Fara í efni
Umræðan

Akureyri Menningarhöfuðborg Evrópu

Menningarfélag Akureyrar skorar á Akureyrarbæ, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Menntamálaráðuneytið að taka í samstarfi með okkur stóra stökkið og stefna á að Akureyri verði Menningarhöfuðborg Evrópu.

Forsendur þessa er auðvitað blómlegt menningarlíf á Akureyri sem hefur styrkst og eflst á undanförnum árum. Glæsilegir og traustir innviðir hafa byggst upp með Menningarhúsinu Hofi og endurbótum á Listasafninu á Akureyri, auk þess sem hér eru fjöldi annarra tónleika- og samkomustaða þar sem fram fer gróskumikil og vönduð starfsemi. Kraftmikið menningarlíf glæðir bæjarbraginn lífi, hér má finna metnaðarfulla grasrótarstarfsemi á sama tíma sem hér eru reknar mikilvægar menningarstofnanir sem stuðla að atvinnumennsku í listum. Hingað kemur fólk til að setjast að og vinna að list sinni í frjóu og fallegu umhverfi Akureyrar.

Á Akureyri hefur orðið til yfirgripsmikil sérfræðiþekking og reynsla í að standa fyrir stórum menningarviðburðum. Með því að stefna að því að verða Menningarhöfuðborg Evrópu færum við aukinn kraft og framþróun inn í menningarlífið á Akureyri sem nær langt út fyrir bæjarfélagið og í raun um allt land. Ísland og Akureyri fengju aukna innlenda og alþjóðlega athygli og umfjöllun. Markmiðið í sjálfu sér yrði lyftistöng fyrir menningarlífið í landinu, en reynsla annarra borga segir að fjárfestingar á svæðinu aukist í kjölfarið sem og að innviðir styrkist enn frekar.

Þetta markmið færir Akureyri og nærsveitum einnig tækifæri til að rýna í sína sögu og menningararf ásamt hlutverki þess í íslensku og erlendu samhengi. Möguleikar lista- og menningarstofnana, sem og fyrirtækja á svæðinu til erlends samstarfs aukast til muna. Akureyri og Norðurland allt fær tækifæri til að vera stórhuga og máta sig við erlenda og innlenda kollega.

Þjóðarópera Íslands með aðsetur á Akureyri.

Að þessu sögðu er einboðið að finna fyrirhugaðri Þjóðaróperu heimili í Menningarhúsinu Hofi. Þannig væri hægt að nýta þekkingu, yfirbyggingu og félag sem þegar er fyrir hendi og láta stærsta hluta fjármagnsins renna beint í listræna framleiðslu. Það yrði hagur fyrir Þjóðaróperuna að hafa aðsetur í Hofi og nýta samlegðaráhrifin af annarri starfsemi Menningarfélags Akureyrar, en sýningar óperunnar færu fram bæði á Akureyri og í Reykjavík í samstarfi við fleiri menningarstofnanir. Innan Menningarfélags Akureyrar er rekin sinfóníuhljómsveit, alþjóðlegt kvikmyndatónlistarverkefni, leikhús og menningar- og ráðstefnuhús. Í Hofi er fyrirmyndaraðstaða varðandi tæknibúnað, þar er stórt leiksvið sem hægt er að koma tilkomumiklum leikmyndum fyrir og aðstaða fyrir hljómsveit í gryfju. Þessi hugmynd samrýmist minnihlutaáliti nefndar um Þjóðaróperu að einhverju leiti.

Með rekstri Þjóðaróperu á Akureyri er verið að efla menningarstarf á Íslandi öllu, það stuðlar að aukinni atvinnu fyrir fagfólk í listum auk afleiddra starfa. Það styrkir Akureyri sem atvinnusvæði og hjálpar til að anna þeirri miklu eftirspurn eftir störfum í atvinnumennsku í listum á Íslandi.

Það er mikilvægt að dreifa ábyrgð á framleiðslu menningarverðmæta til að tryggja fjölbreytta menningarflóru og efla nýsköpun og þróun. Nú þegar er menningarvald Íslands á litlum bletti í Reykjavík og á fárra höndum. Akureyri sem Menningarhöfuðborg Evrópu og staðsetning Þjóðaróperu á Akureyri yrði þarna mikilvægt mótvægi.

Þuríður Helga Kristjánsdóttir er framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar og Eva Hrund Einarsdóttir er formaður stjórnar félagsins.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00