Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Strandgata 1, Landsbankinn

Eitt helsta kennileiti Ráðhústorgsins á Akureyri, Landsbankahúsið, er til sölu þessa dagana. Húsið var reist um miðja síðustu öld og var raunar aldrei fullbyggt, miðað við teikningar, þó byggt hafi verið við það síðar. Það átti t.a.m. að vera a.m.k. einni hæð hærra og ná lengra til austurs.

Útvörður Ráðhústorgs (eða Torgsins) í norðri er hin reisulega bygging Landsbankans. En húsið stendur raunar ekki við götuna Ráðhústorg heldur við Strandgötu og er efst húsa við hana. Torgið afmarkast nefnilega af Strandgötu í norðri og Brekkugötu í vestri, en samnefnd gatan liggur meðfram torginu sunnan- og austanverðu. Hugmyndin um byggingu ráðhúss á þessum stað hefur líkast til komið fram með fyrsta Aðalskipulagi Akureyrar árið 1927. Stóðu við Brekkugötu 2 og Strandgötu 1, hús frá fyrri hluta 20. aldar, sem væntanlega hafa átt að víkja. Sem þau og gerðu, þegar Landsbankahúsið var reist og byggt við það. Ekkert varð þó úr byggingu ráðhúss, en torgið hlaut þetta nafn árið 1928. Ár og áratugir liðu og ekkert bólaði á Ráðhúsi, en á meðan hafði Landsbankinn eignast lóðirnar tvær. Forveri Landsbankahússins á Strandgötu 1 var reisulegt timburhús frá 1904, Hótel Oddeyri, þar sem rekið var hótel fram undir 1930 og síðar verslanir.

Haustið 1947 voru áform Landsbankans um byggingu stórhýsis á lóðunum gerð opinber. Gerði þá skipulag enn ráð fyrir ráðhúsi þarna og bera þurfti bygginguna undir skipulagsráð. Það var síðan snemma sumars 1949 að Landsbankinn falaðist eftir því við bygginganefnd að fá að reisa hús á lóðum sínum við Strandgötu 1 og Brekkugötu 2. Byggingin var leyfð með fyrirvara um samráð við Skipulagsnefnd. Hvorki kemur fram nein lýsing byggingar né getið um teikningar í bókun bygginganefndar. Sama ár var fyrrgreint timburhús, áður Hótel Oddeyri, rifið. Árið 1950 setti Bygginganefnd fram skilyrði um 3,14m færslu frá Brekkugötu og snemma árs 1952 sækja þeir Ólafur Thorarensen og Jón Sólnes, fyrir hönd Landsbankans, um leyfi til lækkunar á fyrirhugaðri byggingu. Þó kemur ekki fram, hve hátt húsið hafi átt að vera í upphafi. Skráð byggingarár hússins er 1953 og mun byggingin þá hafa verið fullbyggð. Teikningarnar að húsinu gerði Guðjón Samúelsson.

Landsbankahúsið er þrílyft steinsteypuhús á háum grunni og með háu risi. Grunnflötur er L-laga og styttri álma, fjögur „gluggabil“ til norðurs meðfram Brekkugötu en álman meðfram Strandgötu eða torginu er sex „gluggabil“. Þá er sneiðingur á SV-horni byggingarinnar og þar eru inngöngudyr, sem áður var aðalinngangur bankans. Norðanmegin er viðbygging, álma á einni hæð með flötu þaki. Gluggar eru með margskiptum póstum og voldugir rammar utan um þá, og horn hússins og þakkantar prýddir hinu ýmsu steyptu skrauti, m.a. sperruendum undir þakskeggi. Gluggar neðri hæðar og dyr eru bogadregnir og gefur það húsinu sérstakan svip, ásamt láréttu munstri í múrhúð. Á norðurálmu eru stórir „verslunargluggar“, veggir í raun glerjaðir. Austurhlið er nokkuð áberandi íburðarlítil, aðeins múrsléttaður veggur með einum smáum glugga á þriðju hæð. Kemur það til af því, að upprunalega átti húsið að vera stærra og gert var ráð fyrir, að byggt yrði lengra til austurs. Það hlýtur þó að teljast nokkuð ólíklegt, að byggt verði við húsið til austurs héðan af, en aldrei að vita...

Skemmst er frá því að segja, að þessi 70 ár sem Landsbankahúsið hefur staðið, hefur það hýst Landsbankann. Er afgreiðsla hans og skrifstofur á jarðhæð, og lengst af var gengið inn frá torginu. Frá því um aldamót er aðalinngangurinn hins vegar austan megin á norðurálmu. Um 1975 var byggt við húsið til norðurs, sem áður segir, eftir teikningum sem unnar voru á verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns. Enda þótt húsið hafi fyrst og fremst verið byggt sem höfuðstöðvar Landsbankans fremur en ráðhús, fór það svo að, skrifstofur bæjarins fluttust þangað inn haustið 1953 og voru um langt árabil. Þannig hefur Ráðhústorgið í raun borið nafn með rentu á því tímabili. Auk skrifstofa bæjarins og bæjarstjóra voru m.a. vinnumiðlun bæjarins og Skattstofan í húsinu á 6. og 7. áratugnum. Þá hafa hin ýmsu fyrirtæki og skrifstofur einnig haft aðsetur á efri hæðum hússins. Hvort nokkurn tíma hafi verið búið í Landsbankahúsinu er höfundi ekki kunnugt um.

Landsbankahúsið er eitt af helstu kennileitum Ráðhústorgsins og Miðbæjarins og skapar glæsilega umgjörð um Ráðhústorgið. Líkt og útibú Landsbankans á Selfossi og Ísafirði (einnig eftir Guðjón Samúelsson) er útlit hússins undir áhrifum frá Landsbankahúsinu við Austurstræti í Reykjavík. Síðustu áratugi hefur það ætíð verið í bakgrunni þegar fram fara skemmtanir á torginu, en hefð hefur verið fyrir því, að svið standi norðanmegin við torgið. Landsbankahúsið er mikil prýði í umhverfinu, húsið er í afar góðu ástandi og hefur skv. Húsakönnun 2014 mikið „mikið varðveislugildi staðsett á þessum áberandi stað í miðbæ Akureyrar“. (Landslag Arkitektastofa 2014:43). Myndin er tekin þann 15. september 2015.

Heimildir:

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1109, 10. júní 1949. Fundur nr. 1121, 2. júní 1950. Fundur nr. 1149. 22. feb. 1952. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Ýmsar heimildir af timarit.is; sjá tengla í texta.

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45