Fara í efni
Pistlar

Svitnaði í sturtu

ORRABLÓT - II

Á unglingsárunum var íþróttahús Glerárskóla mitt annað heimili. Maður var í leikfimi á morgnana og sótti svo æfingar seinni partinn eða á kvöldin. Þá voru höfuðstöðvar Þórs auðvitað í húsinu áður en Hamar var reistur. Ég græt það enn að sú ágæta höll hafi ekki hlotið nafnið Bilskirnir eins og heimili Ása-Þórs í goðafræðinni. En það er allt önnur saga.

Í íþróttahúsi Glerárskóla réðu húsum til skiptis á þessum árum Sammi og Sída, dásamlegt fólk, bæði tvö og eftirminnileg. Sída með hjartað fullt af móðurlegri hlýju og í minningunni alltaf með bros á vör. Sammi var líka hress en strangari og hafði minni þolinmæði gagnvart drolli. Við strákarnir vorum ekkert alltaf að flýta okkur í sturtu eftir æfingar, auk þess sem til siðs var að hanga og spjalla frammi í anddyri eins lengi og við komumst upp með.

Eitt síðkvöldið var Siguróli Kristjánsson, Moli, að fara með gamanmál eftir æfingu, leikmaður meistaraflokks Þórs sem við litum mikið upp til. Að honum hafði dregist hópur enda Moli með okkar allra skemmtilegustu mönnum. Sammi vildi á hinn bóginn fara að loka sjoppunni og rak Mola með harðri hendi í steypibað. Moli lét ekki segja sér það tvisvar en sneri að vörmu spori aftur, rennblautur.

„Hvað ertu búinn?“ drundi í Samma.

„Já,“ svaraði Moli með hraði. „Ég var svo snöggur í sturtu að ég svitnaði við það!“

Samma varð orðfall.

Eini baðvörðurinn sem ég þekki og stendur Samma á sporði er Georgíumaðurinn Alex, sem lengi starfaði hjá Fram í Safamýrinni. Hann rak einu sinni handboltalandsliðið, strákana okkar, blaða- og fréttamenn og stjórn HSÍ út úr salnum á fimm sekúndum sléttum – til að rýma til fyrir bumbufótbolta. Sennilega hlægilegasta uppákoma sem ég hef orðið vitni að um dagana. „Strákúr, stúrtú, núna!!!“

Annar eftirminnilegur háðfugl úr íþróttahúsi Glerárskóla var Eyjólfur rakari. Moli var á landsmælikvarða í knattspyrnu en Eyvi ekki alveg eins sleipur enda minnir mig að hann hafi aðallega verið fenginn til að æfa með meistaraflokki Þórs eitt sumarið til að freista þess að rífa upp móralinn, sem hafði verið eitthvað slappur og stigasöfnunin eftir því. Stigin tóku fljótt að streyma aftur í hús. Væri ekki ráð að mynstra Eyjólf á æfingar nú?

Joe Corrighan markvörður Manchester City og Þórsarinn Samúel Jóhannsson þegar þeir háðu vítakeppnina eftirminnilegu sumarið 1981.

En aftur að Samma. Hann bjó í Borgarhlíðinni og reisti eitt sumarið mark úr timbri fyrir okkur strákana á túninu milli Borgarhlíðar og Smárahlíðar, þar sem ég bjó. Þar er nú hluti af æfingasvæði Þórs. Hét sá ágæti leikvangur Þúfnavellir enda synd að segja að þar hafi verið sléttlendi. Sammi var völundur hinn mesti og markið hefði ábyggilega staðið af sér bæði jarðskjálfta og eldgos. Við strákarnir reyndum af veikum mætti að koma upp öðru marki, beint á móti, en það hrundi til grunna um leið og fyrsti mávurinn dritaði á það. Það var skellur.

Frægastur er Sammi þó fyrir að hafa banað Joe nokkrum Corrigan og gekk eftir það aldrei undir öðru nafni en Sam the Corrigan Killer. Fyrir þá sem ekki muna þá var hér ekki um eiginlegt víg að ræða, heldur gjörsigraði Sammi, sem í þá tíð var markvörður Þórs, enska landsliðsmarkvörðinn í vítakeppni í leikhléi í æfingaleik gegn Manchester City á Akureyrarvellinum sumarið 1981. Sammi skoraði úr báðum sínum spyrnum en Corrigan úr hvorugri; annað skotið geigaði en Sammi varði hitt.

Var þessu afreki vel fagnað, svo undir tók í Vaðlaheiðinni, og Tíminn velti fyrir sér hvort City ætti ekki hreinlega að festa kaup á Samma. „Eftir leikinn var City haldið veglegt boð og þar var Samúel mættur og sást hann tilsýndar á spjalli við forráðamenn City en heimildir hermdu ekki hvort það spjall hafi verið alvarlegs eðlis,“ sagði í kersknislegri frétt blaðsins.

Ekki fylgdi sögunni hvort Sammi þurfti að reka Corrigan í sturtu eftir leik.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Treyja sem lengi hékk uppi hjá Samúel Jóhannssyni í íþróttahúsi Glerárskóla.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00