Fara í efni
Umræðan

Akureyri, örnefni, hverfi og íbúar

Merking örnefnisins Akureyri virðist liggja í augum uppi. Fyrri hluti örnefnisins er orðið akur í merkingunni „sáðland“, síðari hlutinn eyri í merkingunni „tangi“. Hins vegar er ljóst, að akur hefur aldrei verið á eyrinni undir Búðagili sem alla tíð hefur verið hrjóstrug meleyri mynduð af framburði Búðalækjarins, en gilið dregur nafn sitt af búðum dönsku kaupmannanna er þar stóðu. Uppi á Höfða, þar sem nú er kirkjugarður Akureyringa, hefur sennilega verið kornakur á fyrri tíð þegar veðurfar var hlýrra og Íslendingar ræktuðu bæði korn og lín. Akureyri gæti því því merkt „eyrin undir akrinum“.

Þórhallur Vilmundarson prófessor gat sér þess til, að fyrri hluti örnefnisins Akureyri væri skylt latneska lýsingarorðinu acer, sem merkir „brattur“, og örnefnið merkti „eyri undir brattri brekku“ – undir bröttum brekkum Höfðans. Málfræðingum þótti þetta „vond latína“, því að samkvæmt germönsku hljóðfærslunni, sem svo er nefnd, varð indóevrópska hljóðið /k/, sem í latínu var ritað með bókstafnum c, að hljóðinu /h/ í germönskum málum. Latneska sögin cano: „syngja” og íslenska orðið hani eru til að mynda af sama stofni. En skýring Þórhalls Vilmundarsonar er frumleg.

Á landakortum og uppdráttum af Akureyri frá fyrri tíð stendur orðið Akkeroen eða Akkeröen, þótt staðurinn væri oftar nefndur Øefiord Handelsted eða aðeins Øefiord. Í hollensku og lágþýsku er til orðið akker í merkingunni „akur“. Á öldunum eftir siðaskipti og lengi síðan komu til Íslands hollenskir kaupmenn, sjómenn og kortagerðarmenn, bæði á eigin vegum og á vegum danskra kaupmanna, svo og á herskipum Danakonunga. Síðari hluti orðins Akkeröen er sennilega danska orðið øen eða ø sem merkir eyja eða tangi. Hugsanlegt er því að Akkeroen sé þýðing Hollendinga eða Þjóðverja með dönsku ívafi á örnefninu Akureyri sem Danir tóku upp, enda þýska lengi töluð af dönsku yfirstéttinni í Danmörku og danskir kóngar, sem margir voru af þýskum ættum, töluðu þýsku heima hjá sér langt fram eftir öldum.

Eitt af því fjölmarga sem vakið hefur undrun utanbæjarmanna á okkur Akureyringum, eru viðurnefnin sem við höfum gefið hver öðrum svo og heitin á bæjarhverfum í „höfuðstað hins bjarta norðurs“. Fyrst ber að nefna elsta bæjarhlutann Fjöruna eða Innbæinn, þar sem íbúar heita Innbæingar eða Fjörulallar. Þá rís Brekkan upp af gömlu Akureyri. Raunar eru Brekkurnar tvær, Suður Brekkan þar sem hús Menntaskólans standa, sjálfur Gamli skóli, eitt fegursta hús landsins í „schweitserstíl“, reist árið 1904, og Norður Brekkan norðan við Sundlaug Akureyrar og Andapollinn þar sem eru götur eins og Oddeyrargata, Hamarstígur, Þórunnar hyrnu stræti og Helga magra stræti, þar sem blekberi bjó tíu ár.

Nyrsta hverfi bæjarins – og hið nýjasta er Glerárhverfi sem nefnt var Glerárþorp eða aðeins Þorpið áður en það sameinaðist Akureyri 1955. Þar búa Þorparar, sem voru ákveðnir og dugandi, komnir af fátæku fólki og við Brekkusniglar bárum óttablanda virðingu fyrir.

Oddeyri með Gleráreyrum og Glerá, sem fraus og myndaði gler um norðanverða Eyrina, var vanalega kölluð Eyrin, ól af sér Eyrarpúka, ólíka einstaklinga eins og Jón hor og séra Bolla Gústavsson en Bolli sótti í skjól okkar Brekkusnigla þar sem hann átti vini og frændur. Á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar voru háðar orrustur milli Eyrarpúka og Brekkusnigla á klöppunum þar sem nú stendur styttan af Helga magra og Þórunni hyrnu eftir listamanninn Jónas S. Jakobsson.

Ekki má gleyma Bótinni þar sem lengi bjó fyrirfólk að ekki sé sagt aðalsfólk eins og Thorarensenar, afkomendur Stefáns Þórarinssonar, fyrsta amtmannsins á Möðruvöllum.

Austast og syðst var Oddeyrartangi, Tanginn, þar sem voru fá íbúðarhús en fiskverkunarhús, frystihús KEA og verkstæðið Oddinn, en frá Oddeyri syntu hraustir menn yfir á landið austan megin og eru af því skemmtilegar sögur.

Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003.

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45