Eigi leið þú oss í frysti
- „Hæ, hvað segirðu?“
- „Allt gott, bara alveg rosalega góð/ur sko“.
Hver hefur ekki upplifað þetta samtal þegar aðilar hittast úti á götu? Svarið „allt gott” er stundum forritað í okkur, því hver nennir að tala við þann sem er ekki góð/ur?
- „Hæ, hvað segirðu?“
- „Ja, mér bara líður ekki nógu vel. Hef verið með hálf kramið hjarta og illt í sálinni að undanförnu.“
Þetta samtal er ekki algengt. Enda svo sem ekki sjálfsagt að við viljum segja frá því svona í daglegu spjalli að okkur líði eitthvað illa. Hvað þá í sálinni.
Það er merkilegt hversu margir fara í burnout eða kulnun um þessar mundir. Þeir sem eldri eru og hafa lifað að sjá sjónvarp og internet koma inn í samfélagið, skilja jafnvel ekki hvað er í gangi. Af hverju var aldrei neitt svona í gamla daga?
Já, af hverju var ekkert svona í gamla daga en fullt af þessu núna? Eðlilegast væri að draga þá ályktun að það sé búið að aumingjavæða samfélagið. „Fólk er alveg hætt að nenna að leggja eitthvað á sig“!
En hvert er ég að fara með þessum pistli?
Jú sko, mig langar að segja mína reynslu af því að fara svona undir frostmarkið. Ég áttaði mig á því að ég væri svo kalinn að ég ráfaði um í köldu og dimmu frosti.
Hjá mér var það þannig að ég hélt alltaf að ég gæti aðeins meira þangað til líkaminn sagði stopp og sálin hrundi. Ég mæli ekki með, bara alls ekki en fer samt að velta fyrir mér; hvernig ég hefði getað komið í veg fyrir þetta og hvað ég gerði til þess að fara á þennan stað?
Ein ástæðan; mér fannst ég ekki geta sagt nei við neinu eða að ég ætti hreinlega ekki skilið að vera að hlífa mér eitthvað.
- Vinnan göfgar manninn
- Þú getur nú lagt aðeins á þig
- Lífið er nú ekki leikur
- Hvaða aumingjaskapur er þetta?
Þetta voru setningar sem hljómuðu í höfðinu á mér. Ég keyrði áfram og þegar allt var að brotna þá gat ég ekki horfst í augu við það. Ég meina, ég er ekki aumingi!
Svo heyrði ég eitt orð; sjálfsmildi. Það var eins og einhver tæki í handbremsuna. Allt sem hafði hlaðist upp síðustu ár, múrstein fyrir múrstein og orðið að háu húsi sem var farið að bresta fékk aðra mynd.
Og húsið hrundi!
Það hrundi vegna þess, að þá fór ég að hleypa að þeirri hugsun að ég mætti aðeins slaka á, mætti finna til og fór að endurhugsa aðstæðurnar. Ég er að reyna að segja að ég hefði svo sem alltaf hrunið ofan í frystinn en ég hrundi aðeins fyrr af því ég horfðist í augun við sjálfan mig. Sem betur fer því annars hefði fallið orðið hærra.
Það veit enginn hvernig þér líður en þér líður eins og þér líður. Það er ekkert rangt við að líða illa. Það er hins vegar bölvanlega vont og það verður margfalt verra þegar þú heldur að það sé rangt að líða þannig.
Ég gæti trúað að þeir sem fara í þrot og leita örþrifaráða út úr þeim aðstæðum, gætu svo miklu betur komist út úr þeim aðstæðum, bara með því að fá viðurkenninguna. Mér má líða illa og það er einhver sem er tilbúin/n að hlusta.
Ég hef barist við skömm og sektarkennd við að hafa farið í kulnun og sjálfsásökun fyrir að lenda á þessum stað. Það er ekki til að bæta ástandið. Og núna þegar ég skrifa þetta, hugsa ég um þá sem gætu talið mig vælandi aumingja! Já það leynast víða dómarar og oft erum við ógeðslega dómhörð sjálf. Ég er þar engin undantekning.
En dæmið ei svo þér munuð ei dæmdur verða.
Ef þér líður illa, þá er það bara þannig og það má alveg. Hins vegar er það töfrum líkast að viðurkenna þá vanlíðan og deila vanlíðan með einhverjum. Því það sem bítur ekki á einn, getur brotið aðra manneskju, gleymum því aldrei. Við erum svo mismunandi, sem betur fer og það ætti aldrei að bera okkur saman. Sumir eru kæru-og æðrulausir og þola meira, á meðan aðrir eru viðkvæmir og þola minna.
Verum bara góð og sýnum okkur og öðrum sjálfsmildi.
Pétur Guðjónsson er viðburðastjóri og leikstjóri