Atvinnuuppbygging sem skilar sér strax
Þeim fjármunum sem ríkisvaldið ver til eflingar menningar og lista á Akureyri og áhrifasvæði hennar er vel varið. Hver ný króna sem ríkið leggur fram, rennur til sköpunar nýrra starfa á þessu sviði. Gott dæmi um slíka atvinnusköpun, sem byggir á samstarfi ríkis og bæjar, er starfsemi Sinfóníu Nord, kvikmyndatónlistarverkefnis Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, sem flytur út tónlist og upptökutækni en í staðinn kemur mikilvægur erlendur gjaldeyrir inn í landið.
Menningarsamningur Akureyrarbæjar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um stuðning við atvinnustarf í listum á Akureyri hefur verið við lýði óslitið síðan um aldamótin síðustu. Það samstarf hefur verið farsælt. Nú er unnið að endurnýjun samningsins en meginmarkmið hans er m.a. að efla hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi, styrkja þá innviði sem felast í öflugu menningarstarfi á svæðinu og efla þannig búsetukosti á Norður- og Austurlandi. Undirliggjandi forsenda er að Akureyri hafi að þessu leyti lykilhlutverk á svæði sem nær langt út fyrir bæjarmörkin og er gjarnan nefnt í sömu andrá og óskilgreint borgarhlutverk Akureyrar.
4 milljarðar eða 204 milljónir?
Stuðningurinn nær til rekstrar Listasafnsins á Akureyri og þeirra verkefna sem Menningarfélag Akureyrar annast: Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Framlag ríkisins á síðasta ári var 204 milljónir króna en Akureyrarbær lagði til um 546 milljónir króna. Framlag ríkisins til eigin stofnana á sömu sviðum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. til Hörpu, Listasafns Íslands, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Þjóðleikhússins, er ríflega 4.000 milljónir króna á ári. Framlagið til þess sem kalla mætti systurverkefni á Akureyri er því um 5% af framlögum til stofnanna ríkisins í Reykjavík.
Akureyrarbær hefur lagt til að þetta hlutfall verði 10%. Með því yrði sett raunverulegt viðmið um framlög ríkisins til samstarfsins og til grundvallar liggur áætlað áhrifasvæði Akureyrar sem telur um 30.000-35.000 manns þegar hluti Austurlands er talinn með. Til að ná þessu marki yrðu framlög ríkisins að hækka um ríflega 180 milljónir króna á ári. Í heildarsamhenginu er það ekki há fjárhæð.
Annar íslenskur borgarkjarni
Einnig liggur til grundvallar viljinn til að byggja upp annan borgarkjarna á Íslandi með markvissum hætti en brýnt er að bregðast við þeirri „borgríkisþróun“ sem verður sífellt skýrari á Íslandi. Núna búa um 75% landsmanna á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess. Á milli Hvítánna tveggja á Suður- og Vesturlandi búa um 85% landsmanna.
Með því að auka framlag til menningar og lista á áhrifasvæði Akureyrar væru stjórnvöld að sýna í verki vilja sinn til að efla annan borgarkjarna á Íslandi sem yrði raunverulegt mótvægi við þéttbýlið á suðvesturhorni landsins. Þannig hefði atvinnufólk í listum fleiri kosti en höfuðborgarsvæðið eitt til búsetu og Norðlendingar ættu kost á menningartilboðum sem jafnast á við það besta sem býðst á höfuðborgarsvæðinu.
Grípum tækifærið
Með því að ríkið hækki framlög til menningarmála á Akureyri til móts við það sem lagt er til sambærilegra stofnana á höfuðborgarsvæðinu, væri styrkari stoðum rennt undir atvinnusköpun á þessu sviði í landshlutanum og borgarhlutverk bæjarins eflt.
Grípum tækifærið og látum verkin tala! Byggjum upp raunverulegan borgarkjarna á Akureyri með auknum framlögum ríkisins til menningarsamnings Akureyrarbæjar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þeim fjármunum væri vel varið til atvinnuuppbyggingar sem skilar sér strax.
Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri.