Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Grund II (eldra íbúðarhúsið á Grund)

Um miðja 19. öld átti heima á Öxnafelli í Saurbæjarhreppi ungur drengur, hjá afa sínum og ömmu, Magnúsi Árnasyni, þá hreppstjóra og konu hans Hólmfríði Jónsdóttur. Drengurinn var mjög áhugasamur um búskap afa síns, sem þótti sérlega hagsýnn búmaður, vandvirkur og nákvæmur. Drengurinn horfði oftar en ekki hugfanginn yfir Eyjafjarðarána á Kerlingu og hið forna höfuðból, Grund og hinar miklu lendur þess undir hæsta tindi Norðurlands. Hann hreifst af þessari stórjörð og kostum hennar. Það vakti athygli stráks, að á meðan jörð er alhvít á Öxnafelli sér ævinlega í jörð á Grundarlandi. (Gömul saga og ný, um grænna gras hinu megin). Átta ára gamall sagði drengurinn við afa sinn: „Ég ætla að kaupa Grund, þegar ég er orðin stór“ (Sbr. Gunnar M. Magnúss 1972:11). Það er skemmst frá því að segja að drengurinn stóð ekki bara við þessi orð, heldur reisti á Grund einhverjar veglegustu byggingar sveitarinnar á sinni tíð, bjó þar stórbúi og stundaði umsvifamikinn verslunarrekstur. En drengur þessi var auðvitað Magnús Sigurðsson (1847-1925) sem jafnan var kenndur við Grund.

Elst þeirra bygginga, sem standa á Grund, er eldra íbúðarhúsið, Grund II, en það reisti Magnús Sigurðsson sem íbúðar- og verslunarhús. Stendur það skammt suður og vestur af kirkjunni, um 170 metra austur af Eyjafjarðarbraut vestri. Húsið er 130 ára á þessu ári, fullbyggt árið 1893. Húsið er tvílyft timburhús á steinhlöðnum kjallara. Sunnarlega á vesturhlið er smár inngönguskúr („bíslag“) og timburverönd meðfram austurhlið. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak og þverpóstar í flestum gluggum. Grunnflötur hússins er nærri 10x17m og inngönguskúr um 2x2m (ónákvæm mæling af loftmyndum map.is). Tvær íbúðir eru í húsinu, önnur á neðri hæð og hin á efri hæð og risi.

Frá því að Magnús Sigurðsson kom að Grund árið 1873 vakti alla tíð fyrir honum, að byggja staðinn upp, en jörðin hafði verið í fremur bágu ástandi. Auk mikilla jarðarbóta endurnýjaði hann húsakostinn svo um munaði. Árið 1883 byggði hann við gamla bæinn, sem var hefðbundinn torfbær, hafði þar smíðaverkstæði í viðbyggingunni. Magnús hafði frá unga aldri stundað ýmis viðskipti m.a. fengist við smíðavinnu fyrir bændur og búalið gegn greiðslum í peningum, búfé eða afurðum. Það var síðan árið 1885 að hann hóf skipulagðan verslunarrekstur í hinum nýju húsakynnum en fljótlega fór að þrengja að. Haustið 1890 hélt Magnús til Danmerkur og hugðist m.a. kynna sér það nýjasta í búskap, verslunarháttum, húsbyggingum auk þess að afla sér viðskiptamanna því hann hugði á útflutning og innflutning. (Í þessari dvöl hitti Magnús ungan íslenskan húsasmíðanema, Ásmund Stefánsson, sem síðar stýrði byggingu Grundarkirkju Magnúsar). Magnús var mikill áhugamaður um hvers kyns framfaramál og bættur húsakostur landsmanna var þar á meðal. Og það var einmitt í þessari Danmerkurdvöl „[...] að nokkru fyrir jól [1890] pantaði Magnús tiltelgda grind í stórhýsi, sem hann ætlaði að reisa á Grund strax á næsta ári. Skyldi grindin og annað timbur í húsið sendast með vorskipum til Íslands“ (Gunnar M. Magnússon 1972:154). Af þessu má ráða, að grind hússins hafi komið tilsniðin til landsins frá Danmörku og hún hafi borist til landsins 1891.

Það mun hafa verið vorið og sumarið 1891 að Magnús hóf undirbúning byggingaframkvæmda, uppgröft og niðurrif eldri bygginga. Kjallari hússins var hlaðinn úr steini og nokkuð djúpur, miðað við það sem tíðkaðist almennt. Á kreik komst sú þjóðsaga, að við þessar framkvæmdir hafi Magnús komið niður á kistil, fullan af gulli og gersemum. Eins og gefur að skilja var ekkert hæft í því, en ekkert útilokað að ýmsar leifar frá fyrri tíð hafi komið upp, þó ekki hafi verið um fjársjóð að ræða. Fullbyggt var húsið árið 1893 og var þá vafalítið stærsta timburhús í hreppunum framan Akureyrar. Það var raunar á pari við stærstu og veglegustu hús á Akureyri enda stóð Magnús á Grund athafnamönnum kaupstaðarins hvergi á sporði. Í ævisögu Magnúsar, eftir Gunnar M. Magnús, er svo sagt frá:

Þetta var stórt og snoturt hús, 24x14 álnir [u.þ.b.15x9m] að stærð, tvær stofuhæðir og rishæð. Á neðri stofuhæð hafði Magnús verslun sína. Eldhús var í suðvesturhorni á sömu hæð, og gestastofa að suðaustan. Á efri hæð voru svefnherbergi fólksins. Þar var líka skrifstofa verslunarinnar og í suðvesturhorni góð stofa, kölluð Jónínuherbergi. Að vestanverðu á hæðinni var stór stofa, sem notuð var til fundahalda í sveitinni. Þar fóru fram hreppaskil og manntalsþing. Þar kom og heimilisfólki stundum saman til að skemmta sér. Á þessari hæð var löng stofa að austanverðu, er kölluð var baðstofa. Þar hélt vinnufólkið til á kvöldin og þar sváfu vinnukonurnar. En vestur af uppgöngunni, sunnan við uppgönguna, var lítið herbergi, þar sem vinnumennirnir sváfu. Herbergi þeirra var nefnt Hrútakofinn. Í portbyggðri rishæð bjó venjulega húsfólk (Gunnar M. Magnúss 1972: 157).

Þarna má sjá, að verslunar- og íbúðarhúsið var einnig hálfgert „ráðhús“ hreppsins og félagsheimili, sbr. vesturstofan á efri hæðinni, sem notuð var til fundahalda í sveitinni, hreppaskila og manntalsþinga. Árið 1899 bauð Magnús hreppsnefnd Hrafnagilshrepps, sem var á hálfgerðum hrakhólum, afnot af húsakosti sínum og það til næstu 50 ára! Um leið komu upp hugmyndir um byggingu sérstaks þinghúss, enda hefur það varla verið stefna hreppsnefndar að vera inni á gafli hjá Magnúsi eða afkomendum hans til eilífðarnóns. Það leið þó á löngu áður en Þinghúsið á Hrafnagili reis af grunni, en það var árið 1925.

Verslun Magnúsar var að miklu leyti sambærileg, hvað varðaði vöruúrval og verð, við helstu verslanir kaupstaða og þótti jafnvel bera af þeim, hvað snyrtimennsku og frágang vara varðaði. Grundarverslun hefur í raun verið einstakt fyrirbæri, það var örugglega ekki algengt að slík verslun væri staðsett í sveit og raunar enn þann dag í dag. Miðað við umsvif og vöruúrval verslunar, var þetta e.t.v. svipað og ef fullburðug Bónus eða Krónuverslun væri staðsett í miðju landbúnaðarhéraði, 20 km frá kaupstað. Magnús lagði einnig áherslu á viðskipti við bændur, sem lögðu inn hjá honum kjöt og afurðir gegn úttektum. Margir bændur í Saurbæjarhreppi skiptu nánast eingöngu við Magnús. Þessum umsvifum fylgdi auðvitað mikill flutningur til og frá kaupstaðnum og þar auðvitað notast við hestakerrur og sleða á vetrum. Vegna þessara flutninga flutti Magnús inn bíl, annar manna á Íslandi og fyrstur manna á Norðurlandi, árið 1907. Hann reyndist hins vegar illa, of þungur og kraftlítill, erfitt að útvega varahluti og reyndist raunar verr, ef eitthvað var, heldur en kerrur og sleðar. Þess vegna var Grundarbíllinn ekki í þjónustu Magnúsar nema í hálft annað ár. Þá munaði í raun ekki miklu, að Grundarhúsin hefðu orðið fyrstu raflýstu húsin á Norðurlandi. Rafljós voru fyrst kveikt á Íslandi árið 1904, í Hafnarfirði, og um svipað leyti hafði Magnús samband við Jakob nokkurn Gunnlaugsson í Kaupmannahöfn. Skyldi hann leita tilboða til vátrygginga fyrir húsakost staðarins og auk þess, í raflýsingu á nýju kirkjunni og íbúðarhúsinu. Einhverra hluta vegna varð hvorki af tryggingunni né rafvæðingunni (Gunnar M. Magnúss 1972:228). Hvers vegna fylgir þó ekki sögunni, mögulega hefur Magnúsi ekki þótt tilboðið hagstætt. (Hvort Magnús hefði fjárfest í rafmagnsbíl, skal hins vegar ósagt látið hér). Auk þess að standa fyrir stórbúskap og verslun rak Magnús einnig skóla á Grund, á eigin kostnað, í tæpa tvo áratugi, frá 1889 til 1907 en eftir það tók við farkennsla, skv. Fræðslulögum frá 1907. Lengst af annaðist Árni Hólm Magnússon, frændi Magnúsar, kennsluna en Ingimar Eydal, síðar ritstjóri Dags og skólastjóri kom einnig að Grundarskóla síðar.

Magnús var kvæntur Guðrúnu Þóreyju Sigurðardóttur frá Gilsbakka. Bjuggu þau á Grund frá árinu 1874 til æviloka beggja, hún lést árið 1918 en hann árið 1925. Magnús kvæntist árið 1924 ráðskonu sinni, Margréti Sigurðardóttur, sem var eigandi hússins árið 1933, þegar það var metið til brunabótamats. Þar eru húsinu lýst svo: Íbúðarhús úr timbri, járnklætt, tvær hæðir á hlöðnum kjallara, 17x8,5m að grunnfleti og 7,5m hátt. Á stofuhæð voru sex herbergi og geymsla og tvær forstofur. Á efri hæð sjö herbergi, geymsla og gangur og í risi fimm hólf. Kjallari er sagður með steingólfi, með fjórum hólfum. Húsið er kynt með miðstöðvarkatli og steinolía til ljósa (munum, að ekkert varð af mögulegri raflýsingu Grundar tæpum 30 árum fyrr). Þá eru einnig á staðnum hlóðaeldhús og gömul baðstofa, byggingar úr torfi og grjóti að mestu, árið 1933 (Sbr. Brunabótafélag Íslands 1933:nr. 25).

Árið 1910 hafði risið nýtt og veglegt hús á Grund, sem verður umfjöllunarefni næstu greinar, en afkomendur Magnúsar og Guðrúnar bjuggu áfram í þessu húsi. Aðalsteinn, sonur þeirra, og kona hans, Rósa Pálsdóttir voru búsett hér 1916 til 1920, en Aðalsteinn lést árið 1919, aðeins þrítugur að aldri. Þá eru systir hans, Valgerður Magnúsdóttir og hennar maður Hólmgeir Þorsteinsson sögð eigendur og ábúendur hér 1923- 1929 samhliða bræðrunum Þórhalli og Valdemar Antonssonum frá Finnastöðum, en þeir eru skráðir hér 1920-35, sá síðarnefndi milli 1920 og 23. Magnús Aðalsteinsson, sonarsonur Magnúsar og Guðrúnar er skráður ábúendi hér til ársins 1948 en þá var jörðinni skipt. Norðurhluti jarðarinnar, að mestu leyti, varð þá Grund II og taldist eldra íbúðarhús tilheyra þeirri jörð. Þá fluttust hingað þau Snæbjörn Sigurðsson frá Garðsá og Pálína Jónsdóttir frá Hrísey (Sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon 1993:768-769). Þau voru búsett hér þegar byggða- og ábúendasaga Eyjafjarðar, Byggðir Eyjafjarðar, var tekin saman árið 1970. Þá er íbúðarhúsið sagt 800 rúmmetrar, fjós fyrir 60 kýr, fjárhús fyrir 150 fjár og hlöður fyrir allt að 3000 hesta, auk votheysturns, véla- og áhaldahúss. Túnstærð er sögð 60,41 hektarar og töðufengur 2800 hestar. Af bústofni er daprara að segja, en hann er enginn, vegna niðurskurðar árið 1967 (Sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson 1973:285). Árið 1990 hefur húsinu formlega verið skipt í tvær íbúðir, II og IIa Það er fulllangt mál, að telja upp alla ábúendur Grundar hér, en ábúendatöl liggja fyrir í fyrrgreindum bókum. Þá eru eigendur þau Gunnar Egilson flugumferðarstjóri og Auður Birna Kjartansdóttir. Þá taldi bústofninn 18 hross og geldneytapláss í nýju fjósi (b. 1986) nýtt undir þau. Ræktað land var þá 23,8 hektarar. Land Grundar II var hins vegar að mestu í eigu ábúenda Grundar I (Sbr. Guðmundur, Jóhannes og Kristján 1993:768-769). Árið 2010 eru Gunnar og Auður búsett hér og eigandi ásamt þeim, og ábúandi, sonur þeirra Þorsteinn Egilson. Telur þá bústofninn 29 hross og 10 sauðkindur (Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:434).

Gamla íbúðarhúsið á Grund er sérlega reisulegt og glæst hús og í góðri hirðu, á húsinu er m.a. nýlegt þakjárn. Það er til mikillar prýði í fallegu umhverfi í grænu og búsældarlegu héraði og mynda íbúðarhúsin tvö skemmtilega heild ásamt kirkjunni miklu. Húsið er að sjálfsögðu aldursfriðað, eins og allar byggingar byggðar fyrir 1923. Þá hlýtur menningarlegt varðveislugildi hússins að vera verulegt í ljósi sögu staðarins, hvort sem er frá upphafi vega eða umsvifa Magnúsar Sigurðssonar. Húsið hefur í grófum dráttum haldið upprunalegu útliti sínu að ytra byrði. Að morgni 9. júní las greinarhöfundur á Facebook-hópnum Gömul hús á Íslandi að nú væri kominn nýr áhugasamur eigandi sem hyggði á endurbætur, m.a. lagfæra glugga og annað slíkt. Það verður fróðlegt að sjá þann afrakstur og rétt að óska nýjum eigendum til hamingju og góðs gengis. Verða þær endurbætur eflaust til að auka enn á prýði og virðuleika stórhýsis Magnúsar Sigurðssonar frá 1893, sem er svo sannarlega ein af perlum Eyjafjarðarsveitar. Meðfylgjandi myndir eru teknar 14. maí 2021, 20. maí 2022 og 15. apríl 2023.

Heimildir:

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveit.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Gunnar M. Magnúss. 1972. Dagar Magnúsar á Grund. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00