Fara í efni
Pistlar

Fótbolti er liðsíþrótt – fær góða þjónustu

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, afhendir Söndru Marí blóm fyrr í sumar sem viðurkenningarvott um 100 mörk skoruð í efstu deild. Mynd: Þórir Tryggva.

Sandra María Jessen hefur borið höfuð og herðar yfir aðra leikmenn Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í markaskorun á yfirstandandi tímabili. Ekki aðeins setur hún félagsmet hjá Þór/KA með hverju marki sem hún skorar í efstu deild, en þau eru núna orðin 109, heldur bætti hún einnig sinn eigin besta árangur á einu tímabili með mörkunum tveimur gegn Fylki í gær. Mörkin voru líka einstaklega snyrtileg og sýndu vel þau gæði sem hún býr yfir. Það er ekki tilviljun að hún hefur skorað 20 mörk í 18 leikjum í sumar.


Sandra María Jessen í baráttu við leikmann Fylkis í fyrri leik liðanna í sumar. Fyrir leikinn í gær var Fylkir eina liðið sem hún hafði ekki skorað hjá í deildinni í sumar. Mynd: Þórir Tryggva.

Þegar betur er að gáð skjóta áhugaverðir punktar upp kollinum: 

  • Fyrra markið gegn Fylki í gær var hennar 19. mark í deildinni í sumar og þar með bætti hún sinn besta árangur í deildinni, en hún hafði áður skorað mest 18 mörk í 18 leikjum á einu tímabili. Það gerði hún sumarið 2012 þegar Þór/KA vann Íslandsmeistaratitilinn.
  • Með seinna markinu í gær fór hún í 20 mörk, eða jafn mörg mörk og tvær þær næstu á markalistanum, Jordyn Rhodes í Tindastóli og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir í Breiðabliki, samanlagt, en þær hafa skorað tíu mörk hvor.
  • Í leikjunum 18 skoraði Þór/KA 40 mörk. Sandra María skoraði því nákvæmlega helming marka liðsins.
  • Með mörkunum gegn Fylki í dag náði Sandra María að skora hjá öllum liðum deildarinnar í sumar.
  • Mörkin 20 skoraði hún í 12 leikjum. Einu sinni skoraði hún fjögur mörk í leik, einu sinni þrjú og þrisvar sinnum tvö mörk.

Umkringd hæfileikaríkum leikmönnum 

Sandra María hefur verið mikið í umræðunni og fengið ófáar fyrirsagnirnar í sumar, en í spjalli við tíðindamann Akureyri.net benti hún hins vegar á þá augljósu staðreynd að fótbolti er liðsíþrótt, hún væri með góða leikmenn í kringum sig og það hefði mikla þýðingu.

„Ég er rosalega stolt af að hafa náð að bæta mitt eigið met í markafjölda á tímabili, sem var fyrir þetta tímabil 18 mörk, en er núna 20 mörk. En eins og allir vita þá er fótbolti liðsíþrótt og maður væri ekki að skora nema af því að maður er umkringdur hæfileikaríkum leikmönnum og fær mjög góða þjónustu frá þeim. Mitt framlag til liðsins er í formi marka á meðan aðrir eru að gera aðra hluti sem kannski fá minna lof og minni athygli en þeir ættu að fá, en auðvitað er rosalega gaman að ná inn 20 mörkum og ég er mjög stolt af því,“ segir Sandra María.


Sandra María og liðsfélagar hennar fagna marki á móti Val. Mynd: Þórir Tryggva.

Mikið hefur verið rætt um Huldu Ósk Jónsdóttur og það sem hún skapar af tækifærum og mörkum þegar hún tætir í sig leikmenn á hægri kantinum. Á meðan Sandra María raðar inn mörkum hleður liðsfélagi hennar á hinum kantinum reglulega í stoðsendingar og skapar færi fyrir sjálfa sig og aðrar í liðinu. Þær ku vera orðnar níu, stoðsendingar Huldu Óskar í Bestu deildinni í sumar, þar af átti hún í einum leiknum fjórar stoðsendingar og voru þrjár þeirra á Söndru Maríu. 

Bæting frá því í fyrra

Sandra segir markmiðin fyrir tímabilið hafa verið skýr. „Ef maður horfir yfir tímabilið þá var skýrt markmið að enda ofar í töflunni en við gerðum í fyrra og eins og staðan er núna þá tekst okkur það. Ef maður horfir nokkur ár til baka þá er ekki langt síðan við vorum að berjast fyrir því að halda okkur í deildinni,“ segir Sandra María. Liðið var í 6. sæti að loknum 18 umferðum í fyrra, í fyrsta skipti sem núverandi form með tvískiptingu deildarinnar var notað, en vann sig upp í 5. sætið á lokasprettinum í efri hlutanum.

„Þannig að þróunin er í rétta átt og jákvæð. Við erum að bæta okkur, leikmenn er að fá mikla reynslu og ótrúleg gæði í þessum flotta hóp sem við erum með. Það er alveg ástæða fyrir því að við teljum okkur vera eitt af bestu liðum landsins og jafnvel pínulítil vonbrigði að vera ekki enn meira í toppbaráttunni. Við hefðum klárlega viljað stríða efstu liðunum, Val og Breiðablik, aðeins meira,“ segir Sandra og minnir á að Þór/KA á enn eftir tvo leiki á móti toppliðunum og stelpurnar séu staðráðnar í að stríða þeim og ná í einhver stig þar. 


Í leik gegn Val í sumar. Söndru Maríu og liðsfélagana langar að setja strik í reikning annars eða beggja toppliðanna í deildinni í þeim leikjum sem eftir eru. Mynd: Þórir Tryggva.

„Heilt yfir er margt jákvætt við þetta tímabil, en líka hellingur sem er hægt að læra af og líka hægt að gera enn betur. Við byrjum strax á því núna, í efri hlutanum í keppninni. Það verður spennandi að sjá og ég er mjög spennt. Það eru miklar væntingar og ég hef mikla trú á liðinu,“ segir Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA.

Hefur skorað 38 mörk á árinu

Í lauslegri samantekt yfir markaskorun og stoðsendingar Söndru Maríu í KSÍ-mótum (Lengjubikar, Besta deildin, Mjólkurbikar) sem Þór/KA hefur tekið þátt í árinu er hún samtals komin með 31 mark og tíu stoðsendingar í 27 leikjum. Ef Kjarnafæðimótið, sem ekki er viðurkennt af KSÍ, er talið með eru mörkin 38 og stoðsendingarnar 11. Skiptingin er eftirfarandi eftir keppnum:

  • Besta deildin (fyrir skiptingu)
    18 leikir
    20 mörk
    3 stoðsendingar
  • Mjólkurbikarinn
    3 leikir
    2 mörk
    2 stoðsendingar
  • Lengjubikarinn
    6 leikir
    9 mörk
    5 stoðsendingar
  • Kjarnafæðimótið: 
    7 leikir
    6 mörk
    1 stoðsending

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Hús dagsins: Aðalstræti 22

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. október 2024 | kl. 06:00

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30