Fara í efni
Pistlar

Vinur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 3

Það þurfa ekki að líða mörg ár í lífinu svo tómleikinn fái ekki rúm í sálu manns. En ég mun hafa verið sex ára. Mamma sagðist þurfa að eiga við mig orð eftir morgunmatinn, en sér þætti betur að ég sæti á eldhúskollinum á meðan hún létti á hjarta sína.

Ég hafði náttúrlega ekki aldur til að skilja hvað mútta mín var að fara, en af alvörusvip hennar mátti þó ráða að henni lægi nokkuð þungt fyrir brjósti.

En Jói dó í gærkvöld, sagði hún lágum rómi, og nú væri það englanna á himninum að gæta hans um ókominn ár.

Jói vinur minn, spurði ég, helst til áttavilltur, en þar var kominn sálufélagi minn í næsta húsi í Álfabyggðinni. Ég hafði gætt hans af þeirri alúð sem þroski minn leyfði, en astminn í berkjunum gat ekki leyft honum nokkurt táp og leiki.

En það hafði mamma útskýrt fyrir mér. Sjálfur heyrði ég bara í hryglunum þegar hann stóð því sem næst á öndinni. En þá var það mitt að rétta honum pústið.

Veikindin breyttu því ekki að ég sótti oftar í félagsskap Jóa en annarra stráka í götunni. Fyrir það fyrsta var svo stutt að snarast úr einu húsinu í annað á sömu torfunni, en hitt vissi ég að það myndu ekki margir heimsækja hann á daginn.

Svo ég fann til með þessum næsta nágranna mínum. Og daglangt gátum við dundað við að raða upp tindátum á gólfinu í herbergi hans, og það mátti ekki á milli sjá hvor herinn væri stæðilegri á velli.

En núna væri hann dáinn, Jói vinur minn, útskýrði mamma og hefði tapað sínu stríði. Og ég sat sex ára eftir á eldhúskollinum þegar samtalinu var lokið.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: SKÚFFUBRÍK

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00