Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Grundarkirkja

Í síðustu grein var umfjöllunarefnið Hafnarstræti 86, en það hús reisti Magnús á Grund árið 1903 sem útibú fyrir verslun sína. Nefnt var, að þá hafi hans helsta stórvirki, Grundarkirkja, verið í bígerð. Er þá ekki upplagt, að taka kirkjubygginguna fyrir næst og viðeigandi að grein um hana birtist hér á sjálfan hvítasunnudag ...

Nokkurn veginn í miðjum Eyjafirði, liðlega 20 km framan Akureyrar stendur hið valinkunna höfuðból Grund. Bæjarstæðið er á flata sunnan undir hólaþyrpingu við rætur Kerlingar, hæsta fjalls Norðurlands. Einn af mörgum stórbændum og höfðingjum, sem búið hafa á Grund gegnum aldirnar er Magnús Sigurðsson, sem löngum var kenndur við staðinn. Á Grund standa byggingar frá áratugunum beggja vegna aldamótanna 1900 sem jafnvel enn þann dag þykja veglegar og bera þær vitni um stórhuga og elju hins merka athafnamanns. Höfuðprýði staðarins hlýtur að vera Grundarkirkjan, ein stærsta timburkirkja landsins og vafalítið með þeim glæstari. Hana reisti Magnús fyrir tæpum 120 árum síðan á eigin kostnað og frumkvæði og sótti fyrirmyndir í kirkjur erlendra stórborga, m.a. Kaupmannahafnar.

Það er í raun ekki vitað hvenær kirkja reis fyrst á Grund en það mun ekki hafa verið löngu eftir kristnitöku. Þegar Magnús Sigurðsson kaupir og flytur á Grund árið 1874 stóð þar timburkirkja, sem Ólafur Briem timburmeistari hafði reist árið 1842. Á þeim árum, þ.e. þegar Magnús kom að Grund, mun hin forna stórjörð hafa verið í nokkuð bágu ástandi en hann hugði á mikla uppbyggingu. Hann stundaði ekki einungis búskap heldur hóf hann verslunarstarfsemi á Grund árið 1885. Átta árum síðar reisti hann timburhús, íbúðar- og verslunarhús, sem var eitt það stærsta í Hrafnagilshreppi og raunar á pari við stærstu hús á Akureyri og kaupstöðum landsins. Verslunina rak hann í um fjóra áratugi, eða eins og honum entist aldur og heilsa til. Þá reisti Magnús veglegt og skrautlegt útibú, stórt plankabyggt hús í sveitserstíl, fyrir verslun sína við Hafnarstræti á Akureyri árið 1903. Hvort að sú bygging hafi verið „æfing“ Magnúsar og byggingarmeistara hans fyrir Grundarkirkju skal ósagt látið, en Magnús hafði þá þegar löngu fengið hugmyndina að kirkjubyggingunni. Kirkjan frá 1842 þótti honum vera orðin hrörleg og smá, hann vildi reisa guðshús, „stærra í sniðum enn aðrar kirkjur, veglegastu kirkju, sem risið hefði á höfuðbólinu og þótt víðar væri skyggnzt um“ (Gunnar M. Magnús 1972:183). Hugmyndir hans voru að byggja eina kirkju fyrir allan Eyjafjörð, framan Akureyrar. Það var síðan í ársbyrjun 1904, fáum mánuðum eftir að Hafnarstræti 86 reis af grunni, að þeir Sigtryggur Jónasson og Jónas Gunnarsson hefjast handa við gluggasmíði fyrir nýju kirkjuna. Um sumarið hófst kirkjusmíðin sjálf.

Viðinn í kirkjuna pantaði Magnús árið 1902 og veturinn á eftir flutti hann timbrið, sem skipað var upp á Akureyri „fram eftir“ með aðstoð bænda úr sveitinni. Þá voru aldeilis ekki flutningabílarnir (Magnús flutti reyndar nokkrum árum síðar inn bíl, fyrstur manna á Norðurlandi, en það er önnur saga) heldur fluttu bændur efnið á hestakerrum og sleðum. Samdi hann við þá, að flutningurinn væri þeirra framlag til kirkjubyggingarinnar og miðaðist við efni og aðstæður hvers og eins. Það sem útaf stæði, félli á Magnús sjálfan. Mánuðum saman voru farnar 2-3 sleðaferðir fram og til baka milli Grundar og Akureyrar með trjávið og vörur til verslunar Magnúsar. Byggingameistari kirkjunnar var Ásmundur Bjarnason. Honum hafði Magnús kynnst rúmum áratug fyrr, er hann dvaldi í Danmörku, þar sem hann m.a. kynnti sér húsagerð þar ytra, og Ásmundur við nám í trésmíði. Ásmundur mun einnig hafa gert lokateikningu kirkjunnar en Sigtryggur Jónsson byggingameistari kom einnig að frumhönnun kirkjunnar. Að sjálfsögðu hafði Magnús sjálfur einnig hönd í bagga við hönnunarvinnuna. Aðrir smiðir sem komu að byggingunni, auk téðs Ásmundar, voru þeir Jónas Stefánsson, Pálmi Jósefsson, Þorsteinn Ágústsson og Maron Sölvason. Málun kirkjunnar, sem þótti gerð af miklu listfengi og natni, annaðist norskur málari, Fredrik M. Möller, en hann var sérmenntaður í skrautmálun og skreytingum húsa. Mögulega mun kirkjan að hluta eða í heild hafa komið tilsniðin til landsins. Margir hlutar timburverks eru nokkuð greinilega unnir í smíðavélum erlendis en langur byggingatími, 17 mánuðir, þykir benda til þess, að mestöll smíðin hafi farið fram á staðnum. Til samanburðar tók bygging stærstu timburhúsa Akureyrar, Menntaskólans (1904) og Samkomuhússins (1906) aðeins sex mánuði. Þá munu engin skjöl liggja fyrir, sem staðfesta með óyggjandi hætti innflutning á sérstaklega tilsniðnu efni (Sbr. Gunnar Bollason, Hjörleifur Stefánsson og Þóra Kristjánsdóttir 2007:78-79). Kostnaður við byggingu Grundarkirkju nam 21.907 krónum. Það hefur líklega litla þýðingu að reyna að snara þessari upphæð á núvirði en til samanburðar má nefna, að sumarið 1905, á byggingartíma Grundarkirkja auglýsir kaupmaður á Akureyri kaffi á 55 aura kílóið og púðursykur á 24 aura.  

Grundarkirkja var vígð við hátíðlega athöfn þann 12. nóvember 1905, með tilheyrandi ræðuhöldum, sálmasöng og veisluhöldum í boði staðarhaldara. Alls munu um 800 manns hafa sótt vígsluathöfnina, en þar þjónuðu fjórir prestar, sr. Geir Sæmundsson á Akureyri, sr. Jónas Jónasson á Hrafnagili, sr. Jakob Björnsson í Saurbæ auk séra Matthíasar Jochumssonar. Guðlaugur Ásmundsson, lengst af búsettur á Fremsta-Felli í Köldukinn, sótti hátíðina og sagði frá henni í Snarfara, handskrifuðu málgagni Lestrarfélags Kinnunga þ. 27. nóv. 1905, en frásögn hans birtist í Súlum tímariti árið 1981. Guðlaugur segir svo frá: Klukkan tólf var saman safnað á rennisléttum fleti suður undan kirkjudyrunum, því hún snýr út og suður; kváðu þá við hvell og há klukknahljóð, var þar samhringing og ekki hringt annað fyrir messu. Að hringingunni lokinni voru opnaðar afarstórar bogadyr á suðurgafli kirkjunnar og tók mannfjöldinn að streyma inn í forkirkjuna, sem mun rúma á að giska tvö hundruð manns (Guðlaugur Ásmundsson 1981:7).

Í frásögn sinni lýsir Guðlaugur turninum á einkar skemmtilegan hátt: Upp í hann [turninn] er gengið af lofti kirkjunnar eftir undnum stiga all-löngum, þegar hann þrýtur kemur maður á loft, og þar eru klukkurnar [...]. Þá gengur meðaur upp annan vindings-stiga, álíka langan og hinn og kemur þá á annað loft, síðan hið þriðja og þegar hann þrýtur getur maður gengið út úr turninum á fjóra vegu. Eru þar svalir umhverfis turninn sem rúma marga menn og er þar fagurt um að litast. Efri turninn: Þá er gengið upp beint rið upp að efri brún neðri turnsins; þá tekur við skrúfustigi [...] Getur maður séð sig um út úr honum en hvergi eru á honum svalir. Turninn er þá orðinn þröngur og erfiður uppgöngu. Enda reyndist mörgum það torsótt 12. nóvember [1905], þar sem annar eins manngrúi var saman kominn og allir eða flestir vildu skoða bygginguna. Dagaði víst marga uppi á svölum turnsins, því ekki var það heiglum hent að fara í mannþröng upp efri turnbygginguna (Guðlaugur Ásmundsson 1981: 11-12). Er rétt hægt að ímynda sér, að þarna hefur skapast hálfgert vandræðaástand og líklega eins gott, að ekki væru margir lofthræddir í mannþrönginni, sem „dagaði uppi á svölum turnins.“

Grundarkirkja er timburhús, kirkjuskipið 17,15mx9m að grunnfleti en forkirkja 5,05x5,22m. Séra Geir Sæmundsson, sem vísiteraði kirkjuna sumarið 1907 sagði hæð turns frá jörðu 38 álnir (Sbr. Gunnar, Hjörleifur og Þóra 2007:66) en það mun nærri 24 metrum. Tvær gluggaraðir eru á kirkjuskipinu og undir þeim samfelld vatnsbretti eða bönd. Gluggarnir eru bogadregnir og margskiptir og utan um miklir, skreyttir rammar. Á hvorri langhlið kirkjuskips eru alls 12 gluggar, sex í neðri röð og jafn margir í þeirri efri, en þeir eru smækkuð mynd neðri glugga. Tveir gluggar eru á bakhlið, hvor sínum megin við altaristöflu. Þá er einn gluggi af hvorri gerð á langhlið forkirkju. Á forkirkjunni eru vatnsbrettin miklu á „þremur hæðum“ og á framhlið eru tveir smáir gluggar ofan þriðja vatnsbrettisins. Neðsta vatnsbretti er þar bogalaga en yfir inngöngudyrum, sem ásamt allri framhliðinni, eru lítið eitt inndregnar, er bogalisti. Beggja vegna hans eru tveir smærri bogar, og standa þeir á sívölum súlum, sem væntanlega eru burðarsúlur fyrir forkirkjuna. Ofan á forkirkjunni er turnbyggingin sjálf, áttstrendur turn með lauklaga þaki á „tveimur hæðum“ og stendur efsti hluti turnspíru á átta súlum með bogadregnum „skeggjum“ á milli. Svalir eru ofan á þaki forkirkju allt í kringum turninn og eru á hornum þeirra fjórir smáturnar, með oddmjóum, sívölum spírum. Öll er forkirkjan prýdd hinu ýmsu skrauti og munstri sem greinarhöfundur kann ekki einu sinni að nefna. Á það einnig við um kirkjuna í heild, h.u.b. hvern einasta kant, lista, vatnsbretti, þakskegg eða vindskeið prýða munstur, kögur og útskurður svo kirkjan er í heild eitt stórt listaverk, samsett úr mörgum smærri listaverkum. Hvort heldur sem er að utan sem innan. Að innan er kirkjan nokkuð hefðbundin að gerð, bekkjaraðir beggja vegna miðgangs (13 vestan megin og 14 austan megin) upphækkaður kór og tvö skrúðherbergi beggja vegna hans. Altaristöfluna prýðir málverk sem sýnir upprisu Krists, eftir danska málarann Anker Lund, frá 1891. Látum staðar numið af lýsingu kirkjunnar hér en mjög ítarlega og nákvæma lýsingu á Grundarkirkju er að finna í 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands á blaðsíðum 70-76.

Í kaflanum í Kirkjum Íslands er viðhaldssaga kirkjunnar einnig rakin. Kirkjan var máluð að utan 1920, þakið málað 1932 og steyptur nýr reykháfur. Kirkjan var framan af hituð með tveimur kolaofnum en árið 1934 var þeim þriðja bætt við. Árið 1947 var sett í kirkjuna olíufýring og um svipað leyti (fyrir 1949) var hún máluð í heild sinni. Rafmagn var leitt í kirkjuna árið 1957. Árið 1967 var nefnt í visitasíu, að fúi væri kominn í undirstöður turnsins, afleiðing leka frá turnopinu. Þótti einsýnt, að þörf væri á umfangsmiklum viðgerðum á næstu árum. Árið 1977 var Grundarkirkja friðlýst og árin 1981-82 fóru fram á henni miklar endurbætur. Það segir sig sjálft, að svo stórt veglegt, og skrauti hlaðið timburhús hlýtur að vera býsna viðhaldsfrekt. En Grundarkirkja hefur væntanlega fengið allt nauðsynlegt viðhald síðustu árin, því hún virðist í afbragðs góðri hirðu.

Það er eflaust hægt að fullyrða, að Grundarkirkja sé með glæstustu og veglegustu kirkjum landsins og ber vitni um einstaka elju, stórhug og metnað byggjanda síns, Magnúsar Sigurðssonar. Er hún einkar mikil prýði á einstaklega fallegum stað, í hjarta Eyjafjarðar. Afstaða hennar til höfuðátta er einnig einstök og kenningar um, að við þá ákvörðum hafi verið tekið mið af landslaginu, dalnum og fjöllunum (Gunnar, Hjörleifur og Þóra 2007:77) en Eyjafjörður liggur frá norðri til suðurs. Hefur Grundarkirkja verið einstakt stórvirki eins manns á sínum tíma og líklega verið ein af hæstu byggingum landsins (ef ekki sú hæsta) árið 1905. Turn kirkjunnar mun um 24 metra hár og til samanburðar má nefna, að turnar Akureyrarkirkju, sem reist er 35 árum síðar, eru aðeins um fjórum metrum hærri. Kannski fer þannig einkar vel á því, að hið hátimbraða guðshús standi við fótskör hæsta fjalls Norðurlands, hinnar 1538m háu Kerlingar. Grundarkirkja var friðlýst skv. Þjóðminjalögum árið 1978 og skv. aldursákvæði árið 1990.

Myndirnar af Grundarkirkju eru teknar 20. maí 2022 en myndin, þar sem séð er heim að Grund er tekin 14. maí 2021. Myndin af Kerlingu er tekin 11. ágúst 2021.

Heimildir:

Guðlaugur Ásmundsson. 1981. [1905]. Grundarkirkja og vígsluhátíðin þar 12. nóvember 1905. Í Súlur Norðlenskt tímarit 21-22. tbl. bls. 6-15.

Gunnar Bollason, Hjörleifur Stefánsson, Þóra Kristjánsdóttir. 2007. Grundarkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 55-107. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofa, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00