Fara í efni
Pistlar

Páskapredikun

Páskapredikun séra Hildar Eirar Bolladóttur við messu í Akureyrarkirkju í morgun.

Á undanförnum tveimur árum hefur það verið heilbrigðiskerfið og raunar krabbameinslæknirinn minn sem hafa kennt mér hvað mest um trú mína og jafnvel guðfræði.

Þegar maður greinist með krabbamein langar mann auðvitað mikið til að fá staðfestingu á því að allt fari nú vel. Mann langar til þess að læknirinn geti sagt þegar krabbameinið er horfið að það komi ekki aftur, en hann getur það ekki. Læknirinn getur bara sagt þér að þú sért með krabbamein, hvað þurfi að gera og hverjar aukaverkanir meðferðanna hugsanlega verði. Ég hef í eðli mínu eða sökum uppeldis eða fortíðar mikla þörf fyrir að hafa stjórn á sem flestu. Það heitir með öðrum orðum að vera kvíðinn. Það merkir ekki að ég sé hræddari en aðrir að deyja eða takast á við áföll af því að ég er það ekki, í fullri alvöru, heldur hef ég einfaldlega mikla þörf fyrir að láta ekki lífið koma mér of mikið á óvart. Ég er ekki gefin fyrir mikla óvissu og hef til dæmist alltaf haft ímugust á svokölluðum óvissuferðum, gjörsamlega þoli þær ekki.

Þegar ég lít til baka og hugsa um samtöl okkar krabbameinslæknisins míns þá myndi ég gjarnan vilja eiga þau á spólu. Fyrst og fremst vegna þess að þau eru í grunninn „free comedian“ eins og tvítugur sonur minn myndi orða það eða á ylhýra málinu „gjaldfrjáls gleðistund.“

„Hvað segirðu læknir, er ekki líklegt að næsta myndataka komi vel út fyrst að síðasta gerði það?“

„Ég veit það ekki Hildur, það er ómögulegt að segja, við verðum bara að bíða og sjá hvað myndatakan segir.“

„Er þetta nokkuð mjög aggresív tegund af krabbameini læknir svona miðað við margt?“

„Ja svo aggressív að það dreifði sér Hildur, þannig að við höldum áfram að fylgjast mjög vel með þér.“

Svo spurði ég skurðlækninn hvenær maður mætti búast við að vera kominn yfir það að þetta taki sig upp, jú reynslan hefur sýnt að líkurnar minnka eftir tvö ár en í raun er maður aldrei hólpinn.

Sumsé heilbrigðiskerfið hefur kennt mér á umliðnum árum að maður er aldrei hólpinn og það eina sem maður hefur raunverulega stjórn á og getur gert er að temja sér lífsleikni og lífsgleði þrátt fyrir alla þessa óvissu.

Það er mjög merkilegt, ógnvekjandi en um leið magnað að reyna það á eigin skinni að vera í alvörunni dauðlegur. Staðreyndin er nefnilega sú að þó að við vitum af dauðanum og fylgjum öðru fólki til grafar þá trúum við því í raun ekki í fullri alvöru að við munum sjálf deyja, ekki fyrr en lífi okkar er ógnað. Fram að því vitum við það huglægt að við munum deyja en tengjum ekki að fullu við vitneskjuna með taugakerfi okkar og líðan. Það er mjög magnað fyrir forvitna manneskja eins og mig að upplifa þetta á eigin skinni, þó það sé líka drullu erfitt.

Þegar maður hefur upplifað svona hreinskilið viðmót eins og í heilbrigðiskerfinu þar sem engu er bætt við og heldur ekki dregið úr en allt skoðað skref fyrir skref og þér haldið ábyrgum fyrir sjálfum þér og líðan þinni andlega og líkamlega, þá hefur það mjög mótandi áhrif á það hvernig þú metur aðra þætti lífsins. Mér finnst þessi reynsla hafa mótað mjög upplifun mína af samfélaginu sem ég tilheyri. Mér finnst þessi lífsreynsla hafa mótað guðfræði mína meira en mig hefði órað fyrir. Eitt af því er að sjá hvað við tölum lítið um dauðann og hvað hann er í raun miklu meira tabú í dag en í gamla íslenska bændasamfélaginu þar sem hann var í aðdraganda og eftirmálum inn á heimilum fólks og allar kynslóðir upplifðu í sameiningu. Í dag vottum við samúð á facebook og erum á þann máta í aðstöðu til að sýna fleirum samkennd en við tölum samt ekki mikið um dauðann eins og þau sameiginlegu örlög okkar sem hann jú er. Dauðaótti er að ég held miklu meiri og sterkari í dag í skjólinu af allri þessari framþróun læknavísindanna, en hann var fyrir hundrað árum þegar fólk dó úr lungnabólgu af því að það var ekkert hægt að gera.

Á sama tíma og dauðaóttinn grasserar meðal okkar er þörfin fyrir að upplifa okkur hrein og jafnvel hreinni en aðrir mun sterkari en nokkru sinni fyrr. Þetta helst raunar í hendur, dauðaótti og þörfin fyrir að vera hreinni en aðrir. Þegar við höfnum dauðanum höfnum við um leið vitundinni um synd og vanmátt svo niðurstaðan verður einsemd á einsemd ofan. Einsemdin er raunar hinn eiginlegi dauði 21. aldarinnar, hin stóra þjáning okkar tíma.

Það má helst ekki lengur tala um syndina í kirkjunni. Nútímamanninum finnst það tímaskekkja, vill ekki vera minntur á syndina þegar hann mætir loks til kirkju og þaðan af síður að þurfa að játa hana með sameiginlegum játningum safnaðarins. Þegar ég var að hefja minn prestsskap fyrir sextán árum man ég að fólk hafði orð á þessu við mig, fannst syndajátningin á undan altarisgöngunni algjör tímaskekkja. Til þess fallin að ýta undir skömm og sektarkennd. Ég viðurkenni að hafa látið undan þeirri orðræðu, með tímanum hætti ég að leiða söfnuðinn í syndajátningunni. Hún hljóðar svona en er síðan fylgt eftir með altarissakramentinu til að undirstrika að Guð elskar okkur og hefur trú á okkur þrátt fyrir allt, „Ég játa fyrir þér, almáttugi Guð, skapari minn og lausnari, að ég hef margvíslega syndgað í hugsunum orðum og gjörðum. Fyrirgef mér sakir miskunnar þinnar og leið mig til eilífs lífs, til dýrðar nafni þínu.“

... Uh já, auðvitað höfum við öll margvíslega syndgað í hugsunum orðum og gjörðum. Ekkert okkar er undanþegið, ekkert okkar hólpið, við erum syndug og okkur skortir Guðs dýrð. En við eigum öll von. Þess vegna erum við jú mætt hér í kirkjuna eldsnemma á páskadagsmorgni, af því að við trúum á miskunnsemi og von en ekki á synd og dauða.

Þegar maður upplifir að geta dáið og þeir sem mæta þér í því eru heiðarlegir og skýrir í svörum þá heldur það þér ábyrgum, valdeflir þig og dregur úr kvíða. Að sama skapi má segja að ef við horfumst öll í augu við eigin synd þá heldur það okkur ábyrgum og dregur úr kvíða. Ef við sameinumst hins vegar í því að láta sem svo að sumir séu syndugir og aðrir séu hreinir þá höldum við ekki hvert öðru ábyrgu en aukum á þjáningu og kvíða. Og þetta er það sem er að gerast í opinberri umræðu og sérstaklega á samfélagsmiðlum á hverjum einasta degi. Það eru við og þið, hin hreinu og hin syndugu. Og þegar við lendum svo í því að kannast jafnvel við okkur sjálf í gjörðum hinna syndugu, í ljótum orðum, gjörðum og fordómum þá gefum við í, setjum í fimmta dómsgírinn, til að tilheyra hópi hinna hreinu, dæmum af fullum krafti og verðum óttaslegnari um leið, vegna þess að það er svo mikið álag að tilheyra hópi hinna hreinu ... af því að hann er blekking. Við erum öll syndug og breysk og það er aðeins þegar við könnumst við okkar eigin synd sem við getum í raun rætt það sem misferst í mannlegum samskiptum þannig að það leiði af sér upprisu. Af hverju segi ég það? Jú vegna þess að það er aðeins með miskunnsemi sem við getum fengið fólk til að gangast við brotum sínum og feta veg iðrunar og breyttrar hegðunar. Miskunnsemi er ekki meðvirkni heldur aðferð sem segir við gerandann, „sjáðu að þér vegna þess að það borgar sig margfalt, fetaðu af sjálfsdáðum veg niðurlægingarinnar vegna þess að það er eina leiðin til að rísa upp sem frjáls maður, ekki láta binda þig og aka með þig upp á Golgatahæð, snaraðu sjálfur krossinum á bak þér og gakktu og við fylgjum þér og svo koma páskar.“

Það er páskadagsmorgunn. Þú ert hér og Jesús er upprisinn. Dauði og synd er ekki lokaniðurstaðan í þessu lífi heldur miskunnsemi og von, jafnt og kærleikur.

Á ég að segja þér hvaða atburður hefur dregið hvað mest úr angist minni síðustu tvö árin sem ég hef verið að glíma við krabbamein? Sá atburður var bara núna um daginn. Ég fór með fjórtán ára syni mínum í kirkjugarðinn hér á Naustahöfða til að vitja leiðis. Þar sem við gengum um garðinn og veltum fyrir okkur hinu og þessu segir drengurinn allt í einu við mig „mamma þegar þú deyrð, hvar viltu láta grafa þig? Hvernig stein viltu hafa á leiðinu? Eru einhver sérstök blóm sem þú vilt að séu sett?“ Ég tek fram að ég er ekkert á leiðinni að deyja strax, að ég best veit, en ég svaraði auðvitað drengnum samviskusamlega og þá sagði hann, „mamma ekki hafa áhyggjur ég mun sjá um þetta.“

Já, Kristur er upprisinn. Amen

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00