Fara í efni
Umræðan

Ábendingar vegna skipulagslýsingar

Opinbert bréf til bæjaryfirvalda – ábendingar vegna skipulagslýsingar við Tónatröð og Spítalaveg

Nú hefur naumur meirihluti bæjarstjórnar samþykkt skipulagslýsingu í samræmi við byggingaráform SS Byggis við Tónatröð. Á heimasíðu Akureyrarbæjar er tekið fram að bæjaryfirvöld kalli eftir áliti íbúa á skipulagslýsingunni vegna fyrirhugaðra breytinga á skipulagi svæðisins og er gefið svigrúm fram til 12. janúar 2022 til að koma með ábendingar. Ég hvet því alla þá sem skoðun hafa á málinu að koma þeim á framfæri fyrir þann tíma, annað hvort í gegnum heimasíðu bæjarins, eða með því að senda tölvupóst á netfangið skipulagssvid@akureyri.is.

Afstaða mín í málinu ætti að vera orðin bæjaryfirvöldum ljós þar sem ég hef ítrekað komið henni á framfæri eftir formlegum leiðum síðan að ferlið hófst fyrir um ári síðan. Þeim athugasemdum hefur þó fram til þessa verið mætt með þegjandi þögninni og hefur markvisst leyfi ég mér að segja verið stungið undir stól innan kerfisins. Að þessu sinni kýs ég því að birta athugasemdir mínar á opinberum vettvangi, samhliða því að fara með þær í gegnum gáttir kerfisins, svo erfiðara sé fyrir bæjaryfirvöld að hunsa þær.

Tillaga SS Byggis er algjört skipulagsslys m.a. vegna þess að;

  1. Tillagan gengur gegn nýlega samþykktu aðalskipulagi Akureyrarbæjar. Þar segir að við deiliskipulag eldri hverfa skuli skilmálar miða að því að styðja og styrkja byggðamynstur og yfirbragð þeirra og að þess skuli gætt að breytingar á byggingum og nýbyggingar falli vel inn í þá götumynd sem fyrir er. Þar er einnig kveðið á um að viðhalda skuli tengslum við sögu og menningararf. Í því samhengi er ágætt að undirstrika að við Spítalaveg og Tónatröð standa byggingar sem eru samofin sögu spítalans á Akureyri, en samkvæmt tillögum SS Byggis verða tvö þessara húsa fjarlægð, gamla sóttvarnarhúsið sem var byggt 1905 og er því aldursfriðað samkvæmt lögum og Litli Kleppur byggður 1945.
  2. Eitt af markmiðum aðalskipulagsins er þétting byggðar. Í þeim þéttingaráformum er þó ekki gert ráð fyrir þéttingu byggðar í þeim bæjarhluta sem hér um ræðir þar sem um sé að ræða eldri byggð með varðveislugildi og að mikilvægt sé að halda yfirbragði svæðisins og að nýbyggingar séu í samræmi við aðliggjandi húsaraðir.
  3. Spítalabrekkan er eitt af sérkennum bæjarins. Hún blasir víða við og þar af leiðandi verða öll mannvirki í henni áberandi. Bygging stórra fjölbýlishúsa í brekkunni mun óhjákvæmilega breyta ásýnd hverfisins og bæjarins alls.
  4. Tillagan gengur gegn byggingarlistastefnu Akureyrarbæjar en þar er m. a. fjallað um mikilvægi verndar einstakra bygginga, húsasamstæða, götumyndar og yfirbragði heilla hverfa.
  5. Úthlutun lóða, eða veiting vilyrða fyrir þeim, verða að vera teknar í samræmi við úthlutunarreglur Akureyrarbæjar sem og almennar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar. Í úthlutunarreglum Akureyrarbæjar kemur fram sú meginregla að auglýsa skuli allar lóðir áður en þeim er úthlutað. Til þess ber að líta að lóðirnar við Tónatröð eru skilgreindar í deiliskipulagi sem einbýlishúsalóðir og var öðrum aðilum aldrei gefinn kostur á að sækja um lóðirnar undir þeim formerkjum að um fjölbýlishúsalóðir væru að ræða. Úthlutun lóðanna við Tónatröð var því hvorki í samræmi við reglur Akureyrarbæjar um lóðaúthlutanir né í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar um jafnræði, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.
  6. Samkvæmt nýlegu minnisblaði vísindamanna frá Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands er þörf á að skoða hreyfingar á jarðvegi við ellefu þéttbýlisstaði á landinu með tilliti til aurskriðuhættu. Er brekkan fyrir ofan innbæinn m.a. nefnd í því samhengi, enda sýnir sagan að um þekkt skriðusvæði er að ræða. Fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu fela í sér stórfellt jarðrask sem auka hættuna á aurskriðum. Áður en lengra er haldið þurfa að fara fram ítarlegar og vandaðar rannsóknir, kortlagning, hættumat og vöktun á svæðinu með tilliti til aurskriðuhættu.
  7. Nái tillaga SS Byggis fram að ganga má gera ráð fyrir því að íbúafjöldi hverfisins fimmfaldist. Því fylgir mikil aukning á umferð og samkvæmt þeirri tillögu sem nú hefur verið lögð fram stendur til að beina þeirri umferð niður Spítalaveg. Um eina elstu íbúagötu bæjarins er að ræða sem er mjög þröng og oft er erfitt að mæta þar bílum. Þá má líka geta þess að sökum þess að mikil hreyfing er á jarðveginum hafa í varúðarskyni verið settar þungatakmarkanir á götuna. Það verður því að teljast harla ólíklegt að gatan beri þá stórauknu umferð sem slík fjölbýli hefðu í för með sér.

Líkt og fram kemur í byggingarlistastefnu Akureyrarbæjar er mikilvægt að arkitektúr taki mið af samhengi bygginga og umhverfis, t.d. hvernig einstaka byggingar ríma saman, nýjar og gamlar og hvernig byggingar eru lagaðar að landslagi. Góður arkitektúr snýst því ekki bara um góða list heldur þarf hann að falla vel inn í umhverfið, götuna, hverfið, bæinn og landslagið. Að grafa burt eitt af sérkennum bæjarins, Spítalabrekkuna, til þess að rýma fyrir fjölbýlum sem eru algjörlega úr takti við nánasta umhverfi getur ekki talist góður arkitektúr. Hér er því í uppsiglingu stórfellt skipulagsslys sem verður að stöðva strax!

Hildur Friðriksdóttir er íbúi við Spítalaveg.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00