Fara í efni
Umræðan

Enn um lagningu Blöndulínu 3 í bæjarlandinu

Fulltrúar Akureyrarbæjar og þingmenn kjördæmisins funda í dag með Landsneti vegna legu Blöndulínu 3 innan skilgreinds þéttbýlis í bæjarlandi Akureyrar. Landsnet vill leggja línuna ofanjarðar innan bæjarmarkanna en Akureyrarbær að strengurinn fari að mestu í jörðu.

Tenging línunnar er vissulega mikilvæg fyrir atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi. Alþingi hefur hinsvegar mótað stefnu sem fjallar einmitt um þá hagsmuni sem eru í húfi; lagningu raflínu í meginflutningskerfi innan skipulags þéttbýlis. Þar er gefin skýlaus og ótvíræð heimild til Landsnets um nýtingu jarðstrengs við slíkar aðstæður.

Rangar og villandi upplýsingar

Forkólfar Landsnets bera fyrir sig að ekki sé tæknilega mögulegt að leggja þessa 2 km af Blöndulínu í jörð innan bæjarmarkanna vegna áforma um aðrar strenglagnir á Norðurlandi og er þar helst að telja Dalvíkurlínu 2 sem er væntanlegur 66kV jarðstrengur milli Akureyrar og Dalvíkur. Þar með verði ekki hægt að leggja lengri jarðstreng í Blöndulínu 3 en þá nokkra tugi metra sem þarf til að koma línunni út fyrir nýja 220kV tengivirkið á Rangárvöllum sem byggt er fyrir jarðstrengi. Þetta telur Landsnet vera mikilvæga strenglögn því ekki vilja þeir hafa 220kV loftlínu hangandi yfir sér innan eigin girðingar!

Myndin sýnir mastragerð sem áformuð var í fyrri atrennu Blöndulínu3. Ekki er vitað hvernig möstur Landsnet hyggst nú reisa í þéttbýlinu. Landsnet var gert afturreka með fyrri matskýrslu Blöndulínu3. Á þeim tíma kom þó ekki annað til greina en að tengja Rangárvelli með jarðstreng um þéttbýlishluta bæjarlandsins. Landsnet hefur ekki kynnt með fullnægjandi hætti mastragerðir og línuleið innan þéttbýlisins. Þessi vinnubrögð standast ekki mál. (Mynd Sveinn í Felli)

 

Þar sem forkólfar Landsnets hafa ítrekað birt rangar eða villandi upplýsingar um notkun jarðstrengja í flutningskerfinu ályktaði Alþingi að fengin skyldi óháð umsögn um möguleika til strenglagna í flutningskerfi Landsnets.

Skv. þeim niðurstöðum er borð fyrir báru varðandi lagningu Blöndulínu 3 innan þéttbýlismarka á Akureyri þrátt fyrir lagningu Dalvíkurlínu 2. Jafnvel Landsnet rengir ekki þá niðurstöðu.

Þessi skýrsla setur forkólfum Landsnets þann ramma að þeir geta ekki sett fram ómöguleika strenglagnar um bæjarlandið án þess að sýna fram á einhver rök sem ekki komu fram í skýrslunni.

Minnisvarði úr stálmöstrum yrði stórslys

Dalvíkurlína 1 er yngri og sterkbyggðari en flestir leggir Byggðalínunnar. Hún er ein öflugasta línan í 66kV svæðiskerfum Landsnets. Línan er byggð fyrir 132kV spennu og hefur mikið meiri flutningsgetu en 66kV jarðstrengur. Því er meiri ástæða til að skiptu út flestum öðrum 66kV og 132kV línum Landsnets áður en röðin kemur að Dalvíkurlínu1.

Rekstur línunnar hefur verið áfallalaus ef frá er talinn leggurinn frá Hámundarstöðum að Dalvík sem hefur mölbrotnað að minnsta kosti þrisvar sinnum frá því hann var reistur árið 1987. Alltaf hefur Landsnet endurreist línuna í sama formi, nú síðast eftir jólaföstuveðrið 2019, en ætti fyrir löngu að vera búið að skipta út þeim örfáu kílómetrum línunnar. Innan fárra ára kemur að því að Dalvíkurlína1 verði að víkja fyrir aukinni byggð innan bæjarmarkanna og það sama gildir um Blöndulínu 3 verði hún reist á möstrum.


Akureyrarbær lagði fram málamiðlanir í viðræðum við Landsmet; annars vegar 2,3 km jarðstreng með endavirki ofan Lögmannshlíðarvegar, hins vegar 1,3 km streng með endavirki skammt vestan Lónsins.

Undanfarin misseri hefur Landsnet nýtt þá heimild við lagningu eða endurnýjun raflína við Reykjavík, Hafnarfjörð, Reykjanesbæ og Garðabæ, enda þykja loftlínur við íbúðabyggð vart boðlegar í dag af ýmsum ástæðum.

Það væri stórslys ef núverandi bæjarstjórn reisir sér minnisvarða í formi stálmastra sem verða þau síðustu sem reist verða í þéttbýli á Íslandi.

Allt vegna tilhæfulausra sögusagna um niðurrif á Dalvíkurlínu 1 sem nýst getur í marga áratugi í viðbót. Hún var reist á árunum 1982 -1987 og samkvæmt Landsneti er endingartími svona lína ríflega 70 ár. Við höfum þar ágætt dæmi um Laxárlínuna sem verður sjötug í ár.

Karl Ingólfsson starfar við ferðaþjónustu

Smellið hér til að sjá fyrri grein Karls Ingólfssonar um málið

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20