Fara í efni
Pistlar

Tár Jesú, tárin þín

Mér eru afar minnistæð þau skipti í minni bernsku sem ég sá foreldra mína gráta, þau skipti hefðu eflaust mátt vera fleiri. Ég man eftir að fyllast í senn lotningu, feimni, forvitni og undrun við þá upplifun. Ég hef líka skynjað mín eigin börn nálgast mig með áþekkum hætti þegar ég hef grátið í návist þeirra, líkt og ég verði þeim örlítið framandi. Í uppeldi barna held ég að tvennt sé hvað mikilvægast að foreldrar geri, annars vegar að viðurkenna mistök sín gagnvart þeim og að leyfa börnunum að sjá sig gráta. Í rauninni held ég að þetta tvennt sem sjálfsagður hluti uppeldis hvers barns styrki hvað mest tilfinningagreind þess og hæfileikann til að eiga heilbrigð og ómeðvirk tengsl við annað fólk.

Í guðspjöllunum eru tilfinningalegum viðbrögðum fólks kannski ekkert mikið lýst með orðum, mig rekur ekki minni til þess að þar sé talað um að einhver hafi hlegið hjartanlega eða fyllst gremju, kvíða eða samviskubiti en þar er hins vegar talað um reiði í ýmsum myndum, bæði lífgefandi reiði sem birtist í Jesú og deyðandi reiði sem meðal annars kemur fram í viðbrögðum andstæðinga hans. Þekktasta dæmið um réttláta reiði Jesú er eflaust þegar hann gekk inn í helgidóminn og tók að reka út þá sem þar voru að selja hluti og sagði „hús mitt á að vera bænahús en þið hafið gert það að ræningjabæli.“ Án þess að gera þá sögu að miðpunkti þessarar hugleiðingar á páskadagsmorgni þá finnst mér mikilvægt að setja orð á það að þarna er Jesús að mínum skilningi ekki að tala um húsbygginguna, musterið og peningastreymið í gegnum það heldur meðferð á manneskjum þegar manneskjur eru gerðar að söluvarningi í ýmsum myndum og markaðurinn fær að ráða en ekki lífið í heilagleika sínum.

Það er vissulega talað um reiði í guðspjöllunum en þar er líka talað um hinn grátandi Jesú. Guðspjöllin víkja sér ekki undan því að tala um tárin hans Jesú, nei um þau er raunar fjallað mjög beint og hispurslaust. Þegar Jesús kom að gröf Lasarusar og sá sorg systranna Mörtu og Maríu, komst hann við og grét eða eins og segir beinum orðum í guðspjallinu. „Þá grét Jesús.“ Stutt setning en óendanlega mikilvæg, heil prédikun eða jafnvel önnur fjallræða í einfaldleika sínum.

Og svo stendur hún María Magdalena við gröfina hans Jesú, tóma gröfina í morgunskímunni á upprisumorgni og sólin tindrar í tárum hennar af því tár eru vatn og vatn er líf og sól speglast í lífinu. Þetta eru tár mótsagnakenndra tilfinninga, tár örvæntingar, tár ástar, tár vonar, tár þakklætis og undrunar. Tár örmögnunar, sorgar og berskjöldunar. Stundum grátum við af þreytu, oft grátum við af gleði, við grátum af reiði gagnvart óréttlætinu, stundum af líkamlegum sársauka stundum af andlegum sársauka, stundum af samkennd og samlíðan með öðrum sem gráta. Tár eru kannski eini líkamsvessinn sem okkur hryllir ekki við, annað gildir um hor, hægðir, blóð og svita. Líkamsvessar sem okkur langar helst ekki að snerta, jafnvel þótt þeir tilheyri okkar eigin líkama sem er merkilegt út af fyrir sig. Á liðnu ári hefur fátt hrætt okkur meira í samskiptum hvert við annað en einmitt allir þessir líkamsvessar sem reynst hafa farvegur farsóttarinnar þótt auðvitað eigi sóttin sér uppsprettu annarsstaðar. Hafi þeir einhvern tíma verið ógnvekjandi í lífi okkar, þá er það nú. Enginn vill heyra hnerra né hósta í dag. Andardráttur okkar varinn með grímum. Hendur sprittaðar í gríð og erg. Heimurinn allur í vörn gegn mannlegum líkamsvessum. Heimurinn allur í vörn. En tár streyma frjáls og óheft, tár eru upprisa. Upprisan í guðspjalli páskadags endurspeglast ekki bara í tómri gröf, heldur tárunum hennar Maríu Magdalenu. Tár eru líkn þó þau spretti fram af ýmsum ástæðum og tilfinningum, tár eru í raun alltaf góðar fréttir innan um alla þjáninguna, verst af öllu er að geta ekki eða aldrei grátið.

Jesús er upprisinn. Lífið er máttugra en dauðinn. Já lífið er máttugra en dauðinn, lífið lifir af allar ógnir af því að lífið er vonin sem við eigum í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum.

Í bæn eftir konu að nafni Barbara Cratzius segir: „Það er ekki tóma gröfin og steinninn sem var velt frá, ekki rómversku verðirnir sem skelfingu lostnir féllu til jarðar, það er ekki heldur engillinn og orð hans til harmþrunginna kvenna sem sanna upprisu Jesú. En það að þessar konur fyrstar allra lifðu umbreytinguna frá ósigri til huggunar og gleði að lærisveinarnir opnuðu læstar dyrnar sem þeir höfðu byrgt sig bak við og sögðu öðrum fréttina, létu hana berast frá manni til manns, að hún hefur borist yfir höf og fjöll og allt til okkar nú með umbyltandi afli sínu, það er kraftaverkið.“

Já það er nefnilega kraftaverkið gott fólk, að enn í dag berist þessi frétt frá manni til manns, að enn í dag séu haldnir páskar, að enn í dag, eftir öll þessi ár, meira en tvö þúsund ár skuli upprisa Jesú vera til umræðu og fólk um víða veröld meðtaka hana inn í líf sitt og lífsbaráttu hvern einasta dag. Um allan heim er fólk að rísa upp úr þjáningu og sorg vegna þess að það á trú á upprisin Jesú. Og það er kraftaverkið kæru vinir. Tárin hennar Maríu Magdalenu hafa runnið inn í mannhafið sem árfarvegur líknar og vonar í tvö þúsund ár. Tækni og vísindi halda áfram að þróast og bæta lífsgæði okkar en ekkert í þekkingu mannsins fær líknað eins og tárin, ekki neitt, þar er upprisan.

Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn. Menn og náttúra gráta og gjósa af gleði, von og lífskrafti.

Amen.

Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, flutti ræðuna við hátíðarmessu í kirkjunni í morgun, páskadagsmorgun. Messunni var streymt á Facebook.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00