Fara í efni
Umræðan

Börnum mismunað í gjaldskrá leikskóla

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti gjaldskrár bæjarins fyrir yfirstandandi ár á fundi sínum 15. desember 2020, þ.m.t. sundurliðaða gjaldskrá fyrir leikskóla bæjarins. Vísað er til nýrrar gjaldskrár í fundargerð bæjarstjórnar frá sama fundi og hún þannig gerð opinber og öllum aðgengileg. Síðar var gjaldskrá fyrir leikskólana birt á heimasíðu bæjarins sem ekki er í fullu samræmi við þá gjaldskrá sem samþykkt var og kynnt í fundargerð bæjarstjórnar. Mismunurinn felst í því að foreldrum barna sem fædd eru á tímabilinu júní 2019 til ágúst 2020 verður nú gert að greiða sérstakt tímabundið 10% álag ofan á almennt leikskólagjald umfram það sem greiða skal fyrir önnur börn.

Forsagan

Tillaga að gjaldskrá fræðslumála fyrir árið 2021 var lögð fram til kynningar og umræðu á fundi fræðsluráðs 7. nóvember 2020. Ekki kemur fram í fundargerðinni hver eða hverjir lögðu tillöguna fram en fræðsluráð lagði hvorki blessun sína yfir gjaldskrána né hafnaði henni ef marka má fundargerðina. Þrem dögum síðar var tillaga að gjaldskrám bæjarins fyrir árið 2021 lögð fram í bæjarráði sem það samþykkti að vísa til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu. Bæjarstjórn samþykkti svo einum rómi gjaldskrár fyrir árið 2021 á fundi sínum þann 15. desember eins og áður kemur fram. Athygli vekur að í tilfelli gjaldskrár leikskóla Akureyrarbæjar fyrir árið 2021 er hvergi að sjá í fundargerðum bæjarins að rætt hafi verið um að leggja sérstakt 10% viðbótargjald á börn fædd á tilteknu tímabili. Ekkert slíkt kemur fram í fundargerðum fræðsluráðs, bæjarráðs eða bæjarstjórnar og aldrei minnst á það í upptökum af bæjarstjórnarfundinum. Engu að síður er gjaldskráin nú þannig á heimasíðu bæjarins að greiða skuli tímabundið 10% hærra almennt gjald fyrir börn fædd á tímabilinu júní 2019 til ágúst 2020 en fyrir önnur börn.

Fátt um svör

Ég hef reynt að leita svara við því hjá Akureyrarbæ hvenær umrætt viðbótargjald var samþykkt í bæjarstjórn og hvar finna megi því stað í fundargerðum. Það hefur reynst þrautin þyngri. Þegar fimm vikur voru liðnar frá því að ég sendi inn fyrirspurn um málið og eftir vikulega eftirgangssemi svaraði bæjarlögmaður mér því að umrætt 10% yngstu barna gjald hafi verið samþykkt í bæjarstjórn 15. desember sl. þrátt fyrir að það komi hvorki fram í fundargerðum né í gjaldskránni sem samþykkt var á fundinum og birt í kjölfarið. Þetta stafi af því að tillagan að 10% gjaldi á yngstu börnin hafi verið sem fylgiskjali með öðrum tillögum að gjaldskrám og komi því ekki fram í fundargerðum. Samkvæmt bæjarlögmanni hafi fræðsluráð gert tillögu um gjaldið sem bæjarráð hafi svo gert að sinni og bæjarstjórn að lokum samþykkt. Eins og áður sagði voru gjaldskrár bæjarins fyrir árið 2021 lagðar fram á fundi fræðsluráðs 7. desember 2020 til „umræðu og kynningar“ eins og segir í fundargerðinni en hvorki til samþykktar né synjunar. Samkvæmt fundargerð gerði fræðsluráð því aldrei neina tillögu til bæjarráðs eða bæjarstjórnar um gjaldskrá fræðslumála, hvað þá að leggja til sérstakt 10% gjald á yngstu leikskólabörn bæjarins.

Óljós tilgangur

Foreldrar sem spurst hafa fyrir um þetta sérstaka aldurstengda viðbótargjald í leikskólum bæjarins hafa fengið óljós svör um tilgang þess, aðeins að það sé lagt á til að mæta ótilgreindum viðbótarkostnaði vegna barna fæddra á umræddu tímabili og að sú ákvörðun sé byggð á tillögu fræðsluráðs bæjarins. Eins og áður hefur komið fram er ekki að sjá að fræðsluráð hafi gert neina slíka tillögu.
Almenn leikskólagöld á Akureyri eru með þeim hæstu á landinu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Ofan á það gerir bærinn svo foreldrum barna sem fædd eru á tímabilinu júní 2019 til ágúst 2020 að greiða tímabundið 10% hærra gjald umfram önnur börn eða sem nemur einum viðbótarmánuði á því tímabili sem 10% álagið á að gilda (svarta súlan).

Mismunun

Það felst mismunun í því að leggja sérstakt gjald á íbúa Akureyrarbæjar fædda á tilteknu tímabili og skiptir þar engu hvort um er að ræða börn eða fullorðna. Það stangast á við stefnu bæjarins að mismuna íbúum eftir aldri. Vitna má til gildandi aðgerðaráætlunar Akureyrarbæjar um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindastefnu bæjarins um „jafnan aðgang íbúa að sanngjarnri og góðri þjónustu óháð kyni, fötlun, þjóðerni, trú, kynhneigð, - einkennum, - tjáningu eða - vitundar eða aldri.“ Með þessu sérstaka viðbótargjaldi á börn fædd á tilteknu tímabili er Akureyrarbær að feta sig inn á nýjar slóðir í gjaldheimtu. Ljóst er að í einhverjum tilvikum mun verða innheimt 10% hærra gjald fyrir sum börn sem byrja í leikskólum bæjarins í haust en önnur ekki út frá fæðingardegi þeirra. Með þessu sérstaka gjaldi felst því gróf mismunun sem gengur gegn öllu því sem Akureyrarbær vill standa fyrir ef marka má stefnu og yfirlýsingar bæjarstjórnar Akureyrar. Mér vitanlega eru engin fordæmi fyrir því að greitt hafi verið mismunandi gjald fyrir börn í leikskólum bæjarins t.d. vegna aldurs þeirra eða þjónustu í samræmi við mismunandi þarfir þeirra og kostnaðar sem af því kann að hljótast.

Hvað segja bæjarfulltrúar?

Ef rétt er sem fram kemur í svari bæjarlögmanns til mín að bæjarstjórn Akureyrar hafi samþykkt einum rómi að leggja 10% viðbótargjald á leikskólagjöld barna fæddra innan tiltekins tímabils verða bæjarfulltrúar að útskýra hvers vegna þeir tóku þá ákvörðun, hver tilgangurinn með henni er og hvernig ákvörðun þeirra fellur að markmiðum og stefnu bæjarins að íbúum skuli ekki mismunað vegna aldurs.

Bæjarstjórn Akureyrar ætti auðvitað að afturkalla þetta 10% yngstu barna gjald. Í því felst ekki aðeins gróf mismunun heldur er það óréttlátt, auk þess sem vafi leikur á hvort gjaldið hafi yfir höfuð verið samþykkt í bæjarstjórn og þar með vafi um gildi þess.

Björn Valur Gíslason er sjómaður á Akureyri og fyrrverandi alþingismaður.

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15

Nei þeir mega það ekki!

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:00

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00