Fara í efni
Umræðan

50.593! Um (enga) upplýsingamiðstöð ferðamanna

Heil og sæl Akureyringar, verslanir, hótel, veitingahús og stofnanir hér á svæðinu.

Nú get ég ekki lengur orða bundist. Málefnalegar umræður vel þegnar.

Mér þykir ótrúlega vænt um Akureyri og mér er ekki sama um hvernig við tökum á móti gestum sem sækja okkur heim. Staðreyndin er þessi. Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Akureyri var lokað um áramótin 2020/2021. Gott og vel, þörf var á sparnaði og ekki mikið um ferðamenn á kóvid tímum.

Þar sem ég stend vaktina í Kistu í Hofi er ég yfirleitt fyrsta manneskjan sem fólk hittir þegar það kemur inn í Hof í leit að upplýsingamiðstöðinni og allskyns upplýsingum. Síðasta sumar var ég, þrátt fyrir kóvid, að svara um 50-100 manns á dag á hápunkti faraldursins yfir hásumarið. Í ár eigum von á margfalt fleiri gestum í bæinn og enginn virðist hafa áhyggjur af því að þessi þjónusta hafi verið lögð niður.

Ég er búin að senda fyrirspurn á bæjaryfirvöld, lýsa þessari fáránlegu stöðu sem upp er komin, og spyrjast fyrir um fyrirætlanir þeirra. Svörin eru skýr og það er NEI, við ætlum ekki að veita þessa þjónustu. Óljósar hugmyndir eru um rafrænar lausnir en þær eru ekki tilbúnar. Starfsfólk á hótelum, veitingahúsum, verslunum og íbúar Akureyrar virðast eiga að sinna þessari upplýsingagjöf samhliða sínum störfum, sem ekki getur talist góð/fagleg upplýsingagjöf. Sjálf get ég ekki bæði staðið vaktina í minni verslun og sinnt ferðamönnum sem komnir eru í Hof í leit að upplýsingamiðstöðinni. En ég get heldur ekki setið aðgerðarlaus þegar ég upplifi á eigin skinni hversu mikil eftirspurn er eftir upplýsingagjöf til ferðamanna.

Það gæti komið fólki á óvart en árið 2019 leituðu yfir 50 þúsund manns – 50.593 – frá maí til sept. til upplýsingamiðstöðvarinnar (já þá voru til snjallsímar og það var búið að finna upp internetið)! Með því að leggja þessa þjónustu niður er bærinn í raun að segja að þessir tugþúsundir ferðamanna séu að leita eftir þjónustu, upplifunum sem þeir þurfa í raun ekkert á að halda. Þeir viti bara ekki betur.

Við hljótum að vilja hitta þessa ferðamenn, leiðbeina og sýna þeim hvað Akureyri hefur upp á að bjóða.

Við getum gert betur.

Katrín Káradóttir rekur Kistu, verslun í menningarhúsinu Hofi

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00