Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Strandgata 21

Þann 3. maí 1986 átti sá merkisatburður sér stað, að Íslendingar tóku í fyrsta skipti þátt í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Þann dag voru einnig liðin slétt 100 ár frá því að Bygginganefnd Akureyrar afgreiddi byggingaleyfi til handa þeim Einari Pálssyni kaupmanni og Þórði Brynjólfssyni trésmiði. Fengu þeir leyfi til byggingar húss á Oddeyri, 14 álna langt frá austri til vesturs, á móti húsi O. Hauskens og 20 álnir milli húsanna. Síðar var Lundargata lögð þarna á milli. Umrætt hús Hauskens var einmitt flutt um nokkra metra og komið fyrir við Lundargötu, nánar tiltekið nr. 2 og stendur þar enn. Og hús Einars Pálssonar og Þórðar Brynjólfssonar stendur einnig enn og er Strandgata 21.

Strandgata 21 er tvílyft timburhús með tiltölulega lágu risi, á steyptum kjallara. Á húsinu eru viðbyggingar að vestan og norðan. Tvílyft bygging er meðfram vesturstafni með einhalla þaki og skagar hún um 3 metra út frá norðurhlið. Bygging þessi er um 2 metra innan við suðvesturhorn framhússins og eru tröppur að inngöngudyrum í kverkinni á milli. Á bakhlið er tveggja hæða útskot, u.þ.b. 2x3m sem nokkurs konar „framhald“ af nyrðri hluta stigaálmu að vestan. Er hún einnig með einhalla þaki í gagnstæða átt við vesturbyggingu. Áfast norðanmegin er einnig einnar hæðar bygging, kjallaralaus með háu einhalla þaki. Sú álma er um 6x3m. Veggir eru múrhúðaðir „forskalaðir“ á þremur hliðum en norðurhlið, þ.e. bakhlið er öll bárujárnsklædd. Í gluggum eru ýmist einfaldir þverpóstar eða krosspóstar. Bárujárn er á þaki. Bakálma hefur áður tengst bakhúsi sem nú er horfið og til marks um það er forláta hurð sem væntanlega hefur áður verið innandyra. Þá deilir sú bygging ekki grunni með framhúsi og vesturálmu og gólfflötur hennar því lægri. Grunnflötur Strandgötu 21 án viðbygginga er nærri 6x9m, grunnflötur viðbyggingar við vesturgafl er um 8x2m og bakbyggingar samanlagt um 9x3m.

Sem fyrr segir reistu þeir Einar Pálsson og Þórður Brynjólfsson trésmiður húsið árið 1886. Það sumar risu þrjú hús í röð við Strandgötuna, er síðar hlutu númerin 17, 19 og 21 og standa þau öll enn árið 2024. Ekki er víst hvort húsið hefur verið tvílyft í upphafi en ljóst er (út frá ljósmyndum) að húsið hefur verið orðið tvílyft um 1895. Líklegast hafa þeir Einar og Þórður búið hvor á sinni hæð, en ekki er fullvíst hvort húsið hafi verið tvílyft frá upphafi eða hækkað um eina hæð síðar. Þórður virðist ekki hafa búið þarna lengi en hann er ekki skráður hér til heimilis í Manntali 1890. Þar kallast húsið einfaldlega „Hús Einars Pálssonar, Oddeyri“ og eru þar til heimilis 19 manns. Annars vegar þau Einar Pálsson og María Kristín Matthíasdóttir ásamt börnum og hins vegar þau Sophus Franz Sophusson blikksmiður og kona hans, Guðrún Ingibjörg Jónsdóttir. Þarna eru einnig búsettar þrjár vinnukonur og vinnumaður og ein námsstúlka. Einar Pálsson var fæddur og uppalinn á Myrká í Hörgárdal, sonur sr. Páls Jónssonar sem sat þar frá 1846 til 1858, er hann fékk Velli í Svarfaðardal. Einar Pálsson starfaði hjá Gránufélaginu, var sagður pakkhússtjóri árið 1901 og einnig mun hann hafa sinnt spítalaumsjón (hann er allavega sagður verslunarmaður og spítalahaldari á islendingabok.is). María Kristín Matthíasdóttir var hins vegar fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en fluttist síðar til Reykjavíkur og var þar í vinnumennsku.

Það er ekki víst að Þórður Brynjólfsson hafi búið lengi í þessu húsi. Mögulega var hann byggingastjóri Einars og sótti um byggingaleyfið með honum, en Þórður var trésmiður. Á islendingabok.is er aðeins að finna þrjá með þessu nafni, sem miðað við fæðingardag gætu hafa verið að brasa í húsbyggingum árið 1886. Sá Þórður Brynjólfsson sem greinarhöfundur telur líklegastan til að hafa komið að byggingu Strandgötu 21 var fæddur árið 1862 í Vestmannaeyjum. Hann var sonur Brynjólfs Halldórssonar í Norðurgarði, sem mun hafa verið annálaður formaður á sínum heimaslóðum. Þórður er sagður hafa farið til Vesturheims árið 1887 og lítt spurst til hans eftir það, hann er a.m.k. ekki skráður með dánardag á Íslendingabók. Það má eflaust leiða að því líkur, að hann hafi unnið við húsbyggingu fyrir Einar og sveitunga sinn úr Eyjum, Maríu, með það að markmiði, að safna sér fyrir farareyrinum vestur. Það vill einnig svo til, að viku eftir að Einar og Þórður fengu lóðina og byggingarleyfið, var Pétri nokkrum Tærgesen, sem hét fullu nafni Hans Pétur Tærgesen, úthlutað þarnæsta lóð vestan við. (Norski skipstjórinn Johan Jacobsen fékk lóðina á milli þeirra á næsta fundi Bygginganefndar). Hans Pétur fór einnig til Vesturheims, mögulega 1887. Hver veit, nema þeir Hans Pétur og Þórður hafi verið í samskiptum á byggingarsvæðunum og annar mögulega sannfært hinn um vesturferð. Kannski voru jafnvel samferða? En látum nú staðar numið af misviturlegum vangaveltum og getgátum um löngu látna heiðursmenn.

Einar Pálsson og fjölskylda eru enn búsett hér árið 1901 og þá hefur húsið fengið númerið 15 við Strandgötu. Númerakerfið virðist hafa verið frjálslegt, röðin nokkuð tilviljunarkennd og sum hús númerslaus. Ári síðar hefur númerakerfið verið samræmt og húsið fengið númerið 11 og næsta hús vestan við 9. Þá er eigandi hússins Erlendur Sveinsson skraddari. Árið 1904 eignaðist Eggert Einarsson frá Syðri- Skjaldarvík í Glæsibæjarhreppi húsið. (Hann var ekki sonur Einars Pálssonar, svo það komi fram). Raunar eru þeir tveir skráðir eigendur hússins, Eggert Einarsson, titlaður verksmiðjumaður og Frímann Frímannsson verslunarstjóri. Frímann er skráður þarna til heimilis til ársins 1906 en árið 1908 búa hér aðeins Eggert og Kristín Kristjánsdóttir, sem titluð er þjónustustúlka. Til samanburðar má nefna, að árið 1901 bjuggu hér 18 manns, a.m.k. þrjár fjölskyldur. Árið 1909 gengu þau í hjónaband, Eggert Einarsson og Guðlaug Sigfúsdóttir frá Svarfaðardal og síðla það ár eignast þau tvíbura, Karl og Vernharð. Auk verslunarreksturs starfrækti hann einnig öl- og gosdrykkjaverksmiðju og gekk hann undir nafninu Eggert Límonaði.

Vernharð Eggertsson (1909-1952) var á sinni tíð þekktur ævintýramaður sem m.a. var fyrsti maðurinn til að brjótast út af Litla-Hrauni, barðist í borgarastyrjöldum á Spáni og var á flótta undan kanadísku riddaralögreglunni. Þorlákur Axel Jónsson hefur fyrir fáeinum árum tekið saman ævisögu Vernharðs og kallast hún Dagur Austan, mikil skemmtilesning þar á ferð. Þar er húsinu að Strandgötu 21 lýst á eftirfarandi hátt: Það er hátt til lofts á hæðunum tveimur og gluggarnir eru stórir. Eggert Einarsson rak þarna verslun sína, sjálf búðin var í austurenda hússins, sneri út að Lundargötu og þaðan var gengið inn í hana. Eldhúsið var á sömu hæð. Gengið var inn í íbúðina frá Strandgötu. Stofa og svefnherbergi voru á efri hæðinni. Í viðbyggingu á lóðinni norðan hússins lagaði Eggert gosdrykki og í kjallaranum bruggaði hann öl (Þorlákur Axel Jónsson 2009:12). Á austurstafni hússins var lengi vel gat á kjallaraveggnum, sem sjá má á meðfylgjandi mynd frá 2010. Um er að ræða fyrrum loftunargat frá ámum Eggerts en nokkur sex tommu göt voru á kjallaranum sem þjónuðu þeim tilgangi. Mun gerilminn hafa lagt um nágrennið, þegar bruggið stóð yfir (sbr. Þorlákur Axel Jónsson 2009:13). Eggert, María og börn þeirra bjuggu í húsinu um áratugaskeið. Bruggstarfsemin fluttist síðar í viðbyggingar norðan hússins. Ónefnd vinnukona sem dvaldist hjá þeim um tíma lýsir þeim sem myndarhjónum og vel stæðum en fengu sjaldan gesti. Vinnukonan, sem fékk sérherbergi á efri hæðinni, sinnti m.a. börnunum og hafði umsjón með helstu heimilisverkunum. Nema hvað hún hellti ekki upp á kaffi; Eggert treysti nefnilega engum nema sjálfum sér fyrir því, en hann lagaði ketilkaffi „eftir öllum kúnstarinnar reglum“ (sbr. Þorlákur Axel Jónsson 2009:14).

Húsið var metið til brunabóta árið 1917. Þar er því lýst sem tvílyftu íbúðar- og verslunarhúsi með skúr við bakhlið og útbyggingu við vesturgafl. Það er ekki ljóst hvenær útskotið á vesturstafni reis, eða skúrinn við bakhlið. Ekki finnast byggingarleyfi fyrir þessum byggingum en mögulega hafa þær verið á húsinu frá upphafi. Herbergjaskipan árið 1917 var á þá leið, að á neðri hæð voru sölubúð og skrifstofu að framanverðu en stofa og forstofa að aftanverðu. Á efri hæð voru alls fimm stofur (herbergi), eldhús, búr og forstofa það síðasttalda að aftanverðu eða norðanmegin. Í risi voru þrjú geymsluherbergi og kjallari sagður skiptur í tvennt. Grunnflötur var sagður 10,4x6,3m og hæð 9,4m. Veggir voru timburklæddir og þak járnklætt. (sbr. Brunabótafélag Íslands, nr. 281, 1917).

Árið 1918 var Eggerti heimilað að reisa skúr áfastan bakhlið hússins, 4x3m að stærð, með því skilyrði, að fjarlægð að næsta húsi yrði ekki minni en 6,3m. Næsta hús var Lundargata 1 en þar var um að ræða hús sem reist var 1891 en rifið um 1998. (Síðar tengdust húsin saman með viðbyggingum). Þremur árum síðar fær Eggert að „lengja efri hæð skúrs til austurs norðan við húsið“. Skilyrði bygginganefndar voru eftir sem áður, að gæta að fjarlægð við næstu hús og að járnverja norðurhlið. Löngu síðar, eða vorið 1941, sækir Eggert um viðbótarbyggingu við húsið. Ekki er getið um afstöðu eða mál en sett þau skilyrði, að byggingarfulltrúi hafi umsjón með framkvæmdinni og að teikningar séu framlagðar. Þær teikningar eru einmitt aðgengilegar á kortasjá Akureyrarbæjar og sýna, að hér er um að ræða skúrbyggingu áfasta tveggja hæða álmunni norðvestanmegin. Teikningarnar sýna hana aðeins á einni hæð, svo líklega hefur hún verið hækkuð síðar.

Eggert Einarsson lést árið 1942, en Þóra dóttir hans bjó hér áfram og hélt áfram verslunarrekstri. Margir Akureyringar, sem komnir eru til vits og ára muna eflaust eftir verslun Þóru Eggertsdóttur en hún var starfrækt fram á 7. áratuginn. Síðustu áratugi hafa verið samkomusalir í húsinu en ekki hefur verið búið hér um langt árabil. Hjálpræðisherinn hafði um skeið, í upphafi níunda áratugarins, aðsetur sitt í húsinu. Það vill hins vegar svo til, að í þessum fyrrum brugghúsi við Strandgötu 21 eru AA-samtökin nú til húsa og hafa verið áratugum saman.

Strandgata 21 er látlaust hús og einfalt að gerð en setur þó svip á umhverfi sitt sem hluti húsaraðarinnar við Strandgötu. Í Húsakönnun 2020 er það metið með miðlungs varðveislugildi sem slíkt, og viðbyggingar taldar spilla útliti þess. (sbr. Bjarki Jóhannesson 2021:49). Það er hins vegar friðað vegna aldurs og sem hluti einstakrar, varðveisluverðrar götumyndar og er svo sannarlega prýði af húsinu, sem stendur á einum fjölförnustu slóðum bæjarins.

Myndirnar eru teknar 4. mars 2010, 8. ágúst 2022 og 26. febrúar 2023.

Heimildir :

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Husaskra-Oddeyrar-Merged2-.pdf (minjastofnun.is)

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 71, 3. maí 1886. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 448, 6. maí 1918, nr. 496, 9. maí 1921 og nr. 322, 27. nóv. 1906. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 870, 1. apríl 1941. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. 1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Husakonnun_Oddeyri.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

Þorlákur Axel Jónsson. 2009. Dagur Austan; Ævintýramaðurinn Vernharður Eggertsson. Akureyri: Völuspá útgáfa.

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta. Upplýsingar af islendingabok.is

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00