Fara í efni
Pistlar

Fóa og Fóa feykirófa

Á sunnudaginn frumsýndu Umskiptingar leikrit í brúðuleikhússeríunni um Töfrabækurnar þar sem unnið er með þjóðsögur. Nú var komið að sögunni um þær Fóu og Fóu feykirófu.

Sagan fjallar um yfirgang og græðgi, frekju og hrútskýringar. Mig langar að segja að bara sagan sem slík eigi fullt erindi í íslenskt samfélag.

Sagan fjallar um það þegar Fóa feykirófa rekur Fóu úr hlýja, fallega hellinum sínum og sest þar sjálf að. Fóa veit ekki hvað skal til bragðs taka en vinir hennar, lambið, kindin, sauðurinn og hrúturinn bjóða öll fram hjálp sína að ná honum til baka. Það gengur þó ekki áfallalaust fyrir sig eins og gera má ráð fyrir í ævintýri.

Margrét Sverrisdóttir og María Pálsdóttir stjórna brúðum, sjá um allan leik og lifandi tónlistarflutning en Margrét sér jafnframt um gerð leikmyndar og brúðugerð.

Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason eru höfundar tónlistar og framleiðandi er Jenný Lára Arnórsdóttir.

Leikstjóri sýningarinnar er Fanney Valsdóttir en hún sá jafnframt um gerð búninga. Henni tekst vel til eins og þeim öllum. Og ef markmiðið er að skapa sýningu sem er fyrir yngstu kynslóðina, þar sem fullorðnir geta skemmt sér líka, komið á framfæri góðum boðskap og bara heilt yfir góðri stund, þá tekst það fullkomlega.

Undirritaður fór ásamt afastelpunni Bríeti Söru fjögurra ára á Möðruvelli til að sjá Fóurnar. Þegar við mættum taka brosandi leikarar á móti okkur en fljótlega fóru endurnar á staðnum að stela athygli okkar. Já, það eru endur sem voru á röltinu skammt frá Leikhúsinu á Möðruvöllum og gera góða stemningnu. Svo kom að því að fara upp á loftið og sýningin byrjar. Bríet Sara sat í fanginu hjá afa og í allri nálægðinni varð hún örlítið feimin en skemmti sér vel. Þær María, Margrét, Fóurnar og svo sauðféð sem kemur við sögu náðu að fanga athygli hennar og sýnilega annarra barna.

Lengd sýningarinnar er hárrétt, rýmið er reyndar alveg hárrétt líka og öll framsetning vel heppnuð. Háftíma sýning sem fangar athygli í stuttan tíma, ekkert myrkur eða ljósaskraut og enginn hávaði er fyrirtaks fyrsta leikhúsupplifun fyrir yngstu börnin.

Töfrabækurnar, Fóa og Fóa feykirófa er góð skemmtun fyrir fjölskylduna. Þetta er fullkomin sunnudagsrúntur og ætti enginn að láta þetta fram hjá sér fara. Ég og Bríet Sara vorum sammála um að þetta hefði verið gaman, að það væri mikilvægt að sýna kurteisi og vera ekki svona frekur eins og Fóa feykirófa. Það væri líka mikilvægt að fyrirgefa eins og Fóa gerði.

Það sem kemur á óvart í sýningunni: Afinn hafði miklu meira gaman af sýningunni en hann gerði ráð fyrir. Manni hættir til að áætla að það sem er fyrir börnin sé alls ekki fyrir okkur. Svo er ekki þarna. Mig grunar að það sé hugsað fyrir því með smellnum orðaleikjum og örlitlum svörtum húmor sem er samt lágstemmdur og læðist mjúklega inn á milli. Svo er tónlistin grípandi og heilmikið gleðiefni.

Sýningin verður á sunnudögum í október og byrjun nóvember. Mælum við hiklaust með því að sjá þær Fóu og Fóu feykirófu hjá Umskiptingum.

Pétur Guðjónsson er afi og áhugamaður um leiklist

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00