Fara í efni
Pistlar

Hvað hét kona Goebbels?

ORRABLÓT - XII

Akureyri er víða, til dæmis í Reykjavík. Þannig var Nýi-Garður, sem þá var heimili fyrir stúdenta, troðfullur af Akureyringum meðan ég bjó þar í blábyrjun níunnar.

Tveir mynduðu með mér stuðtríóið Sjérí Bjéda sem tróð reglulega upp í samkvæmum á Garði, Torfi Rafn Halldórsson lyfjafræðinemi og Gunnlaugur Kristinsson viðskiptafræðinemi. Miklir öðlingar, báðir tveir, og með okkar allra skemmtilegustu mönnum. Gulli kemur að vísu frá Eiðum en hefur búið um langt árabil á Akureyri, þannig að við teljum hann hikstalaust með. Torfi er borinn og barnfæddur Akureyringur og KA-maður fram í fingurgóma. Báðir léku þeir á gítar í þessu ágæta tríói en ég söng(laði).

Nafnið átti að vera Graðhestarnir á rússnesku en ég óttast að það þýði eitthvað allt annað. Ástæðan er sú að rússneskur sambýlismaður okkar, Dmitríj Alexandrevitsj Persjín, skildi illa enskuna sem við töluðum við hann og við enn verr þýskuna sem hann talaði við okkur. Laga mátti nafnið að fleiri tungumálum og ég man að Torfi hafði áform um að fara í tónleikaferð um Þýskaland undir nafninu Pferden mit Sexual Appetit.

Hápunktur ferils Sjérí Bjéda var án efa þegar okkur var boðið að koma fram á árshátíð erlendra stúdenta við HÍ. Nú sjáið þið ábyggilega fyrir ykkur þúsund manns í stórum íþróttasal en nei, þetta voru á að giska tíu manns úti í horni á veitingastað á Laugaveginum. Og launin voru þau að við borðuðum frítt, einhverja kássu að mig minnir.

Nýi-Garður við Háskóla Íslands og þeir Óskar Ingi Ingason, Einar Pálmi Sigmundsson og Torfi Rafn Halldórsson sem allir voru þar samtíða Orra Páli í blábyrjun níunnar.

Veturinn eftir tókum við þátt í Söngkeppni Nýja-Garðs. Þá var Gulli að vísu fluttur út og í hans stað komin listakonan Dóttir Beethovens frá Akureyri sem raunar heitir Jóhanna Sif Gunnarsdóttir, kölluð Lóla. Hún lék á þverflautu. Lagið sem við fluttum var frumsamið, eftir Torfa, og hét því grípandi nafni Jón hakk. Eins og nafnið gefur til kynna þá fjallaði það um sambýlismann okkar á þriðju hæð hússins sem fyllti gjarnan allt frystirými hæðarinnar af nautahakki á haustin.

Viðlagið var svona:

Nonni, Nonni, Nonni, Nonni.
Nonni, Nonni, Nonni, Nonni.
Nonni, Nonni, Nonni, Nonni hakk.

Við fórum ekki með sigur af hólmi.

Jónarnir á Nýja-Garði voru fleiri. Má þar nefna Jón Sigtryggsson viðskiptafræðinema, mikinn ljúfling og glæsimenni á velli. Hann bragðaði ekki áfengi en kom eigi að síður alltaf fyrstur í öll partí og fór síðastur. Einu sinni veitti partígestur því athygli að Jón var eitthvað öðruvísi en allir hinir á svæðinu og spurði hvort hann væri á einhverju efni. „Já, dreiggur,“ svaraði Jón. „Það heitir kaffi.“

Jón Eymundsson enskunemi bjó þarna líka, frá Brekku í Eyfirði. Glettinn náungi. Hann er raunar ekki Eymundsson, heldur Friðriksson. Þegar einhver utanGarðsmaður komst að þessu hváði hann. „Eruð þið að segja mér að Jón Eymundsson sé ekki Eymundsson?“

„Já.“

„Hvers vegna er hann þá kallaður Eymundsson?“

„Vegna þess að hann vinnur með námi í Eymundsson.“

  • Arngrímur Baldursson, „yndislegur drengur sem veit meira um knattspyrnufélagið Liverpool en allir lifandi menn í þessum heimi – og líka dauðir,“  hér einmitt ásamt Jürgen Klopp yfirþjálfara enska liðsins eftir að alfræðirit Arngríms og Guðmundar Magnússonar um Liverpool kom út fyrir nokkrum árum.
  • Rússnesk ensk orðabók sem e.t.v hefði verið gott að hafa við hendina þegar Orri og félagar ræddu við sambýlinginn Dmitríj Alexandrevitsj Persjín.
  • „Já, dreiggur,“ svaraði Jón. „Það heitir kaffi.“ Gulur Bragi er líklega þekktasta kaffi í sögu Akureyrar.
  • Nautahakk.

Helga Erlingsdóttir laganemi var líka á þriðju hæðinni á Nýja-Garði. Skemmtileg stelpa, fjölfróð og athugul. Á hæðinni fyrir neðan bjó sagnfræðinemi sem hét því sögulega nafni Skúli Magnússon. Hann kom reglulega í opinbera heimsókn upp á þriðju hæð og þegar hann kom auga á Helgu hrökk alltaf sama spurningin upp úr honum: „Helga, vissir þú að kona Goebbels hét Helga?“

Helga vissi það ekki og að henni sóttu raunar efasemdir. Eftir að þetta hafði gengið svona í allmargar vikur eða mánuði tók hún því strauið upp á bókasafn stúdenta í aðalbyggingu háskólans, nældi sér í allþrútna ensíklópedíu og fletti þessu upp. Og viti menn, kona Goebbels hét alls ekki Helga, heldur Magda. Áróðursmeistarinn átti á hinn bóginn dóttur sem hét Helga.

Vopnuð þessum sjóðheitu upplýsingum hélt Helga heim á Garð á nýjan leik og var eldsnögg að heimaskítsmáta aumingja Skúla næst þegar fundum þeirra bar saman. Það var að vonum mikill skellur fyrir sagnfræðinemann sem lét ekki sjá sig uppi á þriðju hæð lengi á eftir. Við æringjarnir snérum hins vegar strax upp á spurningu hans og spurðum Helgu gjarnan þegar við hittum hana: „Helga, vissir þú að kona Goebbels hét Magda?“

Hún hafði gaman af því.

Þorleifur Ágústsson líffræðinemi var mestur meðal grallaraspóa á Garði. Eldhress náungi. Hann hitti Dag heitinn Sigurðarson skáld einu sinni á förnum vegi og bauð honum heim á Garð. Dagur kunni vel við sig og óskaði um kvöldið eftir gistingu í sjónvarpsherberginu á þriðju hæðinni. Því var fálega tekið enda lifði skáldið mjög bóhemsku lífi. „Jæja, ég sé að þið eruð búin að greiða um það atkvæði að ég fái ekki fletið. Þannig að ég fer,“ mælti skáldið.

Dag sá ég aldrei aftur.

Arngrímur Baldursson enskunemi er einnig eftirminnilegur. Yndislegur drengur sem veit meira um knattspyrnufélagið Liverpool en allir lifandi menn í þessum heimi – og líka dauðir. Gott ef Liverpool réð hann ekki formlega til starfa um árið enda gagnasafn hans mun veglegra en félagsins sjálfs. Á Garði bjó siglfirskur vinur Arngríms, Smári Sigurðsson að nafni, sem fylgdi Manchester United að málum. Sá var hrekkjóttur og þegar Arngrímur fullyrti við sambýlismenn sína að Liverpool væri liðið þá gall iðulega í Smára: „Já, löngu liðið!“

Sigríður Þórðardóttir ís-lenskunemi var skemmtileg og lagði mikla áherslu á að hún væri að læra ís-lensku en ekki ísl-ensku. Á þessu er auðvitað grundvallarmunur. Hún hélt karlpeningnum líka við efnið væru menn ekki að standa sig í umgengni og almennu hreinlæti. Einu sinni dró Sigga Dmitríj á eyranu fram á klósett til að þrífa dolluna eftir að miðið hafði eitthvað geigað. Sá kom ekki lítið skömmustulegur til baka.

Þýski áróðursmeistarinn Joeseph Goebbels, skáldið Dagur Sigurðarson og akureyrskir lögreglumenn; ekki er vitað hvort einhver á myndinni kom við sögu þegar Óskar Ingi Ingason fékk lögreglufylgd úr bænum.

Einar Pálmi Sigmundsson viðskiptafræðinemi var með hressustu mönnum á Garði. Gjarnan kallaður E. Palmisig Mundsson eftir að honum barst böggull frá útlöndum með þeirri áletrun. Við brölluðum sitthvað saman. Settum til að mynda á laggirnar félagið SÁL, það er Samtök áhugamanna um lágkúru, ásamt Óskari Inga Ingasyni guðfræðinema, sem raunar hefur enga tengingu við Akureyri, aðra en þá að hann fékk einu sinni lögreglufylgd úr bænum. Það var eftir að hann missti 13 ára gamall af rútunni austur í sveitir eftir leik KA og Manchester United á Akureyrarvellinum sumarið 1982. Gríðarlegur United-maður, Óskar Ingi.

SÁL-liðar hittust reglulega á fundum og gáfu út fréttabréf sem hengt var upp á utanverðan eldhúsvegginn á þriðju hæðinni. Það fjallaði einkum og sér í lagi um ævintýri og ekki-ævintýri Garðbúa.

Eitt ævintýrið var Knattspyrnumót Nýja-Garðs sem fram fór í Íþróttahúsi fatlaðra við Hátún á sunnudagssíðdegi. Þar sauð upp úr í viðureign annarrar og þriðju hæðar með þeim afleiðingum að menn töluðust ekki við í nokkra daga. Stefáni Gunnarssyni, mínum gamla bekkjarbróður úr MA, varð allnokkuð um þetta enda þótt hann byggi í kjallaranum og ætti ekki beina aðild að deilunni.

Stebbi hlóð í heilan ljóðabálk af þessu tilefni. Hann byrjar svona, með leyfi höfundar og eftir minni:

Þeir búa í hæstu hæðumog höfðinginn fyrir þeim fer.Með geistlegan anda í æðumEn hópurinn er eins og höfuðlaus her,í híalíni og haldlitlum klæðum.

Í boltann þeir einbeittir æða,æpa og góla af list.En sú hræfuglafæðahefur manna fyrst, jörðina kysstúr nefi hans tekur að blæða.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00