Fara í efni
Pistlar

Sykur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 34

Það stappaði nærri endalokum alheimsins ef eitthvað vantaði af sykri. Þannig háttaði alltént til í höfði Sigmundar afa. Ekkert óttaðist hann meira en að vakna að morgni án þess að sætan gæti lífgað lund og liði.

Hann hafði á þessu vanalega lagið. Fyrst var kaffinu hellt úr heitri könnunni af virðulegri varfærni, ávallt réttsælis í hringi, rólega út við barminn á bollanum, svo það kólnaði hæfilega á niðurleiðinni og brenndi ekki varirnar á bóndanum.

En svo tók það við sem heldur meiri athygli vakti. Afi sykraði kaffið af slíkum krafti að jafnvel hálfstálpuðum strák hans fannst það full til mikið af því góða. Sjálfu sykurkarinu á eldhúsborðinu var hallað svo til endalaust yfir bollann. Og mátti spyrja undir restina hvort meira var af kaffi eða sykri í bollanum.

Afi vildi þó vera viss. Hann hélt á kaffibollanum í annarri hendi og nokkrum sykurmolum í hinni, en karlinn hafði af því nautn að dýfa þeim í kaffilöginn og sjúga vökvann þar í gegn, svo undir tók í eldhúskróknum.

Svo dísætt kaffið var drýgt með öðru eins af því góða.

En afi varð aldrei feitur – og þaðan af síður þungur á skrokkinn og skinnið. Hann var einfaldlega hluti af þeirri kynslóð Íslendinga sem fyrst af öllum kynntist ómældum aðgangi að þessari lífsins lystisemd sem sykurinn er.

Í einangrun sveitar sinnar – í Trékyllisvík á Ströndum norður – var alltaf langt að sækja sykur. Það kallaði að heiðaferðir og stundum margra daga leiðangra. Og þess þá heldur að hann byrjaði að slokra í sig sætindunum þegar þau voru jafn auðsótt og þegar hann hafði flutt í höfuðstaðinn við Eyjafjörð.

En ég góndi samt alltaf á hann. Gúffa í sig öllum þessum eftirsótta sykri.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: DRAGSÚGUR

Hrossafóður í morgunmat

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. apríl 2025 | kl. 06:00

Þjálfarinn tæklaður upp í stalla

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. apríl 2025 | kl. 10:00

Snípur í skógi

Sigurður Arnarson skrifar
16. apríl 2025 | kl. 08:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66a; Smiðjan

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. apríl 2025 | kl. 20:00

Njóli

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. apríl 2025 | kl. 11:00

Uss í görðum

Jóhann Árelíuz skrifar
13. apríl 2025 | kl. 06:00