Fara í efni
Pistlar

Þú ert nú meiri hetjan

„Þú ert nú meiri hetjan,“ er setning sem ég hef heyrt oftar en ég hef tölu á undanfarið eitt og hálft ár í mínum krabbameinsveikindum. Ég hugsa að margir krabbameinssjúklingar deili þeirri reynslu með mér, að vera kallaðir hetjur. Fólk segir þetta af heilum og hlýjum hug til uppörvunar og í tilraun til að tjá aðdáun sína og samlíðan. Það má alls ekki misskilja mig, mér þykir afar vænt um að vera kölluð hetja og enn vænna um elskusemina að baki nafnbótinni um leið og ég verð að viðurkenna að mér hefur alls ekki liðið sem hetju undanfarið ár, að minnsta kosti ekki sé miðað við hetjur Íslendingasagna eða amerískra bíómynda. Við mannfólkið höfum auðvitað tilhneigingu til að bera höfuðið hátt á opinberum stöðum og svara spurningunni stóru „Hvað segirðu?“ með stutta svarinu „bara fínt“. Á samfélagsmiðlum hef ég oftar en ekki tjáð mig um þann styrk sem ég hef fundið í trúnni á þessari vegferð minni og þar er sko engu logið, trúin á nærveru Jesú Krists hefur verið mér gríðarlegur styrkur og ég veit hreinlega ekki hvar geðheilsa mín væri ef ég ætti ekki þann fjársjóð að sækja í þegar mér finnst ég verða aftur að ungbarni, ósjálfbjarga í þessum ógnvekjandi aðstæðum. Það þýðir samt ekki að ég nái alltaf að halda höfði, ekki frekar en hvítvoðungurinn nýfæddi.

Fyrir um mánuði síðan fékk ég góða niðurstöðu úr sneiðmyndatöku sem sýndi ekkert krabbamein að verki í líkama mínum, líkama sem á einu ári hefur greinst tvisvar með þann vágest. Það er engum blöðum um það að fletta að betri fréttir er vart hægt að fá og fyrir þann sem stendur hjá hlýtur það að þýða algjöra umpólun á lífi þess sem hefur staðið í baráttunni, nú má óttinn og kvíðinn hafa sig á brott og bjartsýnin ein brosa við bænum, sem er því miður ekki raunin. Þar kemur kannski hugmyndin um hetjuna til skjalanna. Það er nefnilega nokkuð inngróið í mannlegt eðli að stíga ölduna, bretta upp ermarnar og berjast fyrir lífi sínu, við gerum það flest þegar á reynir. Á heimsvísu hafa margar milljónir manna farið gegnum allskonar miður skemmtilegar krabbameinsmeðferðir í gegnum tíðina og bara látið sig hafa það. Í sjálfu sér reynir kannski mest á þegar storminn lægir og maður stendur eftir ringlaður í alveg nýjum veruleika, með gjörbreytta framtíðarsýn. Um þetta er kannski minna fjallað en krabbameinið sjálft og baráttuna við það. Við fjöllum yfirhöfuð meira um áföll en úrvinnslu þeirra ef út í það er farið. Og samt er það í raun úrvinnslan sem skiptir öllu máli varðandi það hvernig framtíðin þróast. Og nú er ég ekki bara að tala um krabbamein heldur áföll almennt og kannski líka framtíðina sem bíður okkar eftir Covid, hvenær sem þeirri baráttu endanlega lýkur, ég er sannfærð um að þá tekur ekki við minna álag á heilbrigðiskerfið, ekki síst geðheilbrigðiskerfið, við þurfum að búa okkur vel undir það í tíma.

Ég get að minnsta kosti deilt því með þér kæri lesandi að ég var mun upplitsdjarfari um mitt sumar þegar ég var hálfnuð með lyfjameðferð en nú þegar henni er lokið og ekkert tekur við nema eftirfylgd á nokkurra mánaða fresti í von um að meinið komi aldrei aftur. Nú þegar storminn hefur lægt er ég skelfingu lostin. Skelfingu lostin yfir því sem ég hef farið í gegnum og horfi nú á í baksýnisspeglinum í rólegheitunum í skammdeginu ein heima þar sem aðrir eru í vinnu og skóla. Ég er engin hetja. Nema að hetja sé að vera sá sem ákveður í kvíða sínum og depurð að panta tíma hjá sálfræðingi og hafa um leið samband við heimilislækninn og fá þunglyndislyf og reynir að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi til að auka framleiðslu gleðihormóna í líkamanum. Nema að það að vera hetja sé að segja við fólk sem spyr hvernig ég hafi það, að ég sé óttalega döpur og ólík sjálfri mér og þegar fólk bíður eftir jákvæðu rúsínunni í pylsuendanum að segja þá bara, en ég á bjargráð sem ég get notað og ég hlýt að komast í gegnum þetta. Nema það að vera hetja sé að gráta fyrir framan 19 ára son sinn á kaffihúsi þar sem hann rifjar upp góðar minningar og veit ekki að þær hreyfa við varnarleysi móður hans. Nema það að vera hetja sé að fara á bráðamóttöku sjúkrahússins með bólgna öxl og gera sig þar að fífli af því að maður gerir fastlega ráð fyrir að um meinvarp sé að ræða en ekki heiðarlega vöðvabólgu. Ef þetta er að vera hetja, nú þá er ég það en ekki eins og í Íslendingasögum eða amerískum bíómyndum eða eins og fólk oft heldur að krabbameinssjúklingar séu í meintu æðruleysi sem ég á enn eftir að finna gagnvart þessum óboðna gesti sem ruddist inn í líf mitt og sneri því á hvolf.

Ef þetta er að vera hetja, þá geta allir verið hetjur og kannski er það einmitt málið. Kannski erum við öll hetjur. Já kannski er bara hreinn hetjuskapur að vera manneskja í öllum þessum önnum og raunum lífsins.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00