Fara í efni
Umræðan

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Við hjá Landsneti höfum veigamiklu hlutverki að gegna að viðhalda og reka eina af helstu grunnstoðum nútímasamfélags, flutningskerfi raforku. Við störfum í umhverfi þar sem kröfur eru sífellt að aukast og tæknin með. Ný kynslóð byggðalínu er nú að rísa, kynslóð sem mun auka afhendingargetu og tryggja að meginflutningskerfið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu, eðlilegri þróun í landinu og orkuskiptum. Blöndulína 3 er hluti af þessari nýju kynslóð og mun hún bæta öryggi og styrkja flutningskerfið til muna.

Rafmagn er lífsgæði og undirstaðan að samfélaginu sem við búum í og því fylgja uppbyggingu flutningskerfisins áskoranir við að byggja upp rekstrarlega öruggt kerfi sem fullnægir orkuþörf hvers tíma í takt við þróun byggðar.

Við leggjum mikla áherslu á að ná góðu samtali um það hvernig uppbygging sveitarfélaga og þróun íbúðabyggðar getur haldist í hendur við þróun raforkukerfis, bæði við sveitarstjórnarfólk og ekki síður íbúa á svæðunum. Fundur eins og við áttum með íbúum í Giljahverfi og Akureyrabæ um skipulagsbreytingar vegna Blöndulínu 3 er hluti af því samtali.

Þegar litið er til þess svæðis sem Blöndulína 3 fer um innan þéttbýlismarka Akureyrar þá eru þar nú þegar raflínur en með tilkomu nýrrar Blöndulínu verður ein af þessum línum, Rangárvallalína 1, fjarlægð. Um leið skapast forsendur til að leggja nýja Dalvíkurlínu 2 um þetta svæði sem streng og til lengri tíma litið frekari möguleiki til að leggja Dalvíkurlínu 1 að hluta eða öllu leyti í jörðu.

Í raforkulögum er m.a. fjallað um hlutverk okkar hjá Landsneti við uppbyggingu flutningskerfisins og er þar vísað til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu kerfisins. Þar kemur fram að í meginflutningskerfinu, sem Blöndulína 3 tilheyrir, sé meginreglan sú að notast skuli við loftlínur nema í nokkrum undantekningartilvikum eigi að meta hvort æskilegra sé að leggja jarðstrengi að því gefnu að það sé tæknilega mögulegt.

Hluti af tæknilegum forsendum þess að hægt sé að leggja raflínur sem jarðstrengi eru rekstrarlegir þættir. Þetta gildir bæði í venjulegum rekstri sem og í truflanatilvikum. Við mat á því hvort tæknilega sé unnt að leggja raflínur í jörð verður að huga að nokkrum þáttum en þar er kerfisstyrkur á viðkomandi svæði og spennustig fyrirhugaðrar strenglagnar aðalatriðið.

Svigrúmið til jarðstrengslagna við Rangárvelli er mjög takmarkað þar sem kerfisstyrkur er tiltölulega lágur og við höfum nú þegar lagt um 10 km langan 220 kV jarðstreng í Hólasandslínu 3 og annan 10 km langan streng í Kröflulínu 1. Þessir strengir hafa valdið víðtækum áskorunum í rekstri flutningskerfisins á Norðurlandi og gert það að verkum að við erum á mörkum þess að geta tryggt gæði rafmagns með þeim hætti sem okkur ber að gera m.a. samkvæmt raforkulögum. Rekstraröryggi flutningskerfisins er afar mikilvægt og við þurfum að geta rekið kerfið við ýmsar aðstæður án þess að það komi niður á gæðum rafmagnsins og afhendingaröryggi.

Eins og staðan er í dag er því ekki svigrúm fyrir frekari 220 kV jarðstrengslagnir í Eyjafirðinum en með frekari styrkingu raforkukerfisins, s.s. með tengingum milli landsvæða og nýjum virkjunum, mun svigrúmið að öllum líkindum aukast. Því er nú gert ráð fyrir Blöndulínu 3 sem loftlínu alla leið milli Blöndustöðvar og Rangárvalla, en þó er gert ráð fyrir að loftlína næst Rangárvöllum sé tímabundin lausn og eigum við í góðu samtali við Akureyrarbæ um að þegar búið er að styrkja kerfið og íbúabyggð hefur þróast í átt að línum sé mögulegt að setja hana í jörðu næst Akureyri.

Ákvörðun um frekari jarðstrengslagnir verður þó aldrei tekin nema að undangenginni ítarlegri greiningu á tæknilegu svigrúmi.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur lagt fram skipulagslýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi bæjarins vegna Blöndulínu 3 og höfum við átt í góðu samtali við bæjaryfirvöld um línuleiðina.

Samtalið skiptir okkur máli og hvetjum við ykkur til að skoða vefsjána okkar vegna Blöndulínu 3 www.map.is/bl3/ , við erum alltaf tilbúin að taka umræðuna með þeim sem þess óska.

Bestu kveðjur norður og gleðilegt sumar

Steinunn Þorsteinsdóttir er upplýsingafulltrúi Landsnets

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00