Fara í efni
Pistlar

Framúrskarandi Gaukshreiður

HUGSAÐ UPPHÁTT

Hver er geðveikur og hver er ekki geðveikur?

Spurningin kann að virka einföld en svarið er áreiðanlega mun flóknara.

Mannshugurinn er einkennilegt fyrirbæri. Stundum er þar bjart og fallegt, stundum þokuslæðingur en þokan mun því miður eiga til að taka sér þar bólfestu til frambúðar.

Svartaþoka lá yfir hluta Eyjafjarðar kvöldið sem Freyvangsleikhúsið frumsýndi Gaukshreiðrið og ef til vill táknrænt að skyggnið var svo slæmt að hver jörðin af annarri var í feluleik. Sömu sögu var að segja af Freyvangi; það góða menningarhús sá ofanritaður ekki frá veginum fyrr en komið var framhjá heimreiðinni.

Freysteinn Sverrisson og Ingólfur Þórsson ræða málin. Svavar Máni Geislason í fjarska.

Einfalt var að snúa við og komast klakklaust þangað sem leiðin lá, en sömu sögu er ekki að segja af öllum í þessari afbragðsgóðu uppsetningu á mögnuðu verki Dale Wasserman, sem hann byggir á sögu Ken Kesey.

„Verkið lýsir á beinskeyttan hátt aðstæðum og þann uppreisnaanda sem ríkti í Bandaríkjunum og víðar á 7. áratug síðustu aldar sem og þeirra meðferð sem geðsjúkir bjuggu við og hvernig litið var á geðsjúkdóma á þessum tímum,“ segir í kynningu og þar er engu ofaukið. Ekki heldur að Gaukshreiðrið sé „hrollvekjandi ádeila á kerfið og þeim meðferðum sem beitt var en lýsir á sama tíma einstöku sambandi sjúklinganna og hvernig þeir glíma við harðræði og niðurlægingu yfirvaldsins. Leikverkið inniheldur í senn sorg, gleði, hrylling og illsku.“

Metnaður hefur einkennt starfsemi Freyvangsleikhússins árum saman, jafnvel áratugum, og Gaukshreiðrið er enn ein rós í hnappagatið.

Sindri Swan leikur afbragðsvel í Gaukshreiðrinu.

Langflestir leikarar stóðu sig feiknavel á frumsýningunni og umgjörð öll var sérlega góð; leikmynd, hljóð og myndir. Þá verður að geta þýðingar Karls Ágústs Úlfssonar sem er til fyrirmyndar, og kemur ekki á óvart.

Nefna verður sérstaklega leikarana Ingólf Þórsson, Sindra Swan og Freystein Sverrisson í burðarhlutverkum.

Allir hafa þeir mjög sterka nærveru á sviðinu, fara vel með texta, eru öruggir og sannfærandi. Sindri leikur foringja sjúklinganna, Ingólfur er indíánahöfðinginn Bromden sem lengi hefur verið á sjúkrahúsinu og Freysteinn er gesturinn McMurphy, skemmtilega ófyrirleitinn náungi sem nær að breyta andrúmsloftinu all hressilega en gerir sér ekki grein fyrir alvarleika málsins ... Einnig verður að geta Svavars Mána Geislasonar sem gerði einum sjúklinganna mjög góð skil.

Uppsetning Freyvangsleikhússins er framúrskarandi. Gunnar Björn Guðmundsson leikstjóri og leikarahópurinn bjóða upp á sérstaklega góða kvöldstund, ekki alltaf fallega, stundum þó sprenghlægilega en ekki síst umhugsunarverða.

Stutt skilaboð í lokin: Drífið ykkur í Freyvang!

Skapti Hallgrímsson er ritstjóri Akureyri.net

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30