Fara í efni
Pistlar

Hvenær má maður bara fljóta með straumnum?

„Magnaðir mánudagar“

2. pistill

Bæði betra

Ég hef tekið sjálfan mig á orðinu frá síðasta pistli og er í stífum æfingum við markmiðasetningu og pælingum um hvert skuli stefna, tja kannski ekki mjög stífum æfingum en reyni hvað ég get til að gera það sem ég ráðlegg öðrum. Eitt af því sem er fylgifiskur þessa er vangaveltan um hversu mikið þarf að ákveða, setja markmið um eða sjá fyrir sér – má ekki líka bara leyfa hlutunum að gerast og njóta þess sem alheimurinn býður, lifa í núinu og fljóta með straumnum. Þarna eins og með svo margt er svarið líklega „bæði er betra“, en hvaða svar er það og hvernig á það að hjálpa, á hvaða sviðum á ég að setja stefnu og hvar á ég að fljóta með straumnum? Þar sem ég vinn nú við það að spyrja fólk spurninga þá hef ég líklega gott af því að þurfa stundum að svara þeim líka sjálf, þó ég standi nú oft á gati – en það má.

Bara dauðir fiskar fljóta með straumnum

Sagt er að það séu bara dauðu fiskarnir sem fljóta með straumnum, hinir eru með skýra stefnu og synda þangað sem þeir þurfa hverju sinni til að afla fæðu, hrygna og fleira sem fiskar gera en ég þekki ekki til – og þangað fara þeir þó þeir þurfi oft að synda á móti straumnum. Þannig að jú ef við viljum fylgja fordæmi fiskanna ættum við að setja einhverja lína um hvað við viljum og hvert ferðinni er heitið, eða að minnsta kosti hvað við viljum fá út úr ferðalaginu. Manneskjan tekur um 35.000 ákvarðanir á degi hverjum, meðvitað og ómeðvitað og klárlega eru þær mis merkingarbærar. Þessar ákvarðanir sem skipta okkur alvöru máli, út frá hvaða línu tökum við þær og úr hverju er línan gerð, hvernig er ákvarðantökuferlið okkar og hver eru okkar viðmið?

Línudans lífsins

Ég veit ekki með ykkur en ég nota mikið alls konar samlíkingar, í þessum pælinum sé ég fyrir mér línudans, já svona eins og í sirkus. Dansarinn á línunni er að vega og meta næstu hreyfingu, hvernig og hvert á að fara, stefna eða gera. Stundum er erfitt að halda jafnvægi í þessum línudansi lífsins, og línan er misbreið og örugg eftir atvikum, stundum er öryggisnet fyrir neðan og stundum ekki. Hvernig er þín samlíking, hvað sérð þú fyrir þér á þessu augnabliki - hvaða dans ert þú að dansa, við hvern eða hverja, hvaða lag, í hvaða takti já eða ertu yfirhöfuð í takti? Vá hvað væri gaman að fá að heyra allar þær lýsingar og hugrenningartengsl sem poppa upp í huga ykkar.

Úr hverju er þín lína gerð?

Í handbolta er refsað fyrir að stíga á línu en ekki í þessum pistli, í þessum pistli langar mig að við hugsum um línuna okkar, finnum hana, sjáum hana fyrir okkur og notum hana til að halda tengingu og jafnvægi, standa á henni og finnum að hún gefi okkur fast land undir fótum – sama hver dansinn er sem okkur er boðið upp í. Sama hvaða ákvörðun við stöndum frammi fyrir. Því nokkuð ljóst er að lífið heldur áfram að bjóða okkur upp á alls konar flækjur, spuna, hlykkjur, hnúta og flókin mynstur og okkur veitir sko ekkert af því að hafa línuna sterka og breiða undir okkur.

Þannig að kannski er eitt svarið við spurningunni um hvenær maður má bara láta sig fljóta; það má þegar við vitum að við getum treyst línunni, að hvert sem við fljótum þá heldur línan okkur, það sem við stöndum fyrir og trúum á. Hvert og hvernig er efnið í þinni línu, úr hverju er hún gerð?

Sigríður Ólafsdóttir er mannauðsráðgjafi og PCC markþjálfi hjá Mögnum

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00