Fara í efni
Pistlar

Heiminum er stjórnað af vondu fólki

Ég og vinur minn vorum oft í spurningakeppni þegar við vorum guttar. Höfuðborgir var oftast þemað. Hann var sérfræðingur í Suður-Ameríku og ég í Asíu. Sú spurning sem gaf mér flest stig var hver væri höfuðborgin í Afganistan, það stóð ánægjulega lengi í vini mínum. Afganistan var mér góður bandamaður í þessum keppnum og mér þótti því vænt um landið. Ég reyndi að afla mér þekkingar um landið en hún var ekki auðfengin upp úr miðri síðustu öld. En áhuginn á landinu hvarf ekki.

Löngu seinna komst landið í heimsfréttirnar þegar það varð leikvangur stríðsrekstur morðóðra heimsvelda, fyrst Sovétríkjanna 1979 og síðan Bandaríkjanna og þeirra aumu fylgifiska 2001 og alla tíð síðan. Ég fylgdist með fréttum en veit nú að á þeim var lítið mark takandi.

Hér í Svíþjóð eru margir flóttamenn. Meðal þeirra eru piltar sem komu hingað frá Afganistan sem börn að aldri. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa komið hingað einir, án fjölskyldu enda var búið að myrða fjölskyldur margra þeirra. Í byrjun tók kerfið vel á móti þeim, þeir fengu að byrja í skóla og komið var upp sambýlum fyrir þá. Margir þeirra höfðu aldrei gengið í skóla. Það vakti aðdáun kennara hversu duglegir þessir drengir voru, á ótrúlega stuttum tíma lærðu þeir ekki bara sænsku, heldur aðrar námsgreinar líka og komust inn í menntaskóla.

Svo breytti kerfið um kúrs. Þessir drengir voru ekki velkomnir lengur, það átti að senda þá til baka til Afganistan þar sem að kerfið taldi landið vera öruggt. Þeir sem vissu hversu mikið þessir drengir höfðu lagt á sig mótmæltu harðlega. Kerfið bakkaði aðeins, þeir máttu ljúka námi og ef þeim tækist að fá fastráðningu strax að loknu námi máttu þeir búa hér áfram, annars ekki. Öll aðstoð var síðan felld niður, sambýlunum var lokað. Eftir stóðu piltar á aldrinum 16-19 ára sem bjuggu á götunni.

Sem betur fer er til gott fólk. Í flestum bæjum þar sem þessir piltar bjuggu mynduðust hópar sjálfboðaliða sem tóku þessa drengi að sér, útveguðu þeim húsnæði, húsbúnað og föt. Inga mín var ein af þessum sjálfboðaliðum. Heimili okkar breyttist oft í kennslustofu er Inga mín var að hjálpa þessum strákum með lærdóminn og nokkra tók Inga mín nánast í fóstur.

Fyrir mig var þetta kærkomið tækifæri að læra meira um þetta land sem hafði vakið forvitni mína fyrir næstum hálfri öld síðan. Að spjalla við þessa stráka fyllti mig auðmýkt og aðdáun, það sem þeir höfðu gengið í gegnum er hroðalegt. Samt voru þeir prúðir og þakklátir fyrir alla aðstoð sem þeir fengu.

Að fá fastráðningu strax að loknu námi er ekki auðvelt fyrir innfædda, hvað þá flóttafólk. Örlög margra þessara drengja voru því að vera sendir til baka til Afganistan. Síðasti hópurinn var sendur aðeins viku áður en talibanar tóku öll völd í landinu.

Heiminum er stjórnað af vondu fólki.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30