ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila og ber að greiða fyrir reksturinn. Því miður hafa greiðslur ríkisins ekki dugað fyrir rekstri hjúkrunarheimila um árabil. Af þeim sökum og eftir árangurslausar viðræður við ríkið tók Akureyrarbær ákvörðun um að skila rekstrinum á síðasta ári. Nýlega úttekt sem heilbrigðisráðherra lét gera staðfestir þennan viðvarandi hallarekstur hjúkrunarheimila og fjárþörf en þrátt fyrir það virðist ríkið ekki ætla að mæta þessum halla að fullu.
Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Opinber rekstur skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga og oft sem fólki er ekki ljóst hver sér um hvað. Sveitarfélög bera til að mynda ábyrgð á rekstri grunnskóla, leikskóla, þjónustu við fatlað fólk, snjómokstri ofl.. Ríkið ber síðan ábyrgð á öðrum verkefnum s.s. á rekstri sjúkrahúsa, heilsugæslu, lögreglu og hjúkrunarheimila svo dæmi séu tekin. Ein óskiljanlegasta gagnrýnin sem fram hefur komið í þessu máli er að bæjarstjórn Akureyrarbæjar sé sama um eldri íbúa bæjarins sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda. Sú gagnrýni er álíka ósanngjörn og segja að bæjarstjórn sé alveg sama um þá bæjarbúa sem leggjast á sjúkrahús, vegna þess að sveitarfélagið greiðir ekki fyrir þá þjónustu.
Sveitarfélög almennt ekki í rekstri hjúkrunarheimila
Algengur misskilningur er í gangi í umræðunni, og hefur oft komið upp í kjölfar þeirrar ákvörðunar Akureyrarbæjar að skila rekstrinum, að sveitarfélög séu flest að reka hjúkrunarheimili. Það er alls ekki rétt. Gerð var ágæt úttekt á þessari stöðu og birt í Morgunblaðinu á sl. ári þar sem fjallað var um vanda hjúkrunarheimila og skv. henni, nú þegar Akureyrarbær, Fjarðabyggð, Höfn og Vestmannaeyjar hafa skilað rekstrinum til ríkisins, þá eru aðeins um 15% af hjúkrunarrýmum í landinu í rekstri hjá sveitarfélögum.
Umræðan snýst ekki um innri leigu
Í umræðu um tap af rekstri Öldrunarheimila Akureyrar hafa ýmsir reynt að flækja hana með innri leigu og jafnvel hefur því verið haldið fram að tap af rekstri ÖA á liðnum árum væri einungis innri leiga og bókhaldsæfingar innan kerfis hjá Akureyrarbæ. Því er til að svara að það er alrangt og í allri þeirri umræðu sem við bæjarfulltrúar höfum tekið um tap af rekstri ÖA hefur innri leiga alltaf verið tekin út fyrir sviga.
Meðgjöf til ríkisins 1,8 milljarður króna
Í vikunni var lagt fyrir bæjarráð yfirlit um greiðslur Akureyrarbæjar með rekstri ÖA unnið af fjársýslusviði Akureyrarbæjar og KPMG. Skv. yfirlitinu námu greiðslur með rekstri ÖA á árunum 2012-2020 ríflega 1,8 milljarði sem er í fullu samræmi við það sem komið hefur fram í máli okkar kjörinna fulltrúa. Engin innri leiga, engar bókhaldsæfingar heldur raunverulegur kostnaður sem bærinn hefur greitt með rekstri ÖA. Akureyrarbær hefur gert kröfu um að ríkið greiði halla af rekstri en því hefur alfarið verið hafnað og því var ekki annað í stöðunni en að skila rekstrinum til ríkisins.
Nálgast má yfirlit um greiðslur Akureyrarbæjar með rekstri ÖA á heimasíðu Akureyrarbæjar - smellið hér
Af hverju létum við þetta viðgangast?
Eðlilega vakna spurningar um af hverju ekki var gripið fyrr til aðgerða af okkar hálfu vegna viðvarandi hallarekstrar. Í grein sem við bæjarfulltrúar birtum á Akureyri.net 4. mars s.l. fórum við ítarlega yfir ástæður þess og rétt að vísa í þá grein lesendum til frekari glöggvunar - sjá hér
Ábyrgðin er ríkisins
Bæjaryfirvöld á Akureyri ákváðu á síðasta ári að skila rekstri ÖA eftir árangurslausar viðræður við Sjúkratryggingar og ríkið. Það er hreinlega ekki forsvaranlegt að halda áfram að greiða árlega hundruðir milljóna króna með rekstri sem ríkinu ber að sjá um og fjármagna.
Sjúkratryggingar fyrir hönd ríkisins gerðu samning við Heilsuvernd um rekstur hjúkrunarheimilanna á Akureyri og ber ábyrgð á samningnum og eftirliti með þjónustunni. Akureyrarbær kom ekki að þeim samningi en hins vegar hefur samstarf bæjarins við forsvarsfólk Heilsuverndar, við yfirfærsluna, verið með miklum ágætum og þrátt fyrir uppsagnir í liðinni viku þá vil ég trúa því að veitt verði framúskarandi þjónusta við íbúa hjúkrunarheimilanna á Akureyri hér eftir sem hingað til.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson er formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar