Efnaskiptavilla – Áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma
HEILSUEFLING – III
Að fyrirbyggja hjarta- og æðasjúkdóma
Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsökin í hinum vestræna heimi. Um allan heim hefur tíðni dauðsfalla vegna hjarta- og æðasjúkdóma farið hækkandi á síðustu áratugum. Meðal helstu áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma eru reykingar, kyrrseta, offita, hár blóðþrýstingur og blóðfitusöfnun í æðakerfi. Efnaskiptavilla (e. metabolic syndrome) er hugtak sem notað er til að lýsa ákveðnu líkamsástandi en því fylgir aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum auk sykursýki af tegund 2.
Efnaskiptavilla og sykursýki 2
Efnaskiptavilla, sér í lagi meðal þeirra sem eldri eru, er vaxandi vandamál sem vert er að gefa gaum. Þá er líklegt að það hrjái marga án þess að þeir geri sér grein fyrir að búa við þennan vanda. Axel F. Sigurðsson hjartalæknir segir um efnaskiptavillu: „Efnaskiptavilla (metabolic syndrome) er hugtak sem notað er til að lýsa ákveðnu líkamsástandi sem fylgir aukin hætta á hjarta-og æðasjúkdómum auk sykursýki af tegund 2. Efnaskiptavilla er oft til staðar hjá þeim sem eru of þungir, en getur einnig verið til staðar þótt líkamsþyngd sé eðlileg, sérstaklega ef kviðfita er mikil.“ Í þessum pistli verður efnaskiptavilla skoðuð frekar, hvað hún þýðir, hvaða þættir tengjast henni og hvernig má snúa þessari villu til betri vegar.
Skilgreining á efnaskiptavillu
Til eru nokkrar skilgreiningar á efnaskiptavillu en það eru einkum fimm líkamlegir áhættuþættir sem tengja má við auknar líkur einstaklinga á að þróa með sér efnaskiptavillu. Það er aukin kviðfita sem birtist yfirleitt í vaxandi mittisummáli, háþrýstingur, hátt gildi blóðsykurs, hátt þríglýseríð (blóðfita) í blóði og lágt gildi HDL-kólesteróls (góða kólesterólið).
Einstaklingur er skilgreindur með efnaskiptavillu samkvæmd Alþjóðlegu kólestersamtökunum sé hann yfir eða undir viðmiðunum í þremur eða fleiri af þessum fimm áhættuþáttum, sjá nánar myndina hér fyrir neðan:
Hvað er til ráða til að vinna gegn myndun efnaskiptavillu?
Þrátt fyrir að efnaskiptavilla sé alvarlegt ástand má draga verulega úr áhættu með því að draga úr líkamsþyngd ef viðkomandi hefur of hátt fituhlutfall. Það markmið næst yfirleitt með því að auka daglega hreyfingu og borða heilsusamlegt mataræði sem er ríkt af heilkornum (trefjum), ávöxtum, grænmeti og fiski. Þá er æskilegt leita til læknis eða starfsfólks á heilsugæslu til að fylgjast með og stjórna blóðsykri, kólesteróli í blóði og blóðþrýstingi. Það er mat okkar sem unnið hafa með heilsueflingu eldri þátttakenda að margir hverjir hafa þróað með sér lífsstíl sem ýtir undir þessa áhættu. Slíkur lífsstíl tengist oft mikilli vinnu eins og vaktavinnu af ýmsum toga, óheilsusamlegri næringu eins og skyndibitafæði, litlum svefni og lítilli og ómarkvissri hreyfingu.
Öflugir hjúkrunarfræðingar og læknar á heilsugæslustöðum
Á hverju ári hefur Janus heilsuefling í samvinnu við hjúkrunarfræðinga og lækna á heilsueflandi móttöku á ýmsum heilugæslustöðvum í sveitarfélögum boðið þátttakendum upp á blóðmælingar til að greina efnaskiptavillu. Mælingar hafa síðan að jafnaði verið endurteknar 12 mánuðum síðar til að kanna ávinninginn af heilsueflingu í kjölfar lífsstílsbreytinga þátttakenda. Um 40–50% hlutfall í hverjum þátttakendahópi með meðalaldur um 73 ár hafa verið að greinast að jafnaði með efnaskiptavillu áður en þátttaka í verkefninu Fjölþætt heilsuefling 60+ í sveitarfélögum hefur hafist. Þetta er of hátt hlutfall sem nauðsynlegt er að bregðast við með lífsstílsbreytingum. Eftir 12 mánaða markvissa heilsueflingu höfum við aftur á móti verið að sjá jákvæðar breytingar eða lækkun á efnaskiptavillu um 20-30% sem er verulega góður ávinningur, ekki aðeins heilsufarslegur heldur einnig fjárhagslegur.
Það getur verið kostnaðarsamt fyrir heilbrigðiskerfið ef heilsutengdum forvörnum er ekki sinnt markvisst en um leið mikill sparnaður ef möguleiki er að fá fólk til að stunda bættan og betri lífssíl með heilsutengdar forvarnir að leiðarljósi. Þannig má draga úr efnaskiptavillu eða áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma samhliða því að bæta lífsgæði fólks með hækkandi aldri. Með aðkomu bæjarfélaga og heilbrigðisstofnana væri hægt á einfaldan og ódýran hátt að taka stórt framfaraskref í lýðheilsu og lífsgæðum eldra fólks.
Heilsutengdar forvarnir
Janus heilsuefling í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) gaf á sínum tíma, frá 2017 til 2023, þátttakendum í Reykjanesbæ og Grindavík kost á mælingum á efnaskiptavillu. Farið var yfir niðurstöður hjá hverjum og einum og þeim veittar nauðsynlegar upplýsingar um áhættuþætti en einnig hvernig bregðast megi við vandanum ef hann var til staðar. Með bættri þjónustu heilbriðigsstofnana eins og heilsueflandi móttöku 65+, hefur þjónustan við þennan aldurshóp eflst enn frekar. Það er von okkar að geta boðið þátttakendum í Hágæða heilsueflingu upp á sambærilegt verkefni í samvinnu við heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi/Akureyri. Með verkefninu, Fjölþætt heilsuefling í sveitarfélögum og Hágæða heilsuefling 60+ er komið til móts við þarfir eldri borgara og þeim skapaður grundvöllur fyrir bætri heilsu og betri líðan þrátt fyrir hækkandi aldur. Það er ávinningur allra aðila að vel takist til með heilsutengdar forvarnir.
Janus Guðlaugsson er PhD-íþrótta- og heilsufræðingur