Fara í efni
Pistlar

Þræll þeirra Dufgussona?

ORRABLÓT - XIX

Ég ólst upp með Sturlungum. Ekki þó þeim sem riðu þungvopnaðir um héröð á 13. öld, heldur frændum þeirra sem fæddust á þeirri tuttugustu. Þeir eru jafnframt frændur mínir.

Forsaga málsins er sú að afi minn, Snæbjörn Sigurðsson, ættaður frá Snæbjarnarstöðum í Fnjóskadal, tók ungur ástfóstri við Sturlunga sögu; las hana upp til agna og þegar honum gafst tækifæri til að kaupa höfuðbólið Grund í Eyjafirði um miðja síðustu öld, þar sem Sighvatur, sonur Hvamm-Sturlu, bjó um árabil, þurfti hann ekki að láta segja sér það tvisvar. Þar á undan bjuggu amma og afi um tíma á næsta bæ fyrir norðan Grund, Hólshúsum.

Höfuðbólið Grund í Eyjafirði. Erlent málverk.

Á þessum tveimur bæjum uxu börn þeirra sex úr grasi. Fyrst fæddust Sigurður og Hólmfríður, skírð í höfuðið á foreldrum afa, en síðar komu að sjálfsögðu Sighvatur og Sturla. Ömmu, Pálínu Jónsdóttur, sem var afabarn Hákarla-Jörundar úr Hrísey, var minna um Sturlunga gefið og valdi því nöfnin Jón Torfi og Ormarr á hina bræðurna tvo. Hvers vegna enginn hlaut nafnið Jörundur hef ég aldrei skilið en talsvert er samt um þá í ættinni.

Áhugi og þekking afa á Sturlungu var víðkunn og frægt var þegar virðulegur prófessor við Háskóla Íslands sló á þráðinn norður á Grund (númerið var: stutt, löng, stutt) til að bera ákveðið álitamál í verkinu undir afa. Afi þurfti ekki að hugsa sig lengi um og var snöggur að taka af allan vafa í huga prófessorsins sem sendi honum viskíflösku að launum. Að þessu samtali voru fjölmörg vitni. Við erum jú að tala um gamla góða sveitasímann.

Hjónin Snæbjörn Sigurðsson og Pálína Jónsdóttir á Grund, Sturlungar og sveitasíminn sem eldri kynslóðir muna eftir. Orri segir: „frægt var þegar virðulegur prófessor við Háskóla Íslands sló á þráðinn norður á Grund (númerið var: stutt, löng, stutt) til að bera ákveðið álitamál í verkinu undir afa.“ Myndina af hjónunum málaði Friðgeir Axfjörð en teikningin af Sturlungu er fengi af Vísindavefnum.

Föðurbræður mínir, Sighvatur og Sturla, ólust upp við húslestra og tóku hlutverk sitt, þegar þar að kom, grafalvarlega. Þannig á Sturla synina Þórð og Snorra og Sighvatur soninn Sturlu. Þeir kappar eru aðeins eldri en ég og urðu leikfélagar mínir í æsku. Mér fannst alltaf svolítið vandræðalegt þegar við frændur hittum ókunnugt fólk og vorum látnir kynna okkur, í aldursröð: Þórður Sturluson, Snorri Sturluson, Sturla Sighvatsson og loks kom Orri Páll Ormarsson. „Orri,“ spurði einu sinni öldruð kona og réri fram í gráðið, „var það þræll þeirra Dufgussona?“

Því gat ég ekki svarað.

Þórður og Sturla yngri eru barnlausir en Snorri á son og dóttur sem að sjálfsögðu heita Órækja og Hallbera. Nei, nú er ég að rugla í ykkur! Þau heita allt öðrum nöfnum, blessuð börnin.

Afi veiktist illa um miðjan áttunda áratuginn og varð að hætta búskap. Þá tóku Jón Torfi og Sturla við ásamt Sólveigu Jónasdóttur, eiginkonu Sturlu, þannig að Þórður og Snorri ólust að stórum hluta upp á Grund. Einnig systir þeirra Svandís sem þrátt fyrir nafn úr allt annarri átt sver sig sannarlega í ætt við Sturlunga. Mikil valkyrja. Síðar fæddust Guðríður og Yngveldur Myrra, tápmiklar hnátur.

Sturla og Sólveig eru nú bæði látin. Blessuð sé minning þeirra.

Leikarinn John Wayne – stundum kallaður Jón væni – einn frægasti kúreki hvíta tjaldsins og Snorri Sturluson, sem sennilega var gjarnan þungt hugsi við skriftir. Hundurinn á myndinni, hann Moli, bjó aldrei á Grund. Myndin af Wayne er af vefsíðu sem helguð er honum en sú af Snorra af vef Snorrastofu.

Ég bjó á Akureyri en kom að Grund svo til allar helgar og stundum á kvöldin líka, alla vega á sumrin, en pabbi taldi aldrei eftir sér að hjálpa til við bústörfin, þó hann væri sjálfur í fullu starfi við kennslu.

Leikvöllur okkar frændsystkinanna var drjúgur og við hlupum gjarnan um tún og engi og létumst vera einhver allt önnur en við í raun og veru vorum. Í tilviki okkar Snorra fór þar mest fyrir kúrekum og indíánum enda hafði sjónvarpið tekið við keflinu af húslestrunum og Roy Rogers, Jón væni og Clint Eastwood okkur tamari en Snorri, Sighvatur og Þórður. Hvað þá Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi. Við höfðum líka miklar mætur á þeim félögum Lone Ranger og Tonto. Vandaður maður, Tonto. Og nafnið ekki síðra.

Slík var aðdáun mín á þessum höfðingjum að ég ákvað um tíu ára aldurinn að gerast rithöfundur og skrifa epískar kúrekasögur. Þegar ég var í heimsókn hjá Sturlu frænda mínum Sighvatssyni í Seljahverfinu í Breiðholtinu sátum við jafnan daglangt flötum beinum í stofunni og skrifuðum kúrekasögur í stílabækur. Hrafnhildur Gísladóttir móðir hans bar í okkur bakkelsi og djús annað veifið. Eftirminnileg kona, Hrafnhildur, og með þeim hressari sem ég hef kynnst. Blessuð sé minning hennar og þeirra Sighvatar beggja.

Ég áttaði mig samt fljótt á því, mér til mæðu, að ekki væri markaður fyrir epískar kúrekasögur á Íslandi. Þannig að ég gerðist blaðamaður. En það er auðvitað næsti bær við Villta vestrið.

Um tíma kom raunar til álita að verða vörubílstjóri. Ábyrgð á því bar Lalli á Kroppi, sem kom stundum í heimsókn á Grund. Hann ók sumsé vörubíl og við frændurnir velktumst ekki í vafa að hann væri mesti töffarinn í okkar sveit. Og þótt í fleiri sveitum væri leitað. Eldhress náungi, Lalli. Einu sinni fengum við Snorri að vera með honum dagspart í vörubílnum og það var án nokkurs vafa hápunktur lífs míns – til þess tíma. Sláttur var á Lalla og við hlýddum agndofa á hann fara með gamanmál og fylgdumst með honum við störf sín.

Hundurinn á Grund hét Vígi. Hann var hress að upplagi, eins og flestir hundar, og slóst gjarnan í hópinn þegar við börnin vorum að leik. Einu sinn var Snorri frændi að draga mig á snjóþotu og fór greitt um skafla. Vígi, sem fylgdi fast á eftir, glefsaði í lærið á mér í látunum, þannig að úr varð lítið og sakleysislegt sár. Ég var á hinn bóginn nýbúinn að sjá þátt af Húsinu á sléttunni, þar sem sá forni fjandi hundaæði stakk sér niður og menn stráféllu, og bjóst fyrir vikið fastlega við því að maðurinn með ljáinn myndi sækja að mér næsta sólarhringinn.

Sem betur fer gerðist það ekki.

Frægasti hundurinn á Grund var uppi löngu fyrir mína daga. Snati hét hann, aldrei kallaður annað en Daddi, og var leikfélagi pabba og Sturlu á mótunarárum þeirra tvíburabræðranna. Daddi var séní af hundi að vera, jafnoki manns í meðalgreind og talaði reiprennandi dönsku við fjósamennina á bænum. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að Grundarbræður eiga til að ýkja mál sitt en ég hygg samt að þetta sé allt saman satt og rétt.

Oftast kom okkur frændunum ljómandi vel saman. Eins ljúfur og hann er þá var Sturla Sighvatsson dálítið stríðinn og það bitnaði oftar en ekki á litla frændanum. Eitt sinn þegar hann var í heimsókn á Grund fór Sturla að hrekkja mig með þeim afleiðingum að í mig fauk og ég hljóp af stað á eftir honum. Ætli ég hafi ekki verið svona átta eða níu ára. Sturla komst inn í bæ af harðfylgi á undan og skellti hurðinni á nefið á mér. Glennti sig svo og geiflaði fyrir innan.

Og hvernig brást ég við? Ég barði í rúðuna á hurðinni. Mér til mikillar undrunar og skelfingar þá brotnaði rúðan; ekki í þúsund mola en í hana kom myndarleg sprunga.

Hákarla-Jörundur, félagarnir Lone Ranger og Tonto og vörubíll – þó ekki sá sem Lalli á Kroppi ók.

Við Snorri skutum skelfingu lostnir á neyðarfundi á hlaðinu og vorum á einu máli um að amma myndi ábyggilega ekki taka þessu vel. Aðrir fullorðnir voru fjarverandi, í berjamó. Fyrir vikið væri ekki um annað að ræða en að flýja af hólmi. Við hlupum því sem fætur toguðu niður á stórt tún sem kallað var Spjaldhagi og dvöldumst þar í útlegð langt fram á kvöld. Nestislausir og allt. Við vorum þó með eitthvert drasl í vösunum sem við dunduðum okkur við að grafa í jörð. Töluðum upp frá því um fjársjóðinn okkar. Hans hefur ekki verið vitjað síðan. Kannski maður ætti að gera það núna? Ég man nokkurn veginn hvar staðurinn er.

Þegar við Snorri loksins skiluðum okkur heim um kvöldið var fólk farið að undrast um okkur. Ég bað ömmu auðmjúklega afsökunar og allt var grafið og gleymt um leið.

Og ég var aldrei rukkaður fyrir rúðuna.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00