Fara í efni
Pistlar

Gott var að vera gamall árið 2020

Ég held að árið 2020 hafi verið eitt það besta í lífi barna og eldri borgara þessa lands, að minnsta kosti það sem af er þessari öld. Hér er ég að sjálfsögðu að tala almennt um aðstæður fólks vitandi að inn á milli er fólk að fást við óbærilega sorg og erfiðar aðstæður og því á þessi pistill ekki við um það. Hér er sumsé talað á almennum nótum. Og sé talað á almennum nótum er það skoðun mín að árið sem er að líða og ýmsir vilja líkja við árið 1918 hvað angist og hörmungar varðar hafi verið eitt það allra besta í langan tíma, sérstaklega í lífi barna og eldri borgara þessa lands. Svo langt sem ég persónulega man, sem eru tæplega fjörutíu ár hefur íslensku samfélagi aldrei verið eins umhugað um velferð eldra fólks eins og á þessu ári, 2020. Síðustu áratugi hefur hin opinbera umræða varðandi gamalmenni Íslands helst snúið að skorti á hjúkrunarrýmum og löngum biðlistum inn á viðeigandi stofnanir. Þess utan hefur kannski komið ein og ein frétt um einhvern sem náð hefur hundrað ára aldri þar sem Magnús Hlynur fréttamaður hefur kvatt dyra og innt viðkomandi eftir ástæðum langlífis og svo verið etin vel skreytt marsípanterta, myndavélin beinst aftur að fréttaþul sem brosir yfir heyrnarleysi eða hreinskilni afmælisbarnsins og loks hafa íþróttafréttir, sem eru jafnan þær mikilvægustu, tekið við.

Nú er svo komið reyndar að hundrað ára afmæli eru ekki lengur fréttaefni þökk sé vísindunum sem munu brátt gera hundrað ára aldur að viðmiði fremur en undantekningu í okkar samfélagi. Dag einn verða eldri borgarar stærstur hluti landsmanna.

Árið 2020, fyrir tilstuðlan Covid 19 hafa eldri borgarar landsins verið ofarlega í huga þjóðarinnar vegna þess að veirufjandinn er þannig byggður að hann ógnar mest lífi eldra fólks. Af þeim sökum höfum við í fyrsta lagi þurft að vernda þann hóp sérstaklega vel og af því hefur hlotist sú merkilega uppgötvun að gamalt fólk á Íslandi hafi þörf fyrir að vera með fólkinu sínu og hitta aðrar manneskjur.

Ég átti föður sem alla tíð bar ómælda virðingu fyrir öldruðu fólki og ég vona og held að hann hafi skilað þeirri virðingu til okkar afkomenda sinna. Ég er alin upp við að öll jól kom ömmusystir mín fædd 1906 til okkar í sveitina og dvaldi fram yfir áramót. Við tvær höfðum herbergi saman nokkur jól, það var mér dýrmætt. Frænka var af þeirri kynslóð sem notaði náttgagn og klæddist morgunkjól, miðdegis- og kvöldkjól. Hún var einstök og mikil manneskja og þótt pabbi nennti ekkert alltaf að ræða ættfræði við hana (þó mjög oft) fann ég hvað hann virti hana mikils og þótti vænt um hana enda hafði hún umvafið hann kærleika þegar hann lítill drengur missti barnungan bróður og afi og amma voru í öngum sínum af sorg.

Nei, foreldrar mínir skoruðust aldrei undan því að hýsa eldri borgarana í fjölskyldunni og sýna þeim sóma. Ég þakka þeim það í uppeldinu.

Í prestsskapnum hitti ég oft mjög einmana eldra fólk. Ég er ekki viss um að það hafi verið eitthvað meira einmana eða einangraðra á þessu ári. Raunar held ég að það hvernig samfélagið neyddist veirunnar vegna, til að sjá gamalt fólk og nema þarfir þess hafi rofið djúpstæða einsemd margra. Einsemd er ekki alltaf hið áþreifanlega, miklu fremur er það sinnuleysið eða áhugaleysið sem manneskjan finnur að er fyrir hendi. Einsemd snýst á svo margan hátt um ósýnileika.

Ég held líka að árið 2020 hafi verið nokkuð gott ár í lífi barna, svona almennt séð. Samfélög sem sjá illa gamalt fólk hafa nefnilega tilhneigingu til að hundsa um leið þarfir barna, það helst oft í hendur við lífsgæðakapphlaup sem hefur ekki mikið þol fyrir þjóðfélagshópum sem þarfnast umönnunar. Börn og gamalmenni þurfa oft meiri tíma og natni en við sem erum á hlaupaskónum og þau draga úr hraðanum og það finnst okkur oft fjandi pirrandi. Ég hef sko rekið mig harkalega á þetta sem móðir á þessu ári. Þökk sé veikindum mínum og sjúkraleyfi settist ég í fyrsta skipti á 18 ára lífsgöngu sonar míns niður með honum til að styðja við hann í námi. Fram til þessa hef ég einatt skýlt mér á bak við mikilvægi starfs míns og talið það hlutverk skólans að koma honum til mennta. Ég viðurkenni að þetta er þáttur sem ég hef algjörlega vanrækt og á skömm fyrir. Ég get ekkert annað sagt. Um leið og hann þakkaði mér aftur og aftur fyrir að sitja með sér og lesa sögu og heimspeki og ræða innihaldið fylltist hjarta mitt af meiri og meiri sektarkennd. Andskoti getur lífið tuktað mann til. Ég kann því bestu þakkir fyrir.

Árið 2020 var skrýtið ár, um það verður varla deilt, en að það sé hið versta sem hinn almenni borgari hefur lifað og hvað þá börnin okkar og heldri borgararnir... Nei, ég held ekki. Förum upplýstari inn í árið 2021, varðandi mannlegar þarfir og sýnileika þeirra sem þurfa umönnun og stuðning.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00