Fara í efni
Pistlar

Mismunandi mögnuð markmið

„Magnaðir mánudagar“

1. pistill 

Hvernig gengur þér að láta áramótaheitin rætast?

Sitt sýnist hverjum um áramótaheit, markmið og fögur fyrirheit sem heyrast þegar flugeldagleðin hljóðnar og reynsla okkar og trú á árangri þessa er líklega mismunandi. Margir segja, og glotta við tönn, eða með vonleysis svip – „ég næ sjaldnast að standa við áramótaheit mín“. Reynsla margra hefur kennt þeim að þetta dugar skammt til árangurs og þegar líða fer á febrúar hafa sumir jafnvel gleymt því að hafa yfirhöfuð sett sér markmið. Veljum jafnvel þannig að trúa að við séum einfaldlega ekki góð í markmiðum og að þau sko bara henti ekki fólki eins og okkur. Til að bæta svo gráu ofan á svart þá hefur jú verið í gangi heimsfaraldur, óviðráðanlegar utanaðkomandi aðstæður sem klárlega hafa truflað ásetning margra. Ég veit og skil en trúi því líka að við öll, já öll - getum náð árangri með þau markmið sem við setjum okkur.

Hvað eru markmið fyrir þér?

Ég skal trúa ykkur fyrir því að oftast var ég þeim megin á skalanum að bara að heyra minnst á áramótaheit og markmið framkallaði pirring og óþól. En þrátt fyrir þrjósku og ákveðni um ómöguleika markmiða þá hef ég blessunarlega skipt um skoðun og þannig látið hluti gerast sem hefði ekki órað fyrir, eins og að hjóla 450 ferðir upp Skautahallarbrekkuna. Svo mikill er viðsnúningurinn að í dag starfa ég við þetta, markmið, ásetning, framtíðarsýn og fögur fyrirheit, að styðja við fólk og vinnustaði til að láta hluti gerast, eflast, þróast og takast á við áskoranir. Í mínum huga er markmið einfaldlega það að vilja að eitthvað verði hvort sem það er áþreifanlegt, eða óáþreifanleg tilfinning. Það sem er síðan svo magnað og merkilegt er að þegar við vitum hvað við viljum og erum með skýrt og rétt markmið þar að lútandi þá eflist úthald, þrautseigja, lausnaleit, ákvarðanataka og sjálfstraust. Hversu frábært er það!

Hver er þá töfraformúlan?

Ég trúi því að hver og einn geti skapað sína eigin töfraformúlu, að það virkar ekki það sama fyrir alla. Svo er formúlan líka breytilegt eftir aðstæðum og eðli markmiðsins. Þó að ég haldi alls kyns námskeið og sé menntuð í þessum fræðum þá væri ég nú líklega komin með allnokkra sektarpunkta ef til væri „markmiðasetningarlögga“ þar sem ég legg meiri áherslu á að hver og einn finni sína leið frekar en að fara eftir formúlum eða módelum. Það sem mér finnst skipta mestu máli að skoða með mínum viðskiptavinum er helst þetta:

  • Að markmiðið endurspegli þig, það sem skiptir þig máli og sé í takt við þín kjarnagildi.
  • Að vanmeta ekki vinnuna við að melta, finna og velja markmiðið.
  • Að vegferðin sé brotin niður í mörg lítil skilgreind skref, sem verða að stærri milliáföngum.
  • Að fagna öllum skrefum og milliáföngum, líka óvæntu og ófyrirséðu skrefunum.
  • Að endurskoða planið og markmiðið reglulega, vera tilbúin að aðlaga og breyta, já og jafnvel hætta við eða umbylta markmiðinu
  • Að markmiðið sé „mátulega“ raunhæft. Stundum hentar að hafa það viðráðanlegt með öllu, en stundum hentar betur að hafa það nánast fjarstæðukennt. Svo lengi sem það þjónar þér og þú finnur þína hvatningu og eldmóð.

Markmiðið 2023 – æfingar að hefjast

Hvernig væri að nota næstu 12 mánuði í æfingar fyrir áramótamarkmiðið 2023? Við megum gera allar þær tilraunir sem við viljum, mistakast, endurskoða, fagna, pirrast og allt þar á millli. Tilfinningin þegar við náum árangri og náum þangað sem við stefndum er klárlega góð. En það liggur oft falin fjársjóður í því að meðtaka lærdóminn sem við fáum meðan á vegferðinni stendur, hvort sem við náðum í mark eða ekki.

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00