Fara í efni
Umræðan

Áramótahugleiðingar formanns Einingar-Iðju

Í upphafi árs er gott að skoða liðið ár velta fyrir sér komandi tímum. Ég vil byrja á því að senda öllum félagsmönnum, og öðrum, mínar bestu óskir um gleðilegt ár og þakka fyrir liðin ár.

Starfið hjá okkur í Einingu-Iðju hefur eðlilega mótast af Covid veirunni sem hefur gert okkur sem öðrum erfitt fyrir. Þetta á ekki síst við um að halda fundi eða mæta á vinnustaði til að hitta félagsfólk. Tæknin hefur verið meira notuð til að heyra í þeim og koma til þeirra skilaboðum frá stjórn og starfsfólki félagsins og upplýsa um réttindi hins vinnandi manns.

Öflugt trúnaðarmannakerfi

Það hefur verið stefna félagsins í gegnum árin að hafa gott trúnaðarmannakerfi og í dag starfa yfir 140 trúnaðarmenn á vinnustöðum á félagssvæðinu.

Það er ekki síst þeim að þakka að félagið hefur getað verið í samskiptum inn á vinnustaðina og eins hafa þeir leyst alls konar vandamál með sinni yfirsýn og glæsilegri frammistöðu. Trúnaðarmenn eru gulls ígildi fyrir starfsfólk á viðkomandi vinnustað og gera marga ótrúlega hluti sem eru oft vanmetnir, ekki síst af þeirra eigin vinnufélögum.

Það að vera kosinn trúnaðarmaður er ekki ávísun á að viðkomandi sé með allt á hreinu frá fyrsta degi. Félagið leggur mikið upp úr því að fræða trúnaðarmenn og býður upp á fjögur námskeið sem Félagsmálaskóli Alþýðu heldur. Tilgangur námsins er að auðvelda trúnaðarmönnum að takast á við verkefni sem þeim eru falin og jafnframt fá þeir fræðslu um lög, réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

Svolítið borið á því að atvinnurekendur séu að malda í móinn að trúnaðarmenn fái að fara á þessi námskeið en flestir eru því þó mjög fylgjandi.

Í Gallup könnuninni sem félagið lét gera sl. haust kemur fram að félagsmenn treysta trúnaðarmanni á sínum vinnustað og segja auðvelt að leita til hans. Af hverju er mér svona tíðrætt um trúnaðarmenn og þeirra störf? Ástæðan er sú að þeir eru lykillinn að góðu gengi í undirbúningi að gerð kjarasamninga og sjá um að réttindi og skyldur séu haldin á vinnustöðum. Ekki síst eru þeir augu og eyru stéttarfélaganna til að þau geti sinnt sínu mikla starfi og koma í veg fyrir að réttindi, sem samið hefur um, séu ekki brotin. Því er það markmið félagsins að fjölga trúnaðarmönnum til muna og þannig auka það aðhald sem þeir hafa á vinnustöðum.

Vernd trúnaðarmanna er lögbundin þ.e. að megi ekki láta þá gjalda fyrir sína baráttu fyrir sína vinnufélaga.

Könnun Gallups

Könnun Gallups sýnir að okkar félagsfólk hefur það mjög misjafnt, bjartsýni ríkir hjá mörgum en aðrir sjá sinn veruleika í svartnætti. Það er sláandi að áhyggjur af eigin fjárhag hafa aukist og er þó nokkur munur á milli ára til hins verra. Það er líka sláandi að 22% þeirra sem tóku þátt í könnuninn hafi þurft að fresta heimsóknum til lækna, rúm 36% til tannlækna og rúm 17% hafi ekki leyst út lyf vegna fjárhagsörðuleika. Þegar skoðað er hverjir þetta eru þá kemur í ljós að það eru þeir sem er á barneignaraldri.

Það er jákvætt að launahækkanir sem samið var um og komu til framkvæmda 1. janúar 2021 hafa skilað sér. Þegar dagvinnulaun eru skoðuð þá voru þau. m.v. 100% starf um kr. 458.000, sem er hækkun um kr. 31.000 frá fyrra ári. Ef meðal dagvinnulaun svarenda eru skoðuð eftir kyni, þá eru karlmenn með um kr. 453.000 sem er hækkun á milli ára um kr. 13.000. Konurnar eru með um kr. 464.000 sem er hækkun um kr. 51.000 á milli ára.

Heildarlaun þeirra sem tóku þátt í könnunni var, m.v. 100% starf, um kr. 576.000 árið 2021 miðað við um kr. 545.000 árið á undan. Ef meðal heildarlaun svarenda eru skoðuð eftir kyni, þá eru karlmenn með um kr. 617.000 sem er hækkun á milli ára um kr. 42.000. Konurnar eru með um kr. 525.000 sem er hækkun á milli ára um kr. 15.000.

Ánægja með þjónustu félagsins er mjög mikil og sömu sögu er að segja um traust til félagsins. Það er afar ánægjulegt að félagsmenn gefi starfseminni og þjónustunni hæstu einkunn.

Gallup könnunin er inn á heimasíðu félagsins ein.is og hvet ég félagsmenn sem aðra að skoða hana þar.

Brot á vinnumarkaði

Í Gallup könnunni kemur fram að fólk upplifir að meira sé brotið á réttindum þess nú en undanfarin ár. Það á ekki síst við um þeirra eigin réttindi, en einnig hefur fjölgað til muna þeim sem segjast sjá að verið sé að brjóta á öðrum. Þetta er sama tilfinning og starfsmenn félagsins finna sem er miður og má það ekki gerast að þetta haldi svona áfram.

Flestir atvinnurekendur hafa hlutina í lagi, en það eru of margir sem ekki sjá sóma sinn í því að fara eftir þeim leikreglum sem samið er um á vinnumarkaði.

Komandi kjarasamningar

Á árinu 2022 verða aðalkjarasamningar félagsins á almennum markaði lausir frá 1. nóvember að telja en samningar við ríkið og sveitarfélög varða lausir á árinu 2023.

Nú í janúar mun félagið hefja undirbúning að komandi samningum með allskonar aðferðum sem samninganefnd félagsins mun móta á rafrænum fundi sínum þann 13. janúar nk.

Að undirbúa komandi samninga verður ekki gert nema að hinn almenni félagi komi þar að og veit ég að það verður ekki vandamál þar sem á þriðja þúsund félagsmanna í Einingu-Iðju tóku þátt í undirbúningnum fyrir samningana 2019. Félagið er fólkið sem í því er og það taka ekki aðrir þátt í að móta stefnuna.

Að lokum

Stjórn og starfsfólk félagsins þakkar fyrir samstarfið á liðnu ári og árum og hlakkar til samskiptanna á nýju ári.

Björn Snæbjörnsson er formaður Einingar-Iðju

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30