Fara í efni
Umræðan

Atvinnulífið á Akureyri okkar allra

Iðnaður og sjávarútvegur

Akureyri hefur löngum verið talinn iðnaðar- og sjávarútvegsbær og það kemur vel í ljós þegar þau fyrirtæki sem kjósa að starfa hér í bænum eru skoðuð. Gríðarleg nýsköpun hefur átt sér stað í iðnaði og í framleiðslu á tækjum og tólum fyrir sjávarútveg. Sú uppbygging hefur verið drifin áfram af þörfum fyrirtækja í bænum líkt og Samherja sem eru hvað fremstir í framleiðslu á sjávarafurðum í heiminum.

Verslun og þjónusta

Verslun og þjónusta er einnig orðin ein aðal uppistaða atvinnulífs á svæðinu. Síðustu mánuði hefur orðið gríðarlegur vöxtur í uppbyggingu verslunarhúsnæðis með tilkomu Norðurtorgs, nýbyggingar Krónunnar og Húsasmiðjunnar auk fjölda annarra smærri aðila og virðist ekki vera lát á aukinni þjónustu í bænum. Bygginga- og verktakaiðnaðurinn hefur blómstrað undanfarin ár og sjaldan eða aldrei hefur meira verið byggt af verslunar- og íbúðarhúsnæði.

HSN og SAk

Heilsugæsla er gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið okkar og vert að fagna uppbyggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðva í bænum sem áætlað er að lokið verði fyrir lok árs 2024. Þá er einnig fyrirhuguð bygging nýrrar legudeildar við SAk fyrir árslok 2027. Nýjar heilsugæslustöðvar munu stuðla að bættri þjónustu og styttri biðtíma fyrir íbúa auk þess að bæta aðstöðu starfsfólks á þessum fjölmennu vinnustöðum.

Flugið og ferðaþjónustan

Það hefur stundum verið sagt að vagga flugsins sé á Akureyri en Akureyrarflugvöllur er mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðamannaiðnaðar á Norðurlandi. Það að loksins skuli vera hafin uppbygging á Akureyrarflugvelli og þar með að opnast önnur gátt inn í landið, er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið allt svo ekki sé nú talað um stórhuga fólk sem stendur að nýju millilandaflugfélagi Niceair sem er að hefja áætlunarflug til meginlands Evrópu á næstu dögum. Möguleikar ferðaþjónustunnar stóraukast með þessari uppbyggingu innviða og nýs flugfélags. Nú er það okkar að skapa umgjörð þar sem einkaframtakið fær að blómstra og nýta tækifærin okkur öllum til hagsældar. Að loknum heimsfaraldri stöndum við á tímamótum en reikna má með að Ísland verði áfram með vinsælustu áfangastöðum heims og að hingað til lands streymi milljónir manna á næstu árum. Þá getur ný gátt inn í landið verið lykillinn að velgengni í ferðamannaiðnaði á Norðurlandi. Að mati Sjálfstæðisflokksins skiptir miklu máli að sveitarfélagið hefji strax undirbúning þannig að allir innviðir og umhverfi verði til taks og að einkaaðilar sem vilja taka þátt í uppbyggingunni hafi til þess tækifæri. Má í þessu samhengi nefna aðstöðu fyrir upplýsingamiðstöð miðsvæðis í bænum sem bætir þjónustu við ferðamenn.

Raforkan

Hólasandslína 3 tengist Rangárvöllum í haust og von er á tengingu Blöndulínu 3 á næstu árum. Tryggja þarf að Blöndulína 3 fari í jörðu innan þéttbýlis eins og stefna stjórnvalda gerir ráð fyrir. Akureyri er landlítið sveitarfélag og fyrirhugað línustæði er áætlað nálægt framtíðar íbúðasvæðum. Með meiri flutningsgetu rafmagns inn á svæðið sjáum við ýmsa möguleika skapast líkt og með nýju gagnaveri sem búið er að undirrita viljayfirlýsingu um að rísi við Hlíðarfjallsveg en þar eru 10 nýjar lóðir fyrir grænan iðnað í skipulagsferli. Margfeldisáhrifin af slíkri uppbyggingu eru gríðarleg og framtíðin er sannarlega björt á Akureyri okkar allra.

Þórhallur Jónsson er bæjarfulltrúi á Akureyri og skipar 3. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00