Fara í efni
Pistlar

Þú trylltist og varst rekinn út af!

ORRABLÓT - XVII

Knattspyrnuferill minn varð hvorki langur né merkilegur. Það verður að segjast alveg eins og er. Ég lék upp í gegnum 2. flokk hjá Þór en var aldrei nálægt því að banka á dyrnar hjá meistaraflokki. Fann þær ágætu dyr satt best að segja aldrei.

Eftirminnilegt er samtal sem við áttum, fjórir eða fimm félagar, við aðstoðarmann 2. flokks, sem hét því viðeigandi nafni Steini aðstoðar, í lokahófi eftir síðasta árið okkar í flokknum haustið 1990. Vel lá á Steina sem jós lofi yfir félaga mína, alla með tölu, og hvatti þá eindregið til að æfa áfram af kappi og freista þess að komast að hjá meistaraflokki Þórs. Hann yrti aftur á móti ekki á mig.

„En hvað með mig, Steini?“ spurði ég. Svolítið utanveltu.

„Nei,“ svaraði Steini ískaldur og horfði djúpt í augun á mér. „Þú átt enga möguleika!“

Nokkru fyrir „Rauða daginn“ í Kópavogi. Þetta er 4. flokkur Þórs í knattspyrnu sumarið 1985.
 
Aftari röð frá vinstri: Guðmundur Svansson þjálfari, Örn Ólafur ,,Ernesto" Jónsson, Aðalsteinn Pálsson, Hjalti S. Hjaltason, Rúnar Sigtryggsson, Axel Gunnarsson, Orri Páll Ormarsson og Axel Vatnsdal.
 
Fremri röð frá vinstri: Valur Helgi Kristinsson, Þórarinn Friðrik Malmquist Einarsson, Sævar Guðmundsson, Sverrir Ragnarsson, Gauti markmaður Hauksson, Þórir Áskelsson, Jónas Leifur Sigursteinsson, Arnaldur Skúli Baldursson og Bjarni Ármann Héðinsson.

Í þessu ljósi varð ég í senn undrandi og upp með mér þegar bláókunnugur maður kom að máli við mig mörgum árum síðar eftir bumbubolta á gervigrasinu í Kópavogi, þar sem Fífan stendur núna.„Heyrðu, varst þú ekki í Þór?“

Ha, jú.

„Já, einmitt. Ég man eftir þér. Þú trylltist á sínum tíma í leik í 2. flokki gegn Breiðabliki hérna á Kópavogsvelli og varst rekinn út af.“

Að svo mæltu kvaddi hann og hélt sína leið. Þið getið ímyndað ykkur svipinn á mér, þar sem ég stóð eftir. Steyptur í sporin.

En hann hafði rétt fyrir sér. Ég geng kannski ekki svo langt að segja að ég hafi tryllst í téðum leik en vissulega var ég rekinn af velli.

Forsaga málsins er sú að ég var í framlínunni og hafsentinn sem dekkaði mig var svona klækjarefur af gamla skólanum; stöðugt að klípa og ýta í mig. Eftir að boltinn hrökk út fyrir hliðarlínuna eftir baráttu okkar seint í leiknum snerum við okkur við til að hlaupa inn á vítateiginn. Nema hvað, þrjóturinn gaf mér bylmingshögg í barkann með olnboganum. Ég svaraði því bragði með því að sparka þéttingsfast í lærið á honum; það voru meira ósjálfráð viðbrögð en eitthvað annað. Hann henti sér að vonum niður, eins og stunginn grís.

Félagssvæði Breiðabliks í Kópavogi, þar sem Orri sá rautt. Efst til vinstri er Felix Jósafatsson lögregluþjónn við hefðbundnari störf en að ráðleggja ráðvilltum knattspyrnudómara. Þar fyrir neðan, Þórir Áskelsson, fyrirliði 2. flokks Þórs og tengdasonur Felix. Efst til hægri tvíburarnir af Akranesi, Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir sem koma við sögu í pistlinum. Segja má með býsna góðri samvisku að í þeim renni Þórsblóð því Gunnlaugur faðir þeirra Sölvason er Akureyringur og lék með Þór sem strákur.

Ekki veit ég hvað blessaður dómarinn var að sýsla meðan á öllu þessu gekk en hann sá ekki neitt. Og ekki heldur línuvörðurinn sem stóð rétt hjá okkur. Hvorugur skildi upp né niður í því hvers vegna ég hélt um hálsinn og hinn gaurinn kútveltist í sverðinum. „Hm, ætli ég sé hólpinn?“ hugsaði ég með mér. Í því kom ég auga á hinn línuvörðinn, lengst í burtu, sem veifaði flaggi sínu eins og hann væri táningsstúlka sem komið hefur auga á Harry Styles í strætó á leið hjá. Dómarinn hélt strax til fundar við hann.

Þegar hann kom svo brokkandi til baka, andartaki síðar, helvíti valdsmannslegur og sperrtur sá ég sæng mína upp reidda. Enda reif dómarinn upp rauða spjaldið. Réttilega. En bara á mig. Blikinn slapp enda búinn að hreiðra vel um sig í hlutverki fórnarlambsins í málinu.

Þessi niðurstaða kom illa við einn vallargesta sem kom í loftköstum niður úr stúkunni, til að lesa dómaranum pistilinn. Það var Felix Jósafatsson, lögga að norðan, sem mættur var til að horfa á tengdason sinn og fyrirliða okkar, Þóri Áskelsson. „Sástu ekki hvað hinn gerði?!“ þrumaði Felix sem er ekkert fis á velli. Nei, það gerði dómarinn ekki. Og þar við sat. Mér gafst aldrei ráðrúm á sínum tíma til að þakka Felix fyrir þennan óvænta en kærkomna stuðning og geri það því hér með.

Ég var úrskurðaður í eins leiks bann og náði einhverjum tveimur eða þremur leikjum fyrir Þór eftir það. Seinasti heimaleikurinn var ógleymanlegur en þá lögðum við stríðmannað lið Skagans, með Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni, Bjarka Pétursson og fleiri kappa innanborðs, 7:2. Sjálfur skoraði ég með skalla, í eina skiptið á ferlinum, eftir fyrirgjöf frá Steindóri Gíslasyni, Bimbó, sem síðar varð fyrirsæta í Bandaríkjunum. Það var sæt hefnd en Skagamenn höfðu oft leikið okkur grátt þegar við sóttum þá heim.

Laugalandsvöllur í Eyjafjarðarsveit þar sem heimaleikir UMSE-b fóru fram í eina tíð. Nú er hún Snorrabúð stekkur. Myndin er tekin fyrir nokkrum árum og í dag er ekkert sem minnir á að þarna hafi nokkurn tíma verið stundaðar íþróttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Um haustið flutti ég suður til náms og gerði ráð fyrir að knattspyrnuferlinum væri lokið. Það var svo undir vorið 1991 að sá mikli höfðingi og Þórsari Guðmundur Svansson kom að máli við mig á handboltaleik fyrir sunnan og spurði hvort ég vildi ekki spila með UMSE-b í Eyjafirðinum í 4. deildinni um sumarið en hann var að þjálfa liðið. Jú, jú, hvers vegna ekki? svaraði ég. Ég meina, hver segir nei við Gumma Svans?

Þetta var um margt skemmtilegt sumar, félagsskapurinn góður, veðrið fínt og heimavallarstæðið frammi á Laugalandi stórbrotið. Synd væri þó að segja að við UMSE-b-liðar hefðum lagt margt nýtt að mörkum til sparksögu heimsins. Gengi liðsins var ekki upp á marga fiska og sjálfur var ég arfaslakur. Skoraði þó eitt mark, gegn nágrannaliðinu í Hörgárdal, sem mig minnir að hafi heitið SM. Það var skrautlegt. Ég ætlaði í ógurlega tæklingu um miðjan völl en af einhverjum ástæðum seinkaði mótherja mínum þannig að fyrir mér varð ekkert nema tuðran sem ég lúðraði hátt í loft upp. Hún sveif svo í fallegum boga í átt að marki og yfir markvörðinn sem var fremur lágur í loftinu. Mark!

Ég viðurkenni að ég var hálfvandræðalegur þegar ég fagnaði markinu enda öllum viðstöddum ljóst að ég hafði ekki verið að reyna skot.

Eigendum UMSE-b varð svo um þetta ógengi að klúbburinn var lagður niður um veturinn. Og ég sneri mér af fullum þunga að bumbubolta.

Það var svo níu árum síðar, síðsumars 2000, að Arnaldur Skúli Baldursson vinur minn, boðaði mig á æfingu hjá Gróttu á Seltjarnarnesi en hann lék þá með liðinu í 4. deildinni undir stjórn enn eins Akureyringsins, Höskuldar Þórhallssonar, síðar alþingismanns. Eitthvað hafði kvarnast úr hópnum og menn vantaði á æfingar. Ívar Bjarklind, bróðir Skúla, hafði til dæmis byrjað með Gróttu um vorið en fyllst bráðametnaði og gengið til liðs við KR um mitt sumar og varð svo Íslandsmeistari með þeim svarthvítu um haustið. Aðrir höfðu meiðst og enn aðrir lent í ferðalögum.

En hvað er þetta UMSE-b? Er það lið? spurði starfsmaður KSÍ? Bók Víðis Sigurðssonar, Íslensk knattspyrna 1991, kom að notum þegar sannreyna þurfti svar Orra Páls við þeirri spurningu.

Ég hafði engin áform um að leika með liðinu en Hössi rak mig strax niður í Laugardal með pappíra; hann hefði varla í lið.

Konan sem tók á móti mér á skrifstofu KSÍ mældi mig út með augunum. „Þú ert örugglega að skipta í old boys, er það ekki?“

Nei, ég er bara 29 ára og ekki gjaldgengur í old boys.

„Nú,“ sagði konan, undrandi. „En hvað er þetta UMSE-b? Er það lið?“

Já.

Það var konan ekki að kaupa en mér til happs þá kom ég auga á bókaflokk Víðis Sigurðssonar kollega míns á Mogganum, Íslenska knattspyrnu, á hillu fyrir aftan móttökuna og benti henni á að leita að mér þar, í heftinu frá 1991. Bingó! Hún fann kauða og skrifað var undir pappírana.

Nokkrum dögum síðar sat ég á bekknum hjá Gróttu, ásamt einum öðrum leikmanni. Kom inn á undir lokin. Náði svo einum leik til, nokkrum mínútum. Framganga mín kom ekki fram á skjálftamælum.

Þar með lauk ferli mínum í meistaraflokki endanlega.

Þetta kveikti þó einhvern neista og næstu árin lék ég í utandeildinni, fyrst með Almenna fótboltafélaginu (e. The Common Football Club of Iceland), sem síðar varð Henson, hitti þar meðal annarra fyrir gamlan félaga úr Þór, ljúflinginn og húmoristann Axel Gunnarsson, og síðan Vængjum Júpíters, ásamt elsta stjúpsyni mínum, Jóhanni Fjalari Skaptasyni, og vinum hans. Það var í senn gaman og gefandi.

Rauða spjaldið sá ég aldrei aftur.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00