Fara í efni
Pistlar

Jólakveðja

Ég hef ákveðið að gera stóra og hugsanlega afdrifaríka játningu sem gæti gjörbreytt hugmyndum fólks um þann menningarvita sem ég hef hingað til reynt að vera. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég er týpan sem stilli á jólastöðina í útvarpinu um miðjan nóvember og hlusta á hana í bílnum hvert sem ég fer þar til jólin kveðja og stöðin með og þetta hef ég gert í mörg herrans ár.

Ég leyfi jólastöðinni að umvefja mig með gömlu jólapoppi frá æsku minni, Ladda að syngja „Snjókorn falla“ og Björgvin og Svölu með sína dúetta og Chris Rea með „Driving home for christmas“ og þannig mætti lengi telja.

Ég stilli ekki á þessa stöð í von um að heyra nýjustu jólalögin heldur einmitt þessi gömlu sem hafa fylgt mér frá bernsku jafnvel þótt mörg hinna nýju séu stórgóð og fallega flutt. Þegar ég stilli á jólastöðina er ég nefnilega ekki að leita eftir einhvers konar innblæstri því jólapopp er í eðli sínu oft fremur fyrirsjáanlegt, nei þegar ég stilli á stöðina er ég fremur að leita eftir hlýju, huggun og öryggi. Já ég er raunverulega að segja þér að ég hugga mig með jólastöð útvarpsins á sama hátt og þegar ég handleik gamla jólaskrautið sem hefur verið partur af lífi mínu frá ómunatíð. Það skraut er ekkert endilega mjög smart út frá hönnunarsjónarmiði og sumt jafnvel á mörkunum að vera smekklegt en á jólum verður slíkt algjört aukaatriði, á jólum hafa tilfinningarnar yfirhöndina en ekki smartheit þótt vissulega megi þau fylgja með ef menn vilja.

Eitt það besta við jólin er að þau eru fasti í síbreytilegri veröld og kaflaskiptri lífsgöngu okkar mannanna. Líf okkar er á svo margan máta fallegt og gott en á sama tíma er það líka svo tregafullt og sárt. Það er svo mikið tilfinningalegt álag að vera manneskja og lifa allar breytingar lífsins, bæði hin velkomnu og óvelkomnu tímamót, allt frá barnsfæðingu til dauða. Ég hef hlustað á jólastöðina á fyrstu aðventu eftir andlát ástvinar, fyrstu aðventu eftir hjónaskilnað, fyrstu aðventu eftir alvarleg veikindi en líka fyrstu aðventu sem prestur og fyrstu aðventu sem móðir, Laddi hefur sungið fyrir mig „Snjókorn falla“ og Svala Björgvins „ Ég hlakka svo til“ og minnt mig á að sumt breytist ekki þótt ég sé grenjandi við stýrið vegna breytinga í eigin lífi. Loks ganga jólin í garð og þá tekur við annar kjarni sem vonandi breytist aldrei sem er jólamessan með gömlu sálmunum sem tengja saman lifandi og liðnar kynslóðir eins og ósýnilegur þráður milli himins og jarðar , sálmunum sem amma og langamma og langalangamma sungu í sínum eigin lífsbarningi og auðvitað jólaguðspjallið sjálft sem boðar eilífa von á öllum þessum tímamótum og breytingum í lífi okkar. Jólaguðspjallið sem í stuttu máli segir eftirfarandi: Innra með þér er barnið sem þú varst þegar þú leist heiminn fyrst, þetta barn hefur náð vitsmunalegum og tilfinningalegum þroska og getu til að sjá um sig sjálft og sérþekkingu á ákveðnum sviðum en það lifir samt innra með þér enn sem barn og þarfnast umhyggju, öryggis og stuðnings. Skapari lífs og ljóss kom í heiminn sem barn og þurfti líka á umhyggju og stuðningi að halda og valdi til þess kornunga og fátæka foreldra með enga reynslu af barnauppeldi. Ef skapari lífs og ljóss þurfti á umhyggju og stuðningi að halda og gat þegið hann af venjulegu fólki hví ættum við hin þá ekki að gera slíkt hið sama og veita áfram?

Jólin eru hátíð umhyggju og stuðnings, hátíð vonar þegar við skynjum ákveðinn stöðugleika í öllum óstöðugleika lífsins, þegar við skynjum huggun í hefðunum, hlýju í ósmekklegu jólaskrauti og öryggi í eitís lögum Ladda og Björgvins Halldórssonar. Jólin eru hátíð barnanna, stórra og smárra. Jólin eru hátíð tilfinninganna, djúpra og sárra. Á jólum eiga ekki allir að vera glaðir, þeir sem eru glaðir mega vera glaðir, hinir sorgmæddu mega vera sorgmæddir, jólahefðirnar eru rammi allra tilfinninga, taka utan um þær og skapa úr þeim myndir sem hugga, jólaskraut, tónlist, ilmur sem minnir á látinn ástvin eða samband sem heftur slitnað eða heilsu sem er farin nú eða gleði sem varir og nýja hamingju, ný tækifæri, bjartsýni og von.

Jólin eru hátíð barnsins sem lifir hver jól, sem barn.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00