Fara í efni
Umræðan

Af „spekingum“, bæjarfulltrúum og „Freka kallinum“

Helsta áskorun í málefnum menningarminja er almenn vanþekking á málaflokknum. Þetta fullyrti Andrés Skúlason verkefnastjóri og formaður fornminjanefndar í erindi fyrir skömmu. Hann staðhæfði auk þess að lítill hluti sveitarstjórnarmanna hefði kynnt sér málefni minjaverndar. Andrés hefur langa reynslu af sveitarstjórnarmálum. Hann starfaði svo dæmi sé tekið nær samfellt 16 ár sem oddviti í Djúpavogshreppi. En hvernig er staðan í okkar ágæta bæjarfélagi sem á sér langa sögu og státar af merkum menningarminjum? Umræður á bæjarstjórnarfundi þann 7. febrúar síðastliðinn varpa ljósi á þekkingu og afstöðu sveitarstjórnarmanna í Akureyrarbæ.

Við skulum rýna í orðræðu Andra Teitssonar og andsvör Hildu Jönu Gísladóttur. Þau eru bæði að hefja sitt annað kjörtímabil og hafa því meiri reynslu en flestir samstarfsmenn þeirra í bæjarstjórn. Andri steig í ræðustól þegar fjallað var um umdeildar breytingar á skipulagi í elsta bæjarhluta Akureyrar. Hann talaði í háðstón um „spekingana“ hjá Minjastofnun Íslands og hnýtti í bæjarfulltrúa fyrir að vitna til umsagnar þeirrar stofnunar. Virðingarleysið sem Andri Teitsson sýndi faglegri og vandaðri umsögn sérfræðings Minjastofnunar er auðvitað ósæmandi.

Andri bæjarfulltrúi Teitsson gerði líka tilraun til að véfengja vinnubrögð og þekkingu sérfræðinga í húsagerðarlist sem og þá stefnu „spekinganna“ að nýbyggingar skuli falla vel inn í þá bæjarmynd sem fyrir er. Hann taldi upp þrjár víðfrægar byggingar á Akureyri sem allar risu á fyrri helmingi 20. aldar eða skömmu síðar; Menntaskólann, Akureyrarkirkju, Sjúkrahúsið og lét að því liggja að sérfræðingar Minjastofnunar Íslands hefðu ekki lagt blessun yfir byggingu þeirra. Andri beindi kenningunni til bæjarfulltrúa sem leyfði sér að vísa í vel rökstudda og vandaða umsögn Minjastofnunar um friðað hús í Spítalabrekkunni. Það er engu líkara en lögboðnar umsagnir sem stofnuninni ber að sinna hafi reitt Andra til reiði og orðið kveikjan að sérkennilegum hugarburði í þáskildagatíð um húsgerðalist og Minjastofnun. Bæjarfulltrúinn virðist þar að auki leggja að jöfnu fyrirhuguð háhýsi við Tónatröð – sem sumir kenna við sólarlandablokkir – og fyrrnefndar byggingar.

Minjastofnun Íslands hefur gegnt forystuhlutverki í skipulögðum rannsóknum á sögu húsagerðarlistar hér á landi. Það eru að vísu aðeins tíu ár frá því stofnunin tók til starfa en þar starfa einstaklingar sem búa yfir mikilli þekkingu og reynslu. Einn þeirra er Pétur H. Ármannsson arkitekt. Pétur er einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar í þróun húsagerðarlistar á Íslandi. Í rannsóknum sínum hefur hann meðal annars fjallað ítarlega um hönnun Guðjóns Samúelssonar húsameistara. Verk Guðjóns setja mikinn svip á Akureyri eins og kunnugt er. Fráleitar kenningar eða öllu heldur hugarburður Andra bæjarfulltrúa Teitssonar um sérfræðinga Minjastofnunar bera ekki aðeins vott um þekkingarleysi á hlutverki og stöðu Minjastofnunar heldur einnig þeim mannauði sem stofnunin býr yfir.

Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi greip til andsvara og gagnrýndi Andra fyrir niðrandi ummæli um „spekinga“ Minjastofnunar. Þau endurspegla að mati Hildu Jönu þá „viðteknu sýn“ innan bæjarstjórnar Akureyrar að öll umræða um minjavernd sé af hinu illa og „byggð á hálfvitagangi spekinga sem búi á einhverju eyðibýli.“ Málflutningur Andra Teitssonar þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að grafa undan trúverðugleika Minjastofnunar. Hann gerir tilraun til að kasta rýrð á sérþekkingu þeirra fagmanna sem þar starfa með niðrandi ummælum og fabúlasjón í þáskildagatíð. Starfshættir Andra bæjarfulltrúa Teitssonar bera ekki vott um vönduð og fagleg vinnubrögð. Á því sviði gæti hann lært mikið af sérfræðingum Minjastofnunar Íslands.

Sú skoðun virðist því miður hafa náð fótfestu meðal kjörinna fulltrúa í Akureyrarbæ að minjavernd sé til trafala. Þeir sem aðhyllast þá skoðun vilja að gömul, jafnvel friðuð hús víki sem fyrst ef þau eru fyrir nýbyggingum – gjarnan plássfrekum háhýsum. Kjörnir fulltrúar með litla reynslu eða þekkingu þurfa á skömmum tíma að kynna sér og taka afstöðu til hönnunar og skipulags. Við upphaf kjörtímabils eru þeir eflaust misvel læsir á teikningar og skipulagslýsingar. Þetta leiðir til þess að afdrifaríkar ákvarðanir eru lítið ræddar eða ígrundaðar. Bæjarfulltrúar á líðandi kjörtímabili sem og því síðasta hafa lítið sem ekkert rætt um umtalsverðar skipulagsbreytingar í elsta hverfi bæjarins. Þar átti að hraða framkvæmdum sem mest eins og fram kom, í máli Andra Teitssonar, á títtnefndum bæjarstjórafundi. Kappið var slíkt að skautað var framhjá starfsreglum sveitarfélagsins og góðum stjórnsýsluháttum. Slíkir stjórnunarhættir hafa verið kenndir við „Freka kallinn“. Við skulum rýna betur í einkenni hans og persónuleika.

„Freki kallinn“ getur verið af öllum kynjum. Í hans augum eru allir sem eru ekki sammála honum „eintóm fífl og fávitar“ – einkum og sérílagi konur. Ein lög gilda fyrir hann en önnur fyrir alla aðra. „Freki kallinn” er alltaf í fullum rétti, veit allt betur en allir aðrir og hefur alltaf rétt fyrir sér. Hann er kóngurinn á landinu bláa,“ eins og Jón Gnarr benti á í blaðagrein árið 2015 (Fréttablaðið 26. september). Þessi óborganlega lýsing á hvimleiðum karakter endar á vísbendingu um kjörlendur hans. Þegar Jón var borgarstjóri hitti hann „Freka kallinn“ á hverjum degi við störf sín hjá Reykjavíkurborg. Sá freki er vissulega á ferli um allt samfélagið en getur verið að hann sé hluti af stjórnkerfi sveitarfélaga?

Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun. Hlutverk hennar, ábyrgð og skyldur eru skilgreindar í lögum. Bæjarfulltrúum, embættismönnum og öllum þeim sem gegna trúnaðarstörfum á vegum Akureyrarbæjar ber, eins og öðrum landsmönnum að hlíta lögum um menningarminjar. Tilraunir til að draga úr trúverðugleika Minjastofnunar Íslands og sópa fagmennsku sérfróðra af teikniborði skipulagsmála eru tilræði við menningarminjar og sögu Akureyrarbæjar.

Margrét Guðmundsdóttir er sagnfræðingur.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00