Fara í efni
Pistlar

Bjútíboxið

Þegar ég fermdist fyrir sléttum þrjátíu árum voru ekki til neinir samfélagsmiðlar, ekkert Facebook, Instagram, Tik tok eða Snapchat. Þá voru heldur ekki til snjallsímar eða yfirhöfuð farsímar nema bara svona risastórir bílasímar sem að þóttu mikið tækniundur. Þegar ég fermdist var enn hringt úr skífusíma og flett upp í svokölluðum símaskrám. Þegar ég fermdist var öll sjónvarpsdagskrá í rauntíma og fólk þurfti að taka upp á svokallaðar vídeóspólur ef það vildi eiga eitthvað úr sjónvarpinu til að horfa á seinna. Tónlist var spiluð af hljómplötum en geisladiskar voru reyndar að koma sterkir inn á þessum tíma. Í sjónvarpinu voru svokallaðar þulur sem sögðu manni hvað yrði næst á dagskrá. Þegar ég fermdist voru engin Hvalfjarðargöng, maður þurfti að aka allan Hvalfjörðinn á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur, það gat verið ótrúlega þreytandi, sérstaklega af því að Hvalfjörðurinn er þannig gerður að manni finnst alltaf eins og maður sé alveg að komast út úr honum en þá er hann bara að plata.

Þegar ég fermdist var ekki búið að finna upp neina raunveruleikaþætti, það var á margan hátt mjög gott. Þegar ég fermdist var náttúrlega ekki til heimabanki, þá þurftu allir að gjöra svo vel að fara í bankann og hitta gjaldkera og borga reikninga á staðnum og taka út af svokölluðum bankabókum, þetta gerði það að verkum að það var rosa margt um manninn í öllum bankabyggingum um hver mánaðarmót, fólk stóð í röðum og sumum fannst það mjög leiðinlegt en öðrum pínu gaman, sérstaklega eldra fólki sem var hætt að vinna og fann skemmtilegan félagsskap í bankanum.

Þegar ég fermdist var í tísku að vera í nælonsokkabuxum innanundir íþróttahjólabuxur og í hælaskóm við, þetta hefur ekki komið aftur í tísku að ég best veit og mér finnst einhvern veginn eins og það sé í raun faraldsfræðilega jákvætt.

Þegar ég fermdist var mjög vinsælt að gefa bjútíbox í fermingargjöf, það voru svona kassalaga töskur með lyklalás undir förðunardót og andlitskrem þannig að allar fermingarstúlkur litu út eins og litlir læknar á leið í húsvitjun þar sem þær gengu um með þessar undarlegu snyrtitöskur.

Já það er margt sem hefur breyst frá því að ég fermdist, bæði svona tæknileg atriði og tíska en líka stórir og mun mikilvægari hlutir. Fólk sem ég elska var enn á lífi þegar ég fermdist, eins og pabbi minn sem var starfandi prestur og fermdi mig þarna fyrir þrjátíu árum og móðuramma mín sem reyndar var svo viss um að hún myndi ekki lifa ferminguna mína að hún gaf mér fermingargjöf þegar ég var tíu ára en lést ekki fyrr en ég var átján. Já það hefur sko margt breyst frá því að ég fermdist, næstum allt, nema spurningin sem var borin upp við altarið í Hóladómkirkju þann 7.júní árið 1992. „Vilt þú hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns?“ Þessi spurning er sú sama og fermingarbarn vorsins 2022 fær til að svara. Jesús er svo sannarlega hinn sami í dag og fyrir þrjátíu árum. Jesús er nefnilega ekki bundinn tækniþróun eða tísku, samgöngubótum eða samfélagsmiðlum og hann geymist illa í bjútíboxi.

Jesús lifir allt og þegar við kveðjum ástvini okkar þá er hann með okkur til að minna okkur á að lífið er stærra og sterkara en dauðinn. Það besta og um leið það versta við lífið er að það er stöðugt að breytast, við erum alltaf að kveðja og heilsa um leið, það getur aldrei orðið öðruvísi, við neyðumst til að kveðja ástvini, við neyðumst til að tileinka okkur nýja tækni, við þurfum að flytja á milli staða, skipta um húsnæði, við byrjum í nýjum skóla og kveðjum hann svo við útskrift, við eignumst vini og missum svo tengsl við suma þeirra. Heilsan okkar breytist með árunum, eftir því sem við eldumst verðum við örlítið stirðari, kveðjum æskuþróttinn en heilsum um leið reynslu áranna. Þótt þetta sé allt eðlilegur gangur lífsins þá breytir það ekki því að þetta er oft erfitt, það er erfitt að vera manneskja, það er dásamlegt að fá að vera til en það er líka oft erfitt, jafnvel þó að það erfiða sé í raun jákvætt eins og það að ljúka skólagöngu eða horfa á eftir börnunum sínum út í hið sjálfstæða líf.

Vegna þess sem hér hefur verið tíundað, er svo óendanlega dýrmætt að mínu mati, minni reynslu og minni trú að eiga Jesú Krist í lífi sínu. Eiga Jesú sem huggar og styrkir með sinni altumelskandi nærveru og von. En ekki síður að eiga Jesú gleðinnar að því það er svo mikil gleði í kristinni trú, Jesús er alltaf að minna okkur á að njóta hvers dags, láta ekki áhyggjur morgundagsins eyðileggja töfra stundarinnar sem við erum að lifa hér og nú. Jesús er hvetja okkur til að varðveita barnið innra með okkur, halda áfram að leika okkur, því ef við kunnum að leika okkur þá kunnum við líka að hrífast af lífinu og ef við getum hrifist af lífinu í dagsins önn þá eru meiri líkur á að við séum umburðarlyndari og miskunnsamari við annað fólk, að dómharkan verði minni eða löngunin ljóta til að smjatta á kjaftasögum. Með öðrum orðum ef við erum jákvæð sem við verðum þegar við kunnum að leika okkur og hrífast þá verðum við hreinlega betra fólk. Jesús gleðinnar og Jesús huggunarinnar, Jesús vonarinnar, Jesús samkenndarinnar. Jesús er upprisan og lífið á allan mögulegan máta. Til hamingju kæru fermingarbörn vorsins 2022 með að velja Jesú, lífið er dásamlegt með honum, já veistu það er dásamlegt, líka þegar það er erfitt.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00