Dásamlegur dagur í minningu Jonna
Það var bjart yfir Akureyri og Eyjafirði öllum laugardaginn 16. mars þegar haldið var upp á 100 ára afmæli Jonna í Hamborg en Jonni lést voveiflega í Kaupmannahöfn árið 1946, aðeins 22 ára gamall.
Hvers vegna var verið að minnast hans svo löngu eftir andlátið og hvað var ég að gera þarna, komin með strætó frá Reykjavík?
Mér var boðið í afmæli Jonna af því að ég tengdist honum fjölskylduböndum. Jonni átti tvær mæður og þær voru systur. Önnur þeirra, Theódóra Pálsdóttir, fæddi drenginn á Siglufirði, hin, Laufey Pálsdóttir, kaupkona í Hamborg á Akureyri, tók hann að sér kornabarn og ættleiddi hann vegna bágra aðstæðna systurinnar. Laufey var amma mín. Hún var ekkja þegar hún tók drenginn að sér og skírði hann eftir látnum eiginmanni sínum, afa mínum, Jóhannes Vilhelm Þorsteinsson. Fyrir átti amma einn son, Steingrím, pabba minn, sem þarna var 13 ára.
Ég sá aldrei Jonna því að hann lést 6 árum áður en ég fæddist en ég heyrði mikið talað um hann. Ég heyrði að tónlistin hefði verið honum í blóð borin. Það var ljóst frá upphafi. Pabbi var tónlistarunnandi og átti grammófón og heilmikið og gott plötusafn, óperur og klassískan söng, m.a. með söngvurunum Tito Schipa, Sjaljapin og Caruso sem hann hlustaði mikið á. Jonni vildi þá ævinlega vera með og lifði sig algjörlega inn í tónlistina en líka efni óperanna sem barnssálin meðtók augljóslega á sinn hátt. Þeir bræður nutu þessa saman, unglingurinn faðir minn og smábarnið Jonni.
Jonni fór ungur að læra á píanó og náði undrafljótt góðum tökum á því að spila. Ég hef heyrt að hann hafi nýst sem undirleikari strax á barnsaldri, á stúkufundum og víðar í bænum. En á unglingsárum komst hann svo í tæri við djassplötur, með tónlist sem hreif hann eins og klassíkin áður en var vissulega ekki stunduð á Akureyri á þeim tíma. Fats Waller var í miklu uppáhaldi hjá Jonna og hann náði sem hljóðfæraleikari færni og leikni við djasstónlistina sem hann kynntist eingöngu með því að hlusta á plöturnar.
Ég hef heyrt víða, ekki bara frá fjölskyldu minni, að Jonni hafi heillað fólk, með nærveru sinni og spilamennsku, en hann varð ungur jafnvígur á píanó og trompet. Hann náði langt á ungri ævi á þess tíma mælikvarða, svo langt að hann varð einhvers konar goðsögn í djassögu Íslands þó að engar upptökur með honum hafi varðveist. Hann var mikið elskaður ljúflingur og listamaður langt út yfir gröf og dauða.
Þess vegna er hans minnst og það ber að þakka. Jón Hlöðver Áskelsson tónlistarmaður hefur átt veg og vanda að því að halda minningu Jonna á lofti hér á Akureyri. Jón var eins árs þegar Jonni lést en það er engu líkara en að hann hafi kynnst honum og hver veit nema svo hafi verið. Tónlist Jonna hafi verið í andrúmsloftinu á Akureyri þegar Jón Hlöðver var að vaxa úr grasi. Og þennan fallega sólríka laugardag, 16. mars 2024, komu forláta listamenn saman í Hofi og spiluðu þá tónlist em Jonni hafði mest dálæti á og hafði spilað með félögum sínum fyrir fullu húsi á tvennum tónleikum í Gamla bíói skömmu áður en hann lést í Kaupmannahöfn eftir sína fyrstu og einu tónleika þar með Elsu Sigfúss.
Píanóleikararnir á þessari björtu hátíð voru Agnar Már Magnússon og Emil Logi Heimisson (sonarsonur Jóns Hlöðvers og Sæbjargar) og hljómsveit hússins spilaði með þeim. Hjörleifur Jónsson, skólastjóri Tónlistarskóla Akureyrar, og Jón Hlöðver Áskelsson, forveri hans, minntust Jonna og mikilvægi hans í djasssögu Íslands en lögðu þó megináherslu á nútíð og framtíð, mikilvægi þess að hvetja til flutnings á djassi á Akureyri og þess að stofnað yrði félag áhugamanna um djasstónlist í bænum. Þar yrði minningin um Jonna í Hamborg nýtt og djassfélagið bæri þá hans nafn, Jonni í Hamborg. Eftir tónleikana eða djammsessionina var gengið til veislu, dýrlegra veitinga og samveru hjá þeim elskulegu hjónum Jóni Hlöðver og Sæbjörgu.
Takk fyrir mig, dásamlegan dag í minningu Jonna í Hamborg í því skyni að hún nýtist sem hvatning til framgangs djassins á Akureyri.
Sigrún Steingrímsdóttir er orgelleikari og bróðurdóttir Jonna í Hamborg