Fara í efni
Umræðan

Ég vil ekki deyja á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Að hryggjast og gleðjast hér um fáa daga, að heilsast og kveðjast, það er lífsins saga.

Þessi orð skáldsins Páls J. Árdal eru sönn og halda sínu gildi sama hvernig samfélag okkar þróast, breytist og mótast. Lífið og dauðinn haldast í hendur, við missum öll fólk og við munum öll mæta dauðanum dag einn.

Fyrir mér og öðrum sem mætum dauðanum reglulega er kveðjustundin mögulega hugleiknari en öðrum sem geta sleppt því að velta endalokunum fyrir sér. Ekki endilega að við óttumst það meira eða kvíðum stundinni, frekar að við erum meðvituð um það hvað lífið er samtímis brothætt og dýrmætt.

Eitt sem hefur komið út úr því að fá að vera með fjölskyldum hér á Akureyri í undirbúningi kveðjustundar og að eiga samfylgd eftir andlát er sú tilfinning að ekki sé hugsað nægjanlega vel um andlegar- og sálrænar þarfir fólks á sjúkrahúsi bæjarins.

Það að leggjast inn á sjúkrahús er áfall, það að greinast með lífsógnandi veikindi er áfall og það að standa augliti til auglits við þær fréttir að það styttist í dánar stund er áfall, bæði fyrir þann veika en ekki síður fyrir maka, börn, barnabörn, foreldra eða vini.

Allt of oft hef ég heyrt fólk lýsa þeirri reynslu að enginn formlegur sálrænn stuðningur sé í boði á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hjúkrunarfræðingar geri sitt besta, en á sjúkrahúsinu er enginn í því skilgreinda hlutverki að veita fólki sálgæslu. Hjálpa fjölskyldum að ræða saman um dauðann og veikindin, hjálpa fólki að vinna úr vanlíðan, ótta eða kvíða.

Góð sálgæsla í kringum veikindi og andlát getur skipt sköpum varðandi það hvernig fjölskyldan tekst á við áfallið. Góð sálgæsla getur hjálpað fólki að setja orð á upplifun sína og tilfinningar og finna styrkinn til að takast eins vel á við aðstæður og þau mögulega geta. En þessi þjónusta er ekki í boði á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Á Landsspítalanum starfa átta manns við sjúkrahússálgæslu, þar hefur þjónustan sannað gildi sitt og frekar verið krafa um að fjölga starfsfólki við sjúkrahússálgæslu en að fækka því. Hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem einnig hefur unnið á Landsspítalanum sagði mér að hér fyrir norðan væri hún í raun að sinna verkefnum sem hún treysti því að sjúkrahúsprestarnir á Landsspítalnum stigu inn í. Að veita fólki andlegan stuðning í gegnum greiningu, meðferð og annaðhvort bata eða kveðjustund. Auðvitað gerir hún og annað starfsfólk sitt besta, en eins og hún sagði eru þau ráðin til að sinna hjúkrun og lækningum en ekki sálrænum stuðningi.

Mér er sjálfum sama hvort það er sálfræðingur, prestur, hjúkrunarfræðingur með sálgæslumenntun eða djákni sem sinnir þessari þjónustu, það skiptir bara öllu máli að hún sé í boði og sé fagleg.

Ég veit að hér er hægt að gera betur. Ég veit að á Sjúkrahúsinu er ómannað stöðugildi fyrir sálgæti og að nokkrar deildir Sjúkrahússins hafi ítrekað kallað eftir því að ráðið verði í starfið sem fyrst – því þörfin er mikil. En ég veit það líka að fjárhagsstaðan er þröng og að andlegur og sálrænn stuðningur fær að mæta afgangi.

Hér hallar á landsbyggðina, okkur er boðin lakari þjónusta en á höfuðborgarsvæðinu og það segir til sín hjá fjölskyldum sem hafa þurft að takast á við erfið veikindi og andlát á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Eins og við öll þá mun ég einn daginn deyja, en ég vona að ég þurfi ekki að deyja á Sjúkrahúsinu á Akureyri meðan þessi þjónusta er í lamasessi. Einfaldlega þar sem ég veit hvað góð sálgæsla í kringum veikindi og andlát hefur mikla þýðingu fyrir fjölskyldur sem eru að takast á við áföll og missi.

Sr. Sindri Geir Óskarsson er prestur á Akureyri og vonandi ekki deyjandi.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00