Fara í efni
Umræðan

Cittaslow – Valkostur sem vert er að skoða

Það er full ástæða til að fagna þeirri umræðu sem hefur skapast undanfarið eftir að Hríseyingar ákváðu að skoða alvarlega að gerast aðilar að Cittaslow hreyfingunni. Ég átti þess kost að funda með íbúum í eynni á sínum tíma og kynna hugmyndafræðina á bak við samtökin og hef í framhaldinu aðstoðað og fylgst með framgangi verkefnisins.

Cittaslow-hreyfingin varð til á Ítalíu árið 1999 þegar fjórir bæjarstjórar þar sammæltust um að nóg væri komið af hraða nútímans. Hún er afsprengi „Hæglætishreyfingarinnar“ (The Slow Movement) sem rekja má aftur til ársins 1986 þegar opnun McDonald‘s veitingastaðar á hinu þekkta Piazza di Spagna-torgi í Róm var harðlega mótmælt. Síðan þá hefur Hæglætishreyfingin, með SlowFood-samtökin í fararbroddi, unnið að því að upphefja mannleg gildi og staðbundna menningu með virðingu og vitund fyrir umhverfi og uppruna í öndvegi.

Í mínum huga er Hrísey kjörin til þess að verða Cittaslow og undirstrika þannig sérstöðu samfélagsins og efla eyjuna sem búsetukost, vettvang fyrir fjölbreytta atvinnuuppbyggingu og áningarstað fyrir ferðafólk. Þó að vissulega þurfi að uppfylla ströng skilyrði til að fá vottun er samfélagsgerðin og innviðir í Hrísey með þeim hætti að innleiðingin ætti að verða tiltölulega átakalítil.

Grunnhugmyndafræði Cittaslow er í eðli sínu einföld. Hún er sú að leggja áherslu á lífsgæði íbúa í víðasta skilningi þess orðs og gera þeim kleift að búa á litlum stað við eins góðar aðstæður og unnt er. Sérstök áhersla er lögð á hið staðbundna s.s. framleiðsluvörur, náttúru, sögu og menningu, að finna jafnvægi milli þess hraða og hins hæga og að nýta tækniframfarir til að búa íbúum sem best búsetuskilyrði.

Það að verða Cittaslow er langhlaup. Hugarfarsbreytingin tekur tíma og öllu skiptir að íbúar skilji og vilji vera með. Á Djúpavogi eru íbúar komnir vel á veg. Greinileg hugarfarsbreyting hefur átt sér stað á mörgum sviðum þar sem hugmyndafræðin hefur náð að skjóta rótum.

Innleiðing Cittaslow krefst þess að íbúar líti inn á við og velti fyrir sér hvernig samfélag erum við og hvernig viljum við vera. Það eitt og sér er þess virði að kynna sér þessa athyglisverðu stefnu.

Gauti Jóhannesson er fyrrverandi sveitarstjóri í Djúpavogshreppi og núverandi forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Pier Giorgio Oliveti framkvæmdastjóri Cittaslow samtakanna heimsótti Djúpavog 2017 ásamt starfsfólki grunnskólans í Orvieto á Ítalíu, sem er í nánu samstarfi við skólana á Djúpavogi. Gauti Jóhannesson er þarna með Ítölunum, sjötti frá hægri.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00