Fara í efni
Pistlar

Líkhús – Bistro

HUGSAÐ UPPHÁTT

Líklega er ekki við hæfi að gantast með óvenjulegustu frétt dagsins enda dauðans alvara þar á ferð.

Langar þig til að eignast líkhúsið? var fyrirsögn fréttar á Akureyri.net í morgun.

Enginn ber ábyrgð á rekstri líkhúsa, segir Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar. Engum ber skylda til að sjá um ferlið frá dánarvottorði til greftrunar, segir hann. Þar er gat í kerfinu.

Fyrirtækinu ber að hirða kirkjugarða og taka grafir en þarf ekki að sinna öðrum verkefnum. Því er heimilt að reka líkhús en fær engar tekjur til þess og ríkisfyrirtæki má ekki rukka viðskiptavini fyrir neitt nema þess sé getið í lögum. Ekkert er um líkhúsgjald í lagabálki lýðveldisins og ábendingum umboðsmanns Alþingis  um málið mun ekki hafa verið sinnt.

Detti mér í hug að reka líkhús má ég hins vegar innheimta gjald, til dæmis andvirði gistingar á góðu hóteli fyrir hverja nótt, þar sem um einkarekstur yrði að ræða.

Skyldi það eiga fyrir mér að liggja, þegar þar að kemur, að vera látinn standa uppi í húsakynnum einhverrar dætra minna? Það tíðkaðist í gamla daga. Hví ekki að taka upp þann sið aftur? Vonandi vakna embættismenn í ráðuneyti dómsmála þó upp við vondan draum áður.

Ég er enginn sérstakur áhugamaður um líkhús en góður matur er annað mál. Byggingin fallega á Naustahöfðanum gæti hentað prýðilega undir veitingahús. Góður kælir er í húsinu, útsýnið er framúrskarandi og óhætt að lofa að þar yrði snætt í ró og næði þrátt fyrir 10.000 nágranna. Þeir eru allir þögulir sem gröfin.

Skapti Hallgrímsson er ritstjóri Akureyri.net

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00