Fara í efni
Pistlar

Sunnudagsstofa

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 30

Í litlu þakíbúðinni í Gilsbakkavegi var ekki til siðs að ganga inn í meginverelsið á virkum dögum. En þar var komin stásstofan. Og Guðrún amma vildi ekki fyrir nokkurn mun vera minni manneskja í bæjarlífinu en svo að hún gæti boðið upp á stadsestue í sínum húsum. Og gilti einu þótt vistarveran væri bara lágreist ris, sem reis þó einna hæst í austurkvistinum sem vissi út á Poll, breiðasta parti hæðarinnar – og einmitt inni í honum var hin heilaga sunnudagsstofa.

Sex daga vikunnar var hún lokuð. Raunar harðlæst. En það þyrlaðist bara svo mikið ryk um salarkynnin þau arna, ef opið var upp á gátt, að hvítur löberinn á skenknum missti gljáa sinn og glans. Svo amma geymdi lykilinn á sínum stað. Og hvunndags væri nóg fyrir heimilisfólkið að sitja í kringum litla eldhúsborðið við norðurgaflinn og tala saman í návígi hvert við annað. Það héldi þá á sér hita.

En svo kom að sjálfri stóru stundinni, snemma á sunnudagsmorgnum, og amma var búin að klæða sig í messufötin, að den eneste nogle var dreginn upp úr pússi hennar og stofuhurðin var aflæst. Og það var varla að maður, lítill guttinn á þeim árum, þyrði að ríða á vaðið, og ljúka henni upp, svo dyrin stæði loksins upp á gátt. En það sem víðfeðmt kamesið blasti við manni, svo til óvænt, með besta útsýni íbúðarinnar yfir bæði bæinn og botninn af firðinum. Svo maður starði þar löngum stundum á milli póstanna, góndi á bílana venja sig við hægri umferð, og öllsömul skipin láta sér það í léttu rúmi liggja við Torfunefið.

En öll þessi langa bið, eftir að sunnudagsstofunni í Gilsbakkavegi var lokið upp á helgum dögum, var alltaf þess virði. Því eftir messu var boðið í hægeldað læri með grænum baunum, kartöflum og sultu. Og það góða smjörsósu með því öllu saman gerði amma, að hún mátti allt eins loka stofunni fram að næstu helgi, svo fremi að hún biði bara upp á sama kostinn aftur.

Og aftur.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: FRYSTIGEYMSLAN

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00