Skemman
AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 45
Á haustin tóku labbitúrarnir að lengjast. Ekki svo að skilja að þeir hafi verið eitthvað í styttri kantinum yfir sumartíðina undir Íslands hæstu sól, en frá því að skólinn byrjaði eftir síðasta slátt, urðu þeir skipulagðari. Má heita svo að leiðöngrum og spásseringu hafi þá verið skipt út fyrir einbeittari gönguferðir.
En það var alltaf gengið. Sögnin „að skutla“ hafði ekki unnið sér þegnrétt í eyfirsku tungumáli upp úr miðri síðustu öld, og raunar voru akureyskir bifreiðaeigendur svo nískir á blikkdósirnar að þeir hreyfðu þær helst aldrei út úr bílastæðunum á heimalóðinni svo mánuðum skipti. Þeir gætu nú gengið þetta. Og rétt aðeins örstuttur spölur í vinnuna, hugsuðu þeir með sér, vel flestir, en vildu heldur ekki verða vændir um leti og helbera hyskni fyrir þá ómennsku að sitja undir stýri á stökum dögum. Þess utan var alltaf ófærð á vetrum, allt frá september og fram yfir mars, að minnsta kosti, og aldrei sjálfgefið að það væri rutt í þröngum íbúðagötum, en þar af leiðandi þótti það ekkert minna en fífldirfska að hreyfa einkabílinn á þeim ógnarlanga árstíma þegar skaflarnir áttu það til að staflast upp undir krónurnar á ljósastaurum bæjarins.
Svo það var alltaf gengið. Og sporleti var aldrei í boði. Ekki fyrir botni Eyjafjarðar þar sem skólakrakkar á hvaða aldri sem var, fóru allra sinna ferða á tveimur jafnfljótum, hvernig svo sem viðraðri, jafnt í kafaldsbyl og kyrru frosti.
Lengst var að fara í Skemmuna, sjálft áhaldahús bæjarins sem breyst hafði á einni nóttu í íþróttahús án þess að nokkur vissi ástæðuna. Og þangað var drjúglangur spölur. Í öllu falli fyrir okkur asnaprikin á Efri-Brekkunni, að ekki sé talað um þau okkar sem bjuggu syðst á þeirri hásléttunni, en æfingatími í Skemmunni merkti ekkert minna en vetrarleiðangur í vályndustu veðrunum.
Og þá vorum við Pólfarar. Það mátti ekkert minna vera í huga manns.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: HÁDEGISFRÉTTIR