Fara í efni
Pistlar

Fjögur gullfalleg augu

Öll eigum við slæma daga og góða. Sum okkar þurfa að berjast stöðugt við að gera dagana góða, það kemur ekki af sjálfu sér, upphafspunkturinn er alltaf langt neðan við frostmark á gleðiskalanum. Þetta venst, lífið er ekki einfalt, maður bara tekst á við þetta, æfingin skapar meistarann. Hjá mér er mikilvægt að einbeita mér að því að finna fegurðina, með henni kemur jákvæðnin. Það tók mig hálfa öld að finna þessa aðferð, harkan og reiðin réði ríkjum fram að því.

Stundum koma dagar þar sem að þetta gengur ekki sem best, þá er maður í besta falli óþolandi, það er ekki gaman fyrir þá sem verða á vegi manns. Leitin að fegurðinni er þá mikilvægari en nokkru sinni, maður verður að vera á tánum og grípa hvert tækifæri sem gefst.

Í síðustu viku vaknaði ég sérlega reiður einn daginn. Dreif mig beint í ræktina, setti á mig heyrnartólin og treysti á tónlist og vöðvarækt til að hlaða mig jákvæðni. Heyrnartólin virkuðu ekki. Tónlistin í ræktinni var ekki að mínum smekk, neikvæðnin tók völdin. Mér fannst allir vera fyrir mér, lóðunum var ekki raðað í réttri röð, hávaðinn frá hlaupabrettunum var að æra mig. Ég var við suðumark og rauk út. Ég settist inn í bílinn og í hausnum á mér opnaði ég fyrir neikvæðar minningar sem nú helltust yfir mig í hundraðatali. Ég var að sökkva niður í hyldýpi þunglyndis, bardaginn var að tapast.

Ég kom við í verslun, greip það sem mér hafði verið falið að kaupa og fór svo í röðina við kassann. Þar var allt stopp. Suðið í loftræstingunni, umferðin úti og skvaldur í fólki var að æra mig. Ég leit fram fyrir röðina til að sjá hvað orsakaði töfina. Tveir litlir drengir voru að reyna að borga með korti sem var ítrekað hafnað. Án þess að hugsa gekk ég fram fyrir röðina og borgaði fyrir drengina. Leit svo á þá og þá mættu mér fjögur gullfalleg augu full af þakklæti. Öll neikvæðni hvarf, litlu drengirnir höfðu bjargað mér. Fólkið í röðinni sagði einhver vinsamleg orð við mig, en þau vissu ekki að ég var ekki gefandinn heldur þiggjandinn. Þetta varð mjög góður dagur.

Jón Óðinn Waage er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Hvað á barnið að heita? Um nafnasúpu stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
05. febrúar 2025 | kl. 09:00

Marengs

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
03. febrúar 2025 | kl. 11:30

0-1

Jóhann Árelíuz skrifar
02. febrúar 2025 | kl. 11:30

Geðheilbrigðisþjónusta – Sérhæf meðferð

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
02. febrúar 2025 | kl. 11:00

Hús dagsins: Aðalstræti 14; Gudmanns minde eða Gamli Spítalinn

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. janúar 2025 | kl. 08:30

Vinnukona á Akureyri

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
31. janúar 2025 | kl. 06:00