Fara í efni
Pistlar

Ruslakallinn er með vasadiskó!

ORRABLÓT - XVIII

„Ertu tilbúinn að fara í sorp?“ spurði Marri Gísla og horfði rannsakandi augum á mig.

Já, auðvitað, svaraði ég enda kominn á hans fund til að sækja um sumarvinnu og mat það svo að ég væri ekki í neinni aðstöðu til að segja nei við aðalverkstjóra Akureyrarbæjar í þessari fyrstu heimsókn minni í bæjarskemmuna. Þess utan æfði ég fótbolta og taldi mig vera í býsna góðu formi til að takast á við vinnu af svo líkamlegum toga.

„Fínt. Þá er það klárt,“ sagði Marri, „þú mætir á mánudaginn.“

„Ertu tilbúinn að fara í sorp?“ spurði Marri Gísla og horfði rannsakandi augum á mig.

Það gerði ég stundvíslega kl. 7.30 og var settur upp í öskubílinn hjá Guðjóni bílstjóra ásamt tveimur öðrum, Elíasi og Halldóri, sem voru fastamenn. Ferðinni var fyrst heitið upp á Brekku. Þar vorum við settir út með vagna og haug af svörtum ruslapokum en á þessum tíma voru engar plasttunnur sem tæmdar voru beint, heldur allt sorp bæjarbúa í þar til gerðum pokum. Rífa þurfti þá upp úr tunnunum, setja á vagninn, skipta síðan um poka og bruna loks að bílnum til að losa.

Bruna, segi ég og skrifa. Elías og Halldór ruku nefnilega af stað eins og antilópur og voru á harðakani allan daginn. Ég vissi varla hvaðan á mig stóð veðrið og þegar verkinu lauk um kl. 16 leið mér eins og að ég hefði farið gegnum bæði þvottavél og þurrkara, eins undarlega og það hljómar í þessu samhengi.

Þar sem við sátum í bílnum á leið niður í skemmu hafði ég lafmóður orð á því að klukkan væri ekki nema fjögur, það hlyti að vera helvíti gott.

„Gott?“ sagði Elías og leit undrandi á mig. „Venjulega erum við búnir klukkan þrjú á mánudögum. Þú tafðir okkur um klukkutíma.“

Síðan brosti Elías, sem var fínn gaur, í kampinn og bætti við: „Við vorum svo sem undir það búnir, það tekur nýliða tíma að ná tökum á þessu.“

Jæja, smá huggun í því.

Minjasafnið á Akureyri/Myndasafn Dags

Annars var vinnutíminn í öskunni mjög þægilegur. Mánudagar og miðvikudagar voru lengstir, á fimmtudögum kláruðum við laust fyrir hádegi og á föstudögum vorum við lausir eftir um klukkutíma, þegar við vorum búnir að hirða sorpið á Fjórðungssjúkrahúsinu.

Þrátt fyrir þetta skreið ég upp í rúm strax eftir vinnu á föstudeginum og lá þar hreyfingalaus allan daginn. Ég var með verki um allan líkamann, þar með talið í allskonar vöðvum sem ég hafði ekki hugmynd um að ég væri með.

Þvílík keyrsla, þvílíkt strit!

Ég náði vopnum mínum yfir helgina, nokkurn veginn, og var mættur aftur við fyrsta hanagal mánudaginn eftir. Önnur vikan var strax léttari og í þeirri þriðju var skrokkurinn búinn að laga sig ágætlega að þessu tempói og látum.

Ég hef aldrei í lífnu verið í betra formi en þetta sumar, 1989.

Ég var með vasadiskó á mér í vinnunni til að stytta mér stundir. Það fór til að byrja með í taugarnar á Guðjóni bílstjóra enda þýddi þetta að ég heyrði ekki í honum þegar hann þurfti að kalla og gefa mér fyrirmæli. „Taktu þetta drasl af þér, drengur?“ gall í honum.

Ég svaraði því til að ég ynni og hlypi þrisvar sinnum hraðar, hið minnsta, með Metallica, Slayer eða Sepultura í eyrunum. Hans væri valið.

„Jæja, þá það,“ stundi Guðjón, „en fylgstu samt annað slagið með mér.“

Græjurnar vöktu víðar athygli. Einn daginn mætti ég móður á göngu með ungan son sinn á Eyrinni. Sá síðarnefndi hrópaði upp yfir sig: „Mamma, mamma, sjáðu! Ruslakallinn er með vasadiskó!“

Þá leið mér eitt augnablik eins og geimveru. Rödd drengsins hljómaði þannig.

Guðjón hugsaði um öskubílinn eins og barnið sitt, alla vega eins og hundinn sinn, og þreif hann hátt og lágt að hverri einustu vakt lokinni. Það var ekki lítið verk. Ekki veitti víst af, ég finn enn óþefinn úr skutnum þegar ég hugsa um það. Hann var svakalegur. Eins og gefur að skilja.

Ekki gaus betri lykt upp úr pokunum enda var yfirleitt sól og steikjandi hiti meðan við vorum að. Nema hvað? Við erum að tala um Akureyri! Það þýddi að allskyns maðkar, margfætlur og önnur óværa af ýmsu tagi náði sér heldur en ekki á strik og maður þurfti reglulega að hrista sig duglega eftir að hafa meðhöndlað pokana.

Þið sjáið þetta fyrir ykkur!

Halldór var djókarinn í hópnum, skemmtilegur náungi. Ég man að hann reif sig alltaf úr að ofan þá sjaldan það byrjaði að rigna.

Hvers vegna ertu að þessu? spurði ég.

„Jú, sjáðu til,“ svaraði Halldór. „Þegar hættir að rigna þá get ég farið í þurra skyrtuna, í stað þess að vera í henni rennblautri út daginn.“

Það meikaði sens.

Bílauki heyrði til teyminu, hvítur pikköpp sem Sahara-Jói keyrði og hafði með sér annan mann. Þar var heldur ekki gaufað við verkið. Þeir tóku einhverjar hliðargötur og birtust svo nokkrum sinnum á dag til að losa pikköppinn yfir í öskubílinn. Sahara-Jói var dularfullur og hlédrægur maður, að því er virtist, og ég man aldrei eftir því að hann hefði tekið til máls allt sumarið.

En kannski var það bara vegna þess að ég var með vasadiskó.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00