Fara í efni
Pistlar

Maðurinn sem aldrei svaf

ORRABLÓT - XVI

„Strákar, komið hérna snöggvast! Ég ætla að sýna ykkur hvernig á að gera þetta!“ sagði hann ákveðinn og stikaði af stað, stórum skrefum, með skóflu í annarri og haka í hinni. Við komum í humátt á eftir.

Um tíu mínútum síðar botnaði hann mál sitt: „Nei, andskotinn, ég er búinn að þessu. Jæja, þið gerið þetta þá bara næst.“

Baldvin Ólafsson var eftirminnilegur maður. Hvaða Baldvin? hugsið þið ábyggilega með ykkur. En ef ég segi Beggi Skans? Já, var það ekki? Þið munið vel eftir honum enda var Beggi ógleymanlegur, öllum þeim sem honum kynntust.

Baldvin Ólafsson – Beggi Skans – vallarstjóri á Þórsvellinum um miðja áttuna, níunda áratuginn.

Beggi var grjótharður Þórsari og vallarvörður hjá klúbbnum í áttunni. Hamhleypa til verka og alltaf á staðnum, að manni virtist. Dag sem nótt. Aðalsteinn Sigurgeirsson, annar eldheitur Þórsari, dró þetta ágætlega saman í minningarorðum um Begga: „Það skipti ekki máli hvaða vikudagur var, eða hvaða tíma sólarhringsins þurfti að vinna. Alltaf var Baldvin tilbúinn og það kom oft fyrir, sérstaklega yfir sumartímann, að hann var á svæðinu svo til allan sólarhringinn.“

Svo skilst manni að troða hafi þurft kaupinu upp á kappann. Beggi skans hafði mjög afslappað viðhorf til veraldlegra gæða.

Hann skar sig úr í útliti; ljóshærður og tanaður og maður gat best trúað því að hann hefði verið brimbrettakappi á yngri árum. Annars minnti hann mig alltaf mest á ástralska kylfinginn Greg Norman. Þeir hefðu getað verið bræður.

Ekki er víst að Axel Vatnsdal bakarameistari, ástralski kylfingurinn Greg Norman, skoski rokksöngvarinn Rod Stewart og Logi Einarsson alþingismaður eigi margt sameiginlegt, en allir koma við sögu í pistli dagsins.

Beggi var ástríðufullur og gat verið hávær, þyrfti hann að koma meiningu sinni alla leið inn í kvörnina á viðmælandanum. En líka ljúfastur manna, ef því var að skipta.

Ég hafði þekkt Begga um skeið þegar ég hóf störf hjá honum á Þórsvellinum sumarið 1986 enda fór hann ekki framhjá nokkrum manni á svæðinu, auk þess sem hann bjó um tíma í götunni minni, Smárahlíðinni. Ekki svo að skilja að hann hafi verið mikið heima. Þetta sumar var mergjaður skóli, svo við tökum forsetaframbjóðann á‘etta, og hafi maður ekki verið búinn að læra að vinna á þessum tímapunkti þá var Beggi snöggur að kippa því í liðinn.

Við strákarnir mættum á morgnana í „áhaldahúsið“ sem var hvítur gámur við suðurenda grasvallarins og tekið var til óspilltra málanna. Slá þurfti völlinn, að mig minnir daglega, alla vega annan hvern dag, eins stallana, sem þá gegndu hlutverki áhorfendastúku, mála keppnislínur, draga fánann að húni á leikdegi og huga að einu og öðru á svæðinu. Svo skiptumst við á að sækja golfkúlurnar hans Begga, sem var ákafur kylfingur, en hann æfði sveifluna samviskusamlega milli verka. Beggi er raunar eini maðurinn sem hefur fengið mig til að taka upp golfkylfu; kenndi mér meira að segja gripið sem ég er ábyggilega búinn að gleyma. Enda hef ég ekki hugsað mér að huga að þeirri ágætu íþrótt fyrr en eftir áttrætt.

Starfsmenn á Þórsvelli sumarið 1986. Frá vinstri: Hlynur Birgisson, síðar landsliðsmaður í knattspyrnu, Birgir Björnsson, Kristín Sigurðardóttir og Beggi skans.

Ég sá Begga aldrei leika knattspyrnu en skilst að hann hafi verið harður í horn að taka. Hann sagði okkur strákunum að hann hefði einu sinni kixað svo illa í kappleik á Suðurnesjum að hann spyrnti upp heilli þöku sem flaug sem leið lá út á Faxaflóann, þar sem Akraborgin strandaði á henni!

Enginn sá ástæðu til að draga það í efa.

Síðan var það mýkri hliðin. Sumarið 1986 var mjög erfitt hjá Þór en um vorið lést einn besti og reyndasti leikmaður liðsins, Óskar Gunnarsson, með sviplegum hætti. Lítið var um það rætt, enda tíðarandinn annar, og ég man ekki til þess að þjálfararnir eða kennararnir hafi fært það sorglega mál í tal við okkur krakkana. En það gerði Beggi. Hann spurði hvernig okkur liði og hvort við vildum segja eitthvað eða spyrja um eitthvað. Eðlilegt væri að dauðsföll, ekki síst svipleg dauðsföll, tækju á sálina. Beggi kunni þá vandmeðförnu list að hafa samskipti við unglinga. Lesa þá, styðja og styrkja.

Þórssvæðið 1980 og nú – margt hefur breyst síðan Beggi Skans var vallarstjóri og Orri Páll Ormarsson sumarstarfsmaður á Þórsvellinum.

Beggi var líka forfallinn áhugamaður um tónlist, ekki síst blús, en einnig popp og rokk og var mikill Rod Stewart-maður. Þeir voru jafnaldrar. Þá duflaði hann sjálfur við gítarinn, samdi lög og texta. Sumt af því hafði Beggi hljóðritað og þegar ég var að slá Þórsvöllinn þetta sumar, á gömlum rauðum traktor, sem ég man því miður ekki hverrar gerðar var, þá hlustaði ég stundum á þessi lög í vasadiskóinu mínu. Prýðilegt stöff og mér er sérstaklega minnisstæð kona, hverrar andlit var allt í móðu. Það ræsti vangaveltur með unglingnum.

Við unnum þarna í tveimur hópum strákarnir úr hverfinu. Í fyrri hópnum voru að mig minnir Hjalti vinur minn Hjaltason, Þórir Guðmundur Áskelsson, sjálfur fyrirliðinn í árganginum í Þór, Sverrir Ragnarsson, sonur Ragga í JMJ, og Axel Gunnar Vatnsdal, sem á þeim árum bakaði varnarmönnum tóm vandræði með hraða sínum og markheppni. Faðir hans, Sigurður Vatnsdal, var eins og grár köttur á Þórssvæðinu, annálað ljúfmenni. Hann var býsna grannholda og einu sinni spurði Beggi okkur hvort við vissum hvers vegna Siggi Vatnsdal færi aldrei í sturtu.

Það vissum við ekki.

„Vegna þess,“ sagði Beggi kíminn, „að honum myndi skola burt með niðurfallinu!“

Spall við Baldvin Ólafsson vallarstjóra í Degi sumarið 1986.

Í mínum hópi voru Bjarni Ármann Héðinsson og Steinþór Sigurðsson, sonur Sigurðar Flosasonar kennara. Manni og Brói. Frábærir strákar, báðir tveir. Með okkur var líka strákur sem hét Gísli (og heitir vonandi enn) en hann var bara hálfan daginn; vann eftir hádegið í gæludýrabúð.

Brói er mikill húmoristi og kitlaði gjarnan hláturtaugarnar, auk þess sem hann mætti alltaf í vinnuna á skellinöðru sem við tókum til kostanna á malarvellinum, milli verkefna að sjálfsögðu.

Manni er einhver harðasti nagli sem ég hef kynnst um dagana; smávaxinn en granítharður. Hann var enn að æfa fótbolta á þessum árum og ekki óalgengt að sjá þrjá, jafnvel fjóra mótherja liggja í valnum eftir tæklingar hans – á sama tíma. Sem allar voru þó sanngjarnar. Roy Keane er eins og Ketill skrækur við hliðina á Manna.

Óskar heitinn Gunnarsson, Beggi skans við störf á Þórsvellinum og Guðmundur Benediktsson – Gummi Ben.

Löngu síðar slasaðist Manni illa í bílslysi og var haldið sofandi á gjörgæslu um tíma. Þegar hann rankaði við sér leit Manni snöggt á hjúkkuna sem stumraði yfir honum og spurði: „Andskotinn, hvað er á seyði hérna? Geturðu ekki reddað mér í nefið?!“

Bróðir Manna, Héðinn Brynjar Héðinsson, var með mér í bekk í Glerárskóla. Sami Spartverjinn en gaf sig minna að sparkiðkun.

Beggi skans hætti störfum á Þórsvellinum fáeinum árum síðar og flutti suður. Ég man ekki betur en að Logi Már Einarsson, nú alþingismaður, hafi tekið við af honum og gefið gámnum góða í vallarjaðrinum viðeigandi nafn: Skansinn.

Begga hitti ég síðast síðla árs 1990, þegar ég var kominn í háskólanám í Reykjavík. Það var í bókaverslun Eymundssonar í Austurstrætinu. Hann fór þá mikinn, sem fyrr, og sá fyrir sér bjarta tíma hjá klúbbnum okkar. „Nú, Baddi [Benedikt Guðmundsson] selur bara strákinn [Guðmund Benediktsson] fyrir mörghundruð milljónir til stórliðs í Evrópu og við hefjum mikla uppbyggingu. Hver veit nema við eigum eftir að verða Íslandsmeistarar?“

Við kvöddumst vongóðir og glaðir. Eins og alltaf.

Mér krossbrá svo einn morgunin nokkrum mánuðum síðar þegar ég opnaði Moggann yfir kornflexinu og las að Beggi hefði látist í bílslysi í Englandi, þar sem hann var í golfferð með félögum sínum. Hann var 45 ára að aldri.

Blessuð sé minning Begga Skans!

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Undurhrif tónlistarinnar

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
28. janúar 2025 | kl. 06:00

Útvíðar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. janúar 2025 | kl. 11:30

Gosdrykkjan

Jóhann Árelíuz skrifar
26. janúar 2025 | kl. 11:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30