Bravó!
Til hamingju með 40 ára farsælt starf, Félag eldri borgara á Akureyri!
BRAVÓ! Þetta orð lýsti betur en mörg önnur orð tvennum tónleikum sem Félag (h)eldri borgara efndi til í Hofi, Hamraborgarsalnum í gær, sunnudaginn 2. október í tilefni fjörutíu ára afmælis síns.
BRAVÓ! til nær 100 manna hóps er flutti okkur boðskapinn um að aldursmörk þurfi ekki að takmarka gleðigjöfina og hamingjuaugnablikin.
Nafnaupptalning getur alltaf verið viðkvæm, en mér þótti hrífandi að syngja vini og nánum samstarfsmanni mínum í Tónlistarskóla Akureyrar, sem formanns stjórnar skólans til svo margra ára, honum Sigurði Jóhannessyni afmælissöng í tilefni 91 árs afmælisdags hans. Salurinn fylltist af söng og auðvitað tók svo afmælisbarnið virkan þátt í söng Kórs eldri borgara áfram.
Kór eldri borgara, Í fínu formi, á sviðinu í Hofi á sunnudaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
BRAVÓ! fyrir dagskrárgerð Gísla Sigurgeirssonar! Honum tókst með samklippingu mynda og kvikmynda úr ómetanlegum myndbrotum úr safni sínu og Eðvarðs Sigurgeirssonar að færa mann í lifandi taktsamband við „Gömlu góðu Akureyri“, sem alltaf er ný! Gamlar myndir endurnýja nefnilega hugann.
BRAVÓ! fyrir hljómsveitarstjóra, útsetjara hátíðarinnar, Daníel Þorsteinssyni, mikið verk vel af hendi leyst!
BRAVÓ! Valmar Väljaots í leik á fjölmörg hljóðfæri og stjórnanda karlakórsins.
BRAVÓ! Helena Eyjólfsdóttir, takk fyrir yndislega rödd og flutning og orðin þín: „Þið sjáið á þessari dagskrá hvað við höfum verið lánsöm með tímann sem við höfum fengið að upplifa“
BRAVÓ! Þór Sigurðsson fyrir heimsbassasönginn þinn.
Svo eiga einsöngvararnir: Óskar Pétursson, Grímur Sigurðssson, Margrét Árnadóttir, Magni Ásgeirsson, Saga Jónsdóttir og Petra Björk Pálsdóttir, líka stjórnandi Kórs eldri borgara, ásamt hljóðfæraleikurunum: Snorra Guðvarðarsyni, Friðriki Bjarnasyni og Halla Gulla, öll BRAVÓ! skilið.
Kór Eldri Borgara og Karlakór Akureyrar-Geysir fá tvöfalt BRAVÓ!
Sem rúsínan í pylsuenda þessara skrifa koma svo BRAVÓ BÍTLARNIR færandi hendi; forðum daga fyrir 58 árum slógu þeir í gegn og hituðu m.a. upp fyrir hljómsveitina frægu „The Kinks“ í Austurbæjarbíói. Enda þótt garparnir hafi misst 2 kæra liðsmenn náðu þeir að kveikja í áhorfendum, en ekki þurfti þó að kalla út brunalið.
Sem sagt, BRAVÓ!
Jón Hlöðver Áskelsson er fyrrverandi skólastjóri Tónlisarskólans á Akureyri.
Helena Eyjólfsdóttir, Saga Jónsdóttir og nokkrir félagar úr Karlakór Akureyrar - Geysi í Hofi á sunnudaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson