Fara í efni
Umræðan

Hundfúll út í heilbrigðiskerfið

Nú styttist heldur betur í kosningar og flokkar og frambjóðendur komnir á fullt að undirbúa sín stefnumál. Mig langar því að koma með smá hugleiðingar fyrir ykkur sem eruð á leið í framboð og fá ykkur vonandi til að leiða hugann að forgangsröðun í ykkar málefnum.

Ég er ósköp venjulegur karlmaður á miðjum aldri og kannski rétt rúmlega það. Líf mitt hefur verið nokkuð hefðbundið og kannski lítið um stór afrek hjá mér.

Ég byrjaði snemma að vinna eins og venjan var á þessum árum þegar börn máttu vinna. Bar út blöð, fór í unglingavinnuna og svo almenn verkamannastörf. Áfram hélt lífið og eftir grunnskólann var það framhaldskólinn og seinna háskólanám. Samhliða námi stundaði ég vinnu, keypti mér íbúð, bíl og stofnaði fjölskyldu. Ég er um margt ósköp venjulegur meðal-Jón sem hef borgað mína skatta, reynt að standa við mínar skyldur og vera nýtur þjóðfélagsþegn án þess að kvarta of mikið.

Ég ætla nú ekki að halda því fram að ég sé einhver afraksmaður þegar kemur að hreyfingu og íþróttum en mér hefur alltaf þótt gott og gaman að stunda einhverja hreyfingu. Fyrir um það bil þremur árum fór ég að finna fyrir miklum líkamlegum verkjum. Ég varð miklu stirðari og hreyfigeta var skert. Ég prófaði yoga, auknar teygjur í líkamsræktinni en ekkert breyttist. Þá var lítið annað hægt að gera en að heimsækja heimilislækninn. Eftir ýtarlegar rannsóknir og myndatökur kom í ljós að ég er með ónýtar mjaðmir þ.e. allt brjósk er búið í mjaðmaliðum báðu megin og ég mjög verkjaður alla daga.

Þá fyrst hófst nú baráttan við heilbrigðiskerfið. Eftir að hafa farið í ómskoðun og röntgenmyndatöku þá var ég settur á biðlista eftir aðgerð að ég taldi. En nei! Eftir um 11 mánaða bið komst ég að því að ég var alls ekki á biðlista eftir aðgerð heldur var ég á biðlista eftir að komast í viðtal hjá bæklunarlækni. Síðan tæki við biðtími eftir aðgerðinni sjálfri sem væri um eitt ár. Ekkert bólaði á viðtalstíma mínum hjá bæklunarlækni og mér var tilkynnt af frekari seinkun eftir viðtali. Ég var heppinn ég gat pantað mér viðtalstíma hjá bæklunarlækni á einkarekinni læknastofu og komast strax eftir það viðtal á biðlista eftir aðgerð. Þarna voru liðnir 18 mánuðir frá því að mín þrautaganga í heilbrigðiskerfinu hófst við að komast í eitt örstutt viðtal.

Biðtíminn eftir aðgerð á fyrri mjöðm var frekar stuttur og aðgerðin vel heppnuð. En eins og einhverstaðar segir hálfnað er verk þá hafið er. Ég fór í veikindaleyfi í byrjun júní þessa árs þegar ég fór í fyrri aðgerðina. Mér var tjáð að þar sem ég væri kominn á svokallaðan virkan biðlista, sem virðist frekar ætti að heita óvirkur biðlisti, mætti ég reikna með að fara í seinni aðgerðina núna í september. Enn bíð ég og fæ engin svör um hvenær ég geti átt von á að leggjast aftur undir hnífinn.

Öll þessi bið kostar samfélagið okkar helling. Fyrir það fyrsta þá er ég enn í veikindaleyfi, er heppinn að vera með mjög sterkan veikindarétt, þar sem ég er enn á fullum launum hjá mínum atvinnurekanda, hinu opinbera, sem þarf einnig að borga laun fyrir afleysingu fyrir mig. Ég er í sjúkraþjálfun tvisvar í viku sem er niðurgreidd af ríkinu og tek líka helling af verkjalyfjum sem líka eru niðurgreidd af ríkinu með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Nú ætla ég að leyfa mér að kvarta yfir skertum lífsgæðum mínum og ég veit að það eru margir aðrir í svipaðri stöðu. Það er talað um að aðgerð á einkarekinni klínik kosti í kringum eina og hálfa millijón fyrir ríkið að greiða sem gerir í mínu tilviki þrjár milljónir við að fá tvær glæsilegar nýjar mjaðir.

Þá kem ég mér loksins að efninu og af hverju ég er svona hundfúll. Því samkvæmt frétt á Visir.is þann 15. október s.l. er kostnaður við flutning og sóttkví hvers gæludýrs úkraínskra flóttamanna rétt rúmlega þrjár milljónir sem er svipað og tvær glænýjar mjaðmir. Tek það fram að ég styð komu flóttamanna sem þurfa að flýja sitt heimaland vegna ófriðar og ekkert út á það að setja. En að kettir eða hundar sé framar í forgangsröðinni en ég, get ég ekki sætt mig við.

Ólafur Torfason er iðjuþjálfi

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00