Fara í efni
Umræðan

Arfur Akureyrar

Skipulagsyfirvöld á Akureyri og meirihluti bæjarstjórnar sýna menningarminjum bæjarins bæði virðingarleysi og tómlæti með framgöngu sinni í skipulagsmálum í elsta hluta Akureyrar. Verðmæti sem felast í einstökum byggingum í einu elsta og best varðveitta hverfi á landinu kunna að vera viðurkennd í orði en alls ekki á borði. Byggingarlistastefna Akureyrarbæjar, metnaðarfull yfirlýsing, er algjörlega sniðgengin. Menning og saga eru léttvæg fundin og í besta falli nauðsynlegur fórnarkostnaður til að þétta byggð sem þjónar þó fyrst og fremst hagsmunum verktaka.

Umgengni við arfinn

Skoðum dæmi um vinnubrögð bæjaryfirvalda sem varpar ljósi á viðhorf þeirra. Fyrir rúmu ári (11. 11. 2020) þegar málefni byggingarlóða við Tónatröð voru fyrst rædd á fundi hjá skipulagsráði var fullyrt í bókun að rífa mætti hús á svæðinu. Hús númer átta við Tónatröð er engu að síður aldursfriðað (samkvæmt lögum um menningarminjar). Sex dögum síðar fengu bæjarfulltrúar tækifæri til að leggja fram athugasemdir, ábendingar og fyrirspurnir um ofangreinda bókun á bæjarstjórnarfundi. Enginn af þeim 11 kjörnu fulltrúum sem sátu fundinn sáu ástæðu til þess. Það vekur athygli að þegar málið er tekið fyrir í skipulagsráði og staðhæft að heimilt sé að rífa aldursfriðað hús eru átta ár, 11 mánuðir og jafn margir dagar frá því að lög nr. 80 frá 29. júní 2012 um menningarminjar tóku gildi. Sú staðreynd fór fram hjá sviðstjóra skipulagssviðs, fulltrúum í skipulagsnefnd sem og öllum bæjarfulltrúum með tölu. Þessi handvömm eru skýrt dæmi um viðhorf Akureyrarbæjar til menningarminja.

Bæjarbúar hljóta að gera þá kröfu til embættismanna bæjarins að þeir kunni góð skil á lögum sem varða þeirra starfssvið. Fulltrúar í starfsnefndum og kjörnir fulltrúar hljóta að lúta sömu skilyrðum. Fljótaskrift og óvandaður undirbúningur kemur niður á faglegum vinnubrögðum – og dæmi um slíkt eru því miður mun fleiri í þessu máli – eins og fram hefur komið í lögfræðiálitum, greinarskrifum og umræðum á netmiðlum.

Húseigendur í Innbænum, jafnt í Spítalabrekkunni sem annars staðar, hafa lagt mikinn metnað og verulega fjármuni í endurbætur og viðhald á þeim dýrmætu menningarverðmætum sem húsin bera vitni um. Gróður, garðar og snyrtilegt umhverfi bera vott um sama metnað. Það er fyrst og fremst húseigendum og íbúum í Innbænum að þakka hve þessi elsti hluti Akueyrar hefur tekið miklum stakkaskiptum undanfarna áratugi. Tugþúsundir ferðamanna – jafnt innlendra sem erlendra – leggja leið sína um hverfið.

Viðskiptavit?

Ein vinsælasta gönguleið í bænum hefst við kirkjutröppurnar, upp Eyrarlandsveginn, um Lystigarðinn, niður Spítalaveginn, inn Aðalstrætið að Minjasafninu og aftur til baka um Hafnarstræti. Ferðamenn sýna því fagra og dæmafáa sem ber fyrir augu, húsum, gróðri eða görðum, lifandi áhuga og gefa sig gjarnan að íbúum. Sérstaða þeirra menningarminja sem elsti hluti bæjarins býr að skilar beinhörðum peningum í bæjarsjóð og mikilvægum tekjum til fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga á Akureyri. Það skilar margföldum arði að standa vörð um menningarverðmæti. Fyrirhugaðar skipulagsbreytingar í Spítalabrekkunni eru aðför að þeim verðmætum.

Fjárfestar um allt land hafa séð tækifæri til uppbyggingar í gamalgrónum bæjarhlutum. Við höfum gott dæmi um það á Siglufirði. Þar réð hámarksgróði verktaka ekki ferðinni við hönnun heldur smekkvísi og virðing fyrir sögu og umhverfi. Í dag er Siglufjörður einn vinsælasti ferðamannastaður á Norðurlandi. Fyrir sunnan má benda á skemmtilegan miðbæjarkjarna á Selfossi með fallegri byggð endurgerðra húsa sem notið hefur mikilla vinsælda. Álíka hönnun og smekkvísi myndi sóma sér með prýði við Tónatröð.

Ég hvet alla þá sem virða og meta, þær menningarminjar sem elsti hluti byggðar á Akureyri státar af og þá ásýnd sem mótar svo mjög heildarsvip og sjálfsmynd bæjarins til að mótmæla fyrirhuguðum steinsteypuháhýsum við Tónatröð. Frestur til að skila inn athugasemdum við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi rennur út þann 12. janúar 2022. Það má gera í gegnum heimasíðu Akureyrarbæjar og/eða með því að senda tölvupóst á skipulagssvid@akureyri.is.

Margrét Guðmundsdóttir er sagnfræðingur og íbúi við Spítalaveg

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30